Vafasöm saga og starfsemi UNRWA

frettinErlentLeave a Comment

Eftir

Undanfarin ár hefur fylgispekt Sameinuðu þjóðanna við klerkaveldið Íran vakið nokkra athygli. Fyrir þremur árum tók Íran sæti í nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna,1 og fyrir aðeins örfáum mánuðum var Íran í forsæti á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf.2 Kaldhæðnin ætti að vera öllum augljós. Það er bersýnilegt að Sameinuðu þjóðirnar eru ekki óskeikular þrátt fyrir að vera á ýmsan hátt aðdáunarverð stofnun. Sú undirstofnun Sameinuðu þjóðanna sem á hvað mesta gagnrýni skilið er Palestínuflóttamannahjálpin, betur þekkt sem UNRWA.

Í síðustu viku rataði UNRWA í fjölmiðla vegna ásakana um að starfsmenn stofnunarinnar hafi verið viðriðnir hryðjuverk Hamassamtakanna í Ísrael þann 7. október. Í kjölfarið hafa þrettán ríki, þeirra á meðal Ísland, fryst greiðslur fjárframlaga til UNRWA.3 Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem athygli er vakin á tengslum UNRWA við hryðjuverkastarfsemi. Stutt yfirlit yfir sögu og verklag þessarar stofnunar sýnir að þar er víða pottur brotinn.

Tilurð UNRWA

Hægt væri að skilgreina 20. öldina sem öld flóttafólksins. Í heimsstyrjöldunum tveimur létu tugir milljóna lífið og milljónir fóru á vergang. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar settu Sameinuðu þjóðirnar Alþjóðlegu flóttamannastofnunina (IRO) á laggirnar. Palestínuarabarnir sem flýðu stríðsátökin milli Gyðinga og Araba á árunum 1947-1949 fengu hins vegar ekki aðstoð frá IRO. Ástæðan var sú að starfsemi IRO var í reynd Evrópumiðuð. Í seinni heimsstyrjöldinni höfðu hundruð þúsunda Evrópubúa hrakist frá heimilum sínum og flestir þeirra dvöldu enn í evrópskum flóttamannabúðum þegar IRO var stofnuð.

Með öðrum orðum var flóttamannavandinn í Mið-Austurlöndum talinn utan ábyrgðarsviðs IRO. Af þeim sökum var UNRWA stofnuð í desember 1948. Stofnun sérstakrar flóttamannahjálpar fyrir afmarkaðan hóp flóttafólks var ekki einsdæmi á þeim tíma. Ári eftir stofnun UNRWA hófst Kóreustríðið og í kjölfarið var kóreska flóttamannahjálpin (UNKRA) stofnuð. Kóreskir flóttamenn voru bersýnilega einnig taldir undanskildir ábyrgð IRO.4

Flóttamannavandanum viðhaldið

Þegar flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) var stofnuð árið 1950 þrýstu fulltrúar Arabaríkjanna á Sameinuðu þjóðirnar að halda UNRWA aðgreindri frá henni.5 Þessi krafa var fyrst og fremst til komin vegna andstöðu við að hjálpa palestínskum flóttamönnum að laga sig að nýjum heimkynnum sínum. Stefna Arabaríkjanna var sú að halda ætti Palestínumönnunum aðgreindum frá samfélaginu. Samkvæmt Sir Alexander Galloway, fyrrum framkvæmdastjóra UNRWA, var flóttamannavandanum viðhaldið svo hægt væri að nota flóttamennina „sem vopn gegn Ísrael“.6

Í áranna rás hélt UNRWA áfram að reyna að víkka út skilgreininguna á því hverjir gætu talist flóttamenn. Samkvæmt núgildandi reglugerð stofnunarinnar frá árinu 2009 hlýtur sérhver afkomandi palestínsks flóttamanns í karllegg stöðu flóttamanns. Sá réttur nær einnig til þeirra Palestínumanna sem hafa fengið ríkisborgararétt í Jórdaníu og öðrum ríkjum.7 Palestínskir flóttamenn eru einu flóttamennirnir í heiminum með þessi forréttindi. Samkvæmt almennri skilgreiningu UNHCR eru þeir sem hljóta ríkisborgararétt í dvalarlandi sínu ekki taldir til flóttamanna.8 Af þeim sökum myndi tala palestínskra flóttamanna lækka umtalsvert samkvæmt skilgreiningu UNHCR sem notuð er um alla aðra flóttamenn í heiminum.

Þessi staða ætti að vekja áleitnar spurningar. Hvers vegna er ekki til sérstök stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir flóttamenn frá Venesúela? Eða Sýrlandi? Eða Úkraínu? Hvers vegna var UNRWA ekki lögð niður á sama tíma og kóreska flóttamannahjálpin? Það er ekki annað að sjá en að Sameinuðu þjóðunum þyki palestínskir flóttamenn mikilvægari en aðrir flóttamenn. Þessi sérmeðferð á Palestínumönnum á óhjákvæmilega eftir að vekja reiði annara flóttamanna víða um heim.

Tálvonin um endurkomu

Krafan um endurkomu palestínsku flóttamannanna til Ísraels var lögð fram í desember 1948 í ályktun allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna númer 194. Í dag, rúmum sjö áratugum síðar, er krafan um endurkomu enn fyrirferðarmikil meðal andstæðinga Ísraels. Þeir telja að ályktunin frá 1948 veiti palestínsku flóttamönnunum (þeirra á meðal rúmum fimm milljónum afkomenda þeirra) rétt til að flytja til landsvæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraels.

En sú túlkun stenst ekki skoðun. Hvað varðar lögmæti kröfunnar um endurkomu er vert að benda á að ríkjum er ekki skylt að framfylgja ályktunum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þar af leiðandi eru þessar ályktanir lítið annað en pólitískar yfirlýsingar.9 Í öðru lagi hafa sjálfar grunnforsendur ályktunarinnar um endurkomu palestínsku flóttamannanna ekki verið uppfylltar. Þar segir í elleftu grein að gefa ætti þeim flóttamönnum sem vilja búa í friði við nágranna sína í Ísrael leyfi til að snúa aftur. Ef eitthvað er að marka orðræðu fulltrúa Palestínumanna í áranna rás er afar fátt sem bendir til þess að þeir ætli sér að búa í friði við nágranna sína (Gyðinga) í Ísrael.

UNRWA viðheldur þeirri tálvon að flóttamennirnir muni einn daginn flytja allir sem einn til Ísraels þrátt fyrir að slík aðgerð myndi í raun jafngilda stríðsyfirlýsingu á hendur Ísraelsríki. Það ætti að vera öllum ljóst að krafan um endurkomu er ómöguleg í framkvæmd, ekki aðeins af fyrrnefndum ástæðum heldur einnig vegna þess að það er ekki rými í Ísrael fyrir fimm og hálfa milljón manns til viðbótar við þá sem búa þar nú þegar.

Skýrslur IMPACT-se

Það eru ekki aðeins túlkanir UNRWA á ályktunum Sameinuðu þjóðanna og hverjir teljist til flóttamanna sem orka tvímælis. Undanfarin ár hafa samtökin IMPACT-se gert úttekt á námsefni grunnskólabarna í skólum á vegum UNRWA. Í skýrslunum má finna fjölmörg dæmi fengin úr námsefninu um Gyðingahatur, hvatningu til ofbeldis, lofsömun hryðjuverka og lofsömun píslarvættisdauða. Þessi dæmi brjóta alvarlega í bága við staðla Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um innihald námsefnis fyrir grunnskólabörn.10

Þegar innihald námsefnisins var gert opinbert drógu nokkur ríki tímabundið úr fjárstuðningi við stofnunina. Þegar fjárskorturinn var farinn að segja til sín neyddist framkvæmdastjóri UNRWA, Philippe Lazzarini, til að viðurkenna frammi fyrir utanríkismálanefnd Evrópuþingsins að Gyðingahatur og lofsömun hryðjuverka væri að finna í námsefninu. Undir lok fundarins sagði hann meðal annars: „Við höfum borið kennsl á þrjár tegundir vandamála í kennslubókum þegar kemur að samræmi við gildi Sameinuðu þjóðanna. Þau eru aldurshæfi, birtingarmyndir kynjanna og svo málefni sem tengjast hvatningu til ofbeldis, mismununar og svo framvegis. Gyðingahatur, óumburðarlyndi, algjörlega… Þetta eru þau vandamál sem UNRWA hefur borið kennsl á í 150 bókum…“11

Haturstjáning meðal kennara UNRWA

En það er ekki aðeins námsefni palestínskra grunnskóla á vegum UNRWA sem orkar tvímælis. Nýleg skýrsla frá eftirlitsstofnuninni UN Watch nefnir yfir hundrað starfsmanna UNRWA sem hafa gerst brotlegir við siðareglur Sameinuðu þjóðanna. Þessi dæmi fela í sumum tilfellum í sér beint Gyðingahatur auk þess að fjöldi þeirra lofsamar hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi. Auk heldur hafa tíu þeirra beinlínis vitnað í og lofsamað Adolf Hitler.12

Í byrjun október 2021 reyndi Hillel Neuer, framkvæmdastjóri UN Watch, að vekja athygli á þessu máli á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. En þegar Nazhar Khan, forseti mannréttindaráðsins, gerði sér grein fyrir ásökunum Neuers slökkti hún á streymi hans og sakaði hann um að viðhafa „niðrandi ummæli“.13 Hann hafði þó ekki gert annað en að afhjúpa sannleikann um haturstjáningu meðal starfsfólks UNRWA.

Lokaorð

Líkt og kom fram í upphafi greinarinnar eru Sameinuðu þjóðirnar ekki óskeikul stofnun. Það sést hvergi betur en þegar starf og regluverk UNRWA er skoðað. Allt frá árinu 1949 hefur stofnunin verið hindrun á vegferðinni til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs. Það hefur aldrei verið forsvaranlegt að veita palestínskum flóttamönnum sérmeðferð umfram aðra flóttamenn. Því væri auðvitað æskilegast að UNRWA væri alfarið lögð niður. Þá gæti UNHCR tekið ábyrgð á þeim Palestínumönnum sem féllu undir alþjóðlegu skilgreininguna á flóttamönnum. Þá fyrst myndu aðstæður skapast fyrir lausn þeirra undan einangrun flóttamannabúða og tálvoninni um endurkomu.

Greening birist á síðu MIFF 29.01.2024

Þessi grein er uppfærð og stytt útgáfa greinar sem birtist á Vísi.

Heimildir

1 https://www.un.org/press/en/2021/ecosoc7040.doc.htm

2 https://www.reuters.com/world/irans-appointment-chair-un-rights-meeting-draws-condemnation-2023-11-02/

3 https://unwatch.org/unrwa-terror-support-widespread-not-a-few-bad-apples/

4 Michael R. Marrus, The Unwanted: European Refugees in the 20th Century; bls. 344, 355

5 Benny Morris, 1948: A History of the First Arab-Israeli War; (Tel Aviv: Am Oved, 2010); bls. 408

6 Nefndarskýrsla; US Government Printing Office, 1953; bls. 103; aðgengilegt hér: https://books.google.is/books/about/Palestine_Refugee_Program.html?id=expH0TE8yOkC&redir_esc=y

7 Lex Takkenberg, Palestinian Refugees in International Law; Oxford University Press, 2020; bls. 90, 102

8 https://www.unhcr.org/44eb1c752.pdf, bls. 34

9 Jared Schott, Chapter VII as Exception: Security Council Action and the Regulative Ideal of Emergency, 6 Nw. J. Hum. Rts. 24 (2008).
https://scholarlycommons.law.northwestern.edu/njihr/vol6/iss1/2, bls. 56

10 https://www.impact-se.org/wp-content/uploads/PA-Reports_-Updated-Selected-Examples_May-2021.pdf

11 https://us13.campaign-archive.com/?u=cda888712516195d04c9534ec&id=9e510e8a3e

Sjá einnig myndskeið hér (tími: 14:51:11): https://multimedia.europarl.europa.eu/en/webstreaming/committee-on-foreign-affairs_20210901-1345-COMMITTEE-AFET

12 https://unwatch.org/report-un-teachers-celebrate-deaths-of-israelis/

13 https://unwatch.org/unhrc-cuts-off-un-watch-for-quoting-antisemitic-posts-by-unrwa-teachers/

Share on Facebook

Skildu eftir skilaboð