Brestir í hvelfingu loftslagskirkjunnar

frettinGeir Ágústsson, Innlent, Loftslagsmál, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Ég tel mig sjá bresti í því trúarbragði sem talar um hamfarahlýnun af mannavöldum. Hvernig yfirvöld eru farin að mýkja aðeins yfirlýsingar sínar um kolefnishlutleysi og bann á einkabílum og þess háttar. Hvernig fleiri eru að stíga fram og gera grín að vitleysunni. Hvernig almenningur og víða bændur og aðrar stéttir eru farnir að mótmæla aðförinni að samfélagi hagkvæmrar og stöðugrar orku sem um leið tryggir framleiðslu og atvinnu.

Ég staðfestist mjög í upplifun minni í gær þegar góður vinnufélagi bað um að heyra aðeins í mér. Hann hafði munað eftir kaldhæðnislegri athugasemd frá mér á einhverjum vinnufundinum og vildi heyra hvað mér fyndist um þá kenningu að losun á koltvísýringi í andrúmsloftið sé að tortíma loftslaginu. Ég var fljótur að segja honum að ég tryði því ekki að neinu leyti. Jú vissulega hefur allt áhrif á allt í einhverjum skilningi en mikið lengra nær það ekki.

Maðurinn varpaði öndinni svo létt að ég hef sjaldan séð annað eins. Hann hafði verið að missa loftslagstrú sína smátt og smátt en fannst hann ekki geta talað um það við neinn. Við ræddum saman um þetta í hálftíma og kvöddumst með bros á vör.

Þessi samstarfsfélagi minn er sérfræðingur á heimsklassa þegar kemur að því að hanna lausnir fyrir verksmiðjur sem vilja grípa koltvísýringinn sinn og troða ofan í holu í jörðinni. Hann er eftirsóttur og duglegur, sem hangir vitaskuld saman. En hann sér líka allt umstangið og sérstaklega kostnaðinn.

Hann spurði: Eru ekki til betri leiðir til að eyða milljarði evra en að grípa koltvísýring og koma fyrir í jörðinni? Og það úr bara einni verksmiðju!

Jú, auðvitað.

Ég velti fyrir mér í kjölfar þessa samtals hvort þeir séu fleiri á vinnustað mínum sem sjá með berum augum hvað er í gangi og hvað það kostar en telja sig ekki hafa neinn til að ræða við.

Ég velti fyrir mér hvort brestirnir verði ekki bráðum svo stórir og sýnilegir að fleiri þori að stíga fram og tjá sig. Kannski ekki opinskátt við kaffivélina en þá í minni hópum, a.m.k. til að byrja með.

Að lokum kemur samt að leiðarlokum fyrir þessi trúarbrögð. Mér finnst það blasa við. Þá þurfa margir sem hæst hafa gólað að kyngja stóru orðunum. Ég mun fyrir mitt leyti leyfa því að gerast án þess að svara því með háðsglósum. Að játa mistök eða að hafa fallið í enn eina upplýsingaóreiðu yfirvalda er ekkert til að skammast sín fyrir. Mikilvægast er að læra af reynslunni.

Höfundur er verkfræðingur.

Skildu eftir skilaboð