Er lýðveldið Artsakh ekki lengur til?

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Leiðtogi lýðveldisins Artsakh, Samvel Shahramanian, hafði skrifað undir upplausn stjórnkerfis þess frá 1/1 2024 en dró þá gerð til baka 22 des. síðastliðinn. Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna, sem sendu leiðangur þangað 1. október eru þó aðeins 50 - 1.000 innfæddir eftir á svæðinu því íbúarnir flýðu nær allir undan her Aserbaísjan. Þetta svæði sem venjulega er kallað Nagorno Karabakh hefur verið byggt Armenum frá fornu fari. Árið 1823 voru Armenar 90.8% íbúa en 9.2% Tatarar eða Kúrdar (skv. Wikipediu). Aserar eiga engar minjar þar. Árið 1921 fékk Stalín þá flugu í höfuðið að láta Nagorno Karabakh fylgja Aserbaísjan en tveimur árum síðar gerði hann svæðið að sjálfsstjórnarsvæði. Friður hélst þar á tíma Sovétríkjanna, fram að tíma Gorbasjovs en þá fór að bera á löngun Asera til að ráða landinu öllu.

Í febrúar 1988 frömdu þeir pogrom í borginni Sumgait og upplifðu Armenar það sem framhald af þjóðarmorðinu 1915 er 1,5 milljón þeirra var drepin, enda eru Aserar skyldir Tyrkjum. Í janúar 1990 var svo annað pogrom framið í Baku, höfuðborg Aserbaísjan. Í skýrslu stjórnvalda til UN um stöðu kvenna 1997 er því lýst hvernig Armenar voru ofsóttir sakir trúar sinnar, krossar brenndir á bökum þeirra, þeir drepnir, pyntaðir, rændir og niðurlægðir, konum og stúlkum kynferðislega misþyrmt og jafnvel stúlkubörnum nauðgað að foreldrum ásjáandi. 1991 braust út stríð milli Armeníu og Aserbaísjan. Er samið var um vopnahlé 1994 höfðu meira en 30.000 manns látið lífið og Armenía náð undir sig stórum svæðum í Aserbaísjan. Það stóð til 2020 en þá náði Aserbaísan mörgum þeirra svæða aftur og í september á síðasta ári landinu öllu. Fregnir af þeim atburðum hafa ekki farið hátt en DW News var þó með stutta umfjöllun fyrir um mánuði síðan:

Í stríðinu 2020 styrkti Erdogan vini sína Asera með vopnum og sendi þeim málaliða er barist höfðu í Sýrlandi. Í viðtali við France 24 sagði armenski forsætisráðherrann, Nikol Pashinyan að Tyrkir stefndu enn að útrýmingu Armena með útþenslustefnu sinni og benti á árásargirni þeirra gagnvart Grikkjum og þátttöku þeirra í ýmsum stríðum. Af sama tilefni birti Sputnik viðtal við forseta Sýrlands, Bashar Assad og sagði hann að Erdogan Tyrklandsforseti stæði á bak við stríð Asera gegn íbúum Nagorno Karabakh. Er hann var spurður um ástæður Erdogans sagði hann að hegðun hans drægi dám af Bræðralagi múslima, en það var stofnað til að endurvekja ríki Ottómananna sem eins og menn muna náði yfir mjög stórt landsvæði á blómatíma sínum, m.a. Grikkland og svo réðu þeir bæði Mekka og Medína um hríð.

SÞ fengu aðgang að Nagorno-Karabakh í fyrsta skipti í áratugi eftir fólksflótta frá Armenum. (EPA MYND)

Alþjóðasamfélagið virðist viðurkenna yfirráð Asera yfir þessu svæði en hvað með yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um rétt frumbyggja? Eru þær algjörlega máttlausar og marklausar gagnvart yfirgangi Tyrkja og Asera sem hafa verið mjög samstíga í að berja niður allar hugmyndir þjóðarbrota um sjálfstæði. Alþekkt er hvernig Tyrkir hafa farið með Kúrda og  Yasídar flúðu t.d. undan Tyrkjum (m.a. til Armeníu) á tíma Ottómananna. Er búið að afskrifa frumbyggjaréttinn? Höfum við Íslendingar hann kannski ekki heldur?

Skildu eftir skilaboð