Fjármögnum við gyðingahatur?

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Samantekt: UNRWA var stofnað 1949 til að hjálpa palestínskum flóttamönnum en viðheldur í raun vanda þeirra og réttleysi

Seint á síðasta ári mátti lesa í Morgunblaðinu að frá 2011 höfum við sent tæpa tvo milljarða króna til Palestínu án þess að hafa hugmynd um til hvers féð sé notað. Í greininni er áætlað að 40% renni til Gasasvæðisins, þar sem Hamas ræður öllu. Við treystum sem sagt einni stofnun Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, fyrir fénu og skeytum engu um til hvers það sé notað. Samt hefur UNRWA í mörg ár legið undir ámæli um spillingu og um að kenna gyðingahatur í skólum sínum, auk þess að hafa sterk tengsl við hryðjuverkasamtökin Hamas.

UNRWA var stofnað í lok árs 1949 til að halda utan um þá 7- 800.000 araba er flýðu búsvæði sín sem afleiðing á tilraun nágrannaríkjanna til að rústa hinu nýstofnaða Ísrael og eftir sex daga stríðið 1967, er Ísrael vann Vesturbakkann af Jórdaníu bættust fleiri við undir væng UNWRA. Önnur flóttamannasamtök, UNHCR, voru stofnuð ári síðar og hafa þau allan heiminn undir en UNRWA sér eingöngu um Palestínuaraba, bæði innan Palestínu og utan, bæði upphaflegu flóttamennina og afkomendur þeirra í karllegg -  5.4 milljónir skv UNWRA.

UNCHR eru mun skilvirkari samtök, þrátt fyrir að hafa færri starfsmenn en fá aðeins einn fjórða af því fé er UNRWA fær á hvern skjólstæðing. Hjá UNCHR gengur flóttamannastaða ekki í arf, heldur er staða afkomanda flóttamanna metin og samkvæmt reglum UNCHR myndi aðeins lítið hlutfall Palestínuaraba teljast flóttamenn, því íbúar Gaza og Vesturbakkans flýðu ekki yfir nein landamæri og þeir sem flýðu til Jórdaníu (sem er/var hluti af Palestínu) hafa fengið jórdönsk vegabréf. Yrði UNRWA lagt niður þá fengi UNHCR væntanlega hátt í 1,6 milljörðum USD meira fé til að sinna sístækkandi hópi flóttafólks en Palestínska heimastjórnin myndi sjálf þurfa að framfleyta borgurum sínum og auðmannastétt Hamas hefði færri ástæður til að vilja halda völdum á Gasa.

UNRWA viðheldur í raun deilunni fyrir botn Miðjarðarhafsins með kennsluefni sínu þar sem alið er á gyðingahatri og jíhad og píslarvætti talið af hinu góða. Slíkt kemur fram í skýrslum. Ein þeirra, unnin af UN Watch, var lögð fyrir Bandaríkjaþing í febrúar 2017 og nefnist "Poisoning Palestinian Children". Með skýrslunni fylgdi listi 40 UNRWA kennara í Gasa, Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi sem nýlega höfðu póstað á Facebook hvatningu til hryðjuverka og gyðingahaturs, þar á meðal voru myndbönd sem afneituð Helförinni og myndir sem sýndu aðdáun á Hitler.

Síðar sama ár kom út skýrsla frá Simon Wiesenthal Center og Middle East Forum. Skoðaðar voru 150 kennslubækur UNRWA fyrir fyrsta til 12. bekk (helmingur þeirra voru nýjar). Niðurstöður skýrslunnar voru að "engin von væri um frið á svæðinu". Í bókunum stendur meðal annars að vopnuð átök séu eina lausnin, að gyðingar hafi engan tilverurétt í Palestínu og enga heilaga staði s.s. Grátmúrinn eða Grafhýsi ættfeðranna og Ísrael er ekki sýnt á kortum. Reglulega bætast við nöfn gyðingahatara á lista UN Watch og í nóvemberskýrslu þeirra "UNRWA: Hate Starts Here," mátti líta nöfn 20 UNRWA kennara sem fögnuðu fjöldamorðum Hamas hinn 7. október.

Það eru Vesturlönd sem halda UNRWA uppi: BNA, Þýskaland, ESB og Svíþjóð eru í efstu sætunum en Sádar og Tyrkir komast einnig ofarlega á blað, með mun lægri upphæðir. Íran var hins vegar ekki á skrá 2022; það ríki styrkir Gasabúa hins vegar hernaðarlega, auk Hezbollah í Líbanon og Hútana í Jemen - hópa sem dreymir um að rústa Ísrael. Á tíma Trumps sem forseta var tekið fyrir framlög BNA til UNRWA og má gera ráð fyrir að það gerist aftur, komist hann á forsetastól í næstu kosningum og Þjóðverjar (næst stærsti gjafinn) hefur tilkynnt um (skv. UN Watch) að trúlega muni aðstoð við Gasabúa í framtíðinni fara gegn um aðrar stofnanir en UNRWA, s.s. Þróunarstofnun SÞ og Rauða krossinn þýska.

Ef til vill ættum við líka að endurskoða stuðning okkar við Palestínu. Ef við höfum hvorki stjórn á eða yfirsýn um hvert peningarnir fara þá ættum við kannski að hugsa málin upp á nýtt. Rúmur helmingur þess fjár er við höfum sent hefur trúlega farið til að kenna jíhad og píslarvætti í skólum UNRWA og einhverjum hluta hafa stjórn Abbas og Hamas eflaust náð til sín. Í stað þess að treysta samtökum sem hlaða stöðugt undir sig sjálf og viðhalda spennu á svæðinu þá gætum við tekið að okkur afmörkuð verkefni, s.s. að styrkja og byggja upp einar flóttamannabúðir í Líbanon, en ástandið í þeim er mjög slæmt. UNWRA virðist t.d. ekki hafa gert neitt fyrir Nahr al-Bared sem var rústað af her Líbanon 2007 í átökum við hryðjuverkahóp tengdan Al -Qaeda.

Skildu eftir skilaboð