Íslenskar mútugjafir í Egyptalandi

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Íslenskir aðgerðasinnar múta embættismönnum í Egyptalandi til að kaupa sérvalda Palestínuaraba yfir landamærin við Gasa. Í viðtali á mbl.is viðurkenna aðgerðasinnar að bera fé á embættismenn:

það kost­ar í kring­um 5000 doll­ara fyr­ir ein­stak­ling að koma í gegn­um landa­mær­in með flutn­ingi

Fimm þúsund dollarar eru tæpar 700 þúsund krónur. Hér er ekki um að ræða greiðslu fyrir skjöl og flutninga heldur er verið að bera fé á opinbera starfsmenn er sjá um landamæragæslu á milli Egyptalands og Gasa. Það er lögbrot samkvæmt íslenskum lögum að múta. Morgunblaðið, eini fjölmiðillin sem fjallar um málið, segir:

Mútugreiðslur hér á landi sem annars staðar eru bannaðar með lögum og Ísland hefur einnig alþjóðlegar skuldbindingar hvað það varðar. Viðurlög eru sektir eða allt að fimm ára fangelsi. Það gæti því komið aðgerðasinnunum illa, því lögin eru afdráttarlaus, óháð því hvort einhverjum þyki málstaðurinn góður eða slæmur.

Mútugjafir Íslendinga í Egyptalandi eru fullframdar, játning liggur fyrir. Það hlýtur að hafa afleiðingar. Varla eru lög um bann við að bera fé á fólk upp á punt.

Á alþingi segir Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son félagsmálaráðherra að ekki standi til að íslensk stjórnvöld reiði af hendi mútufé í Egyptalandi. Morgunblaðið er eini fréttamiðillinn sem segir tíðindin.

Stéttafélög hafa gefið í samskot til að kaupa ólöglega fyrirgreiðslu í þróunarríki, þar sem opinberir starfsmenn freistast að brjóta lög fyrir reiðufé. Efling gaf eina milljón. Er það hlutverk íslenskra stéttafélaga að grafa undan lögum og siðferði í fátæku Afríkuríki? 

Sumir íslenskir fjölmiðlar, t.d. Heimildin og RÚV, búa yfir sérhæfðri þekkingu um mútugreiðslur, sem kunnugt er. Má búast við raðfréttum sem upplýsa um íslenskar mútur í Egyptalandi? Verður gerð krafa um að embætti héraðssaksóknara láti málið til sína taka, efni til rannsóknar? Geta spilltar íslenskar forréttindakonur valsað um þróunarríki og mútað fátæklingum til að fá sínu framgengt, óháð lögum og reglum?

One Comment on “Íslenskar mútugjafir í Egyptalandi”

  1. Kæra þessa einstaklinga ,þessi framkoma er að brjóta lög þær svífast einskis

Skildu eftir skilaboð