Úkraínustríðið tveggja ára en líka tíu ára

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar 2022. Stríðið er tveggja ára. Rússar tóku Krímskaga í febrúar 2014 eftir vestræna stjórnarbyltingu í Kænugarði. Stríðið er tíu ára. Á tímamótunum er hvað sorglegast að ekki hafi tekist að semja á þeim átta árum, 2014-2022, sem stríðið var hófstillt, ef hægt er að nota það orð um manndráp, en ekki á iðnaðarskala líkt og það varð fyrir tveim árum.

Frá lokum seinna stríðs er hernaður í Evrópu bannorð, tabú. Júgóslavíustríðin á síðasta áratug liðinnar aldar voru skilin sem undantekning er sönnuðu regluna um engin stríð í Evrópu. Reglan gildir ekki lengur. Öll Evrópa og Bandaríkin eiga aðild að Úkraínustríðinu, þótt nær eingöngu sé slavnesku úthellt. Hvernig yfirstandandi stríði lýkur mun ráða hvort ófriðarskeið sé runnið upp í álfunni eða að herskáum haldið í skefjum.

Stríðinu mun ljúka, eins og öllum stríðum lýkur, annað tveggja með uppgjöf eða friðarsamningum. Langt er í uppgjöf Úkraínu og ekki í augsýn að Rússar leggi niður vopn. Það er lyginni líkast að bræðraþjóðir geti stundað stríð á stórum skala þar sem mannfall er talið í hundruðum þúsunda án þess að heimavígstöðvarnar, almenningur í hvoru landi um sig, sýni meira óþol en raun ber vitni. Valdamenn í austri og vestri með kláða í gikkfingri gætu dregið þá ályktun að nú séu aðstæður hagfelldar til að virkja þjóðir til hernaðar án mikillar fyrirhafnar. Að þessu leyti gæti Úkraínustríðið markað þáttaskil. Næg eru tilefnin. Pólland ágirnist vesturhluta Úkraínu. Ungverjar og Rúmenar gætu einnig gert tilkall til landamærahéraða. Stríð hafa löngum dregið landamæri álfunnar. 

Meiri líkur eru á friðarsamningum en uppgjöf. Það gæti þó breyst hratt. Ef Úkraínuher tekst ekki að ná sæmilegri varnarstöðu á næstunni, eftir ófarir síðustu vikna, er hætta á að örvænting grípi um sig, 1917-ástand skapist í Garðaríki.

Fráfarandi yfirhershöfðingi Úkraínu, Salúsjhní, sagði í viðtali við Economist í desember 2022 að hann vonaðist til að komast hjá Mannerheim-ræðu. Þar vísaði hann til frægrar ræðu finnska yfirhershöfðingjans Mannerheim í lok vetrarstríðsins við Rússa síðvetrar 1940. Finnar fengu ekki nægan stuðning frá vestrinu, sagði sá finnski, til að halda baráttunni áfram. Úkraínumenn eru í sömu stöðu 84 árum síðar.

Vetrarstríði Finna og Rússa lauk með friðarsamningum sem enn halda, þrátt fyrir inngöngu Finna í Nató. Samningarnir voru´á rússneskum forsendum. Hugtakið ,,Finnlandisering" varð til þótt merkingin sé ævagömul, að minnsta kosti frá Pelópsskagastríðinu sem Þúkýdídes skrifaði um á fimmtu öld fyrir Krist. Smáríki etja ekki kappi við stórríki án afleiðinga. Úkraína hélt sig með vestræna bakhjarla standa jafnfætis, ef ekki framar, Rússlandi. Selenski forseti og félagar reiknuðu rangt.

Úkraína verður ekki sama ríkið og það var fyrir stríð. Rússland verður stærra og sterkara. Vesturveldin munu naga sig í handarbökin að hafa ekki samið frið 2014-2022 á meðan átökin voru glennur, ekki hildarleikur. Nema það óvænta gerðist, að Rússland stæði frammi fyrir herfilegum ósigri. Hildarleikurinn yrði barnagæla stæði kjarnorkuríki á bjargbrúninni.

Hvort heldur friðarsamningar eða uppgjöf markar sléttustríðið þau skil að 30 ára aðlögunartímabili eftir kalda stríðið er lokið. Illa gekk að aðlagast friðsamlegum samskiptum og úr varð heitt stríð. Kannski að menn staldri við og taki nýjan pól í hæðina áður en það er um seinan. En, eins og merkur heimspekikennari íslenskur sagði í útvarpsviðtali fyrir margt löngu; heimsku mannanna eru engin takmörk sett.

Skildu eftir skilaboð