Alvarlegri ákærur í byrlunar- og símastuldsmálinu

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Grunaðir blaðamenn grófu sína eigin gröf þegar þeir neituðu að mæta sem sakborningar til skýrslutöku hjá lögreglu í febrúar 2022. Blaðamennirnir töfðu rannsóknina í hálft ár, mættu ekki til skýrslugjafar fyrr en í ágúst og september. Í framhaldi komst lögregla yfir ný gögn og rannsóknin tók aðra stefnu.

Sakirnar sem blaðamennirnir stóðu frammi fyrir í febrúar 2022 lutu fyrst og fremst að meðferð þeirra á gögnum úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Þáverandi eiginkona Páls byrlaði honum 3. maí 2021 á Akureyri. Flogið var með skipstjórann á gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi. Á meðan hann lá meðvitundarlaus í tvo sólarhringa fór konan, sem glímir við andleg veikindi, tvisvar með síma skipstjórans til afritunar á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV. Fyrri afritunin mistókst og varð að endurtaka leikinn.

Vísbendingar um skipulega aðför að skipstjóranum voru fyrir hendi en áhersla lögreglunnar var til að byrja með á meðferð blaðamanna á stolnum einkagögnum. Blaðamennirnir voru kallaðir til skýrslutöku til að gera grein fyrir kringumstæðum er veika konan afhenti þeim þýfið. Fyrir liggur að margsinnis var reynt að fara inn á aðgang skipstjórans á Facebook, tölvupóst-reikning og heimabanka. Hvort voru það blaðamenn eða veika konan sem voru þar að verki? Í greinargerð lögreglu segir:

Hafa ber í huga að í síma einstaklinga í dag er allt líf þeirra skráð. Þar er að finna mikið af upplýsingum um einkalíf þeirra, einkasamtöl við fjölskyldu, vini og kunningja, jafnvel lækna, sálfræðinga, lögfræðinga ofl. Þar að finna ljósmyndir og myndskeið, jafnvel sjúkraupplýsingar og aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar.

Greinargerðin er frá 23. febrúar 2022. Hún er skrifuð vegna dómsmáls sem Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður og sakborningur höfðaði til að fá undanþágu frá dómstólum að mæta í skýrslutöku hjá lögreglu. Krafa Aðalsteins var að blaðamenn nytu friðhelgi umfram almenna borgara, sem er skylt að mæta til skýrslutöku lögreglu séu þeir grunaðir um refsiverða háttsemi. Dómstólar höfnuðu kröfu Aðalsteins. Allt sumarið 2022 skipulögðu blaðamennirnir fjórir, sem þá voru með stöðu grunaðra, þeim fimmta var síðar bætt við, að aldrei voru þeir allir á landinu á sama tíma. Um haustið gáfust þeir upp flóttanum og mættu til skýrslutöku í ágúst. Aðalsteinn síðastur, þann 9. september.

Í greinargerðinni frá febrúar 2022 ekki vikið einu orði að grunsemdum um að blaðamenn hafi átt aðild að skipulagi aðfararinnar að skipstjórnum. Aðeins er fjallað um meðferð blaðamanna, á símagögnunum annars vegar og hins vegar veiku konunni.

Meira en líklegt er að lögreglu hafi snemma grunað að blaðamenn hafi verið komnir í samband við veiku konuna fyrir byrlun og stuld. Kannski hafði lögregla einhver gögn sem bentu til skipulags með aðkomu blaðamanna. Ef svo er hafa upplýsingarnar enn ekki orðið að gögnum málsins.

En hitt er vitað að sum gögn, sem bendla blaðamenn við aðdraganda að byrlun og stuldi, voru ekki komin fram í febrúar 2022. Það er ekki fyrr en seint um haustið, líklega í desember, sem Samsung-síminn dúkkar upp í málinu. Samsung-síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra. Til að afrita síma skipstjórans urðu blaðamenn að nota samskonar símtæki.

Þóra Arnórsdóttir fékk stöðu sakbornings á sama tíma og Aðalsteinn, Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson, sem allir eru á Heimildinni, áður Stundinni og Kjarnanum. Ólíkt þremenningunum birti Þóra enga frumfrétt úr síma skipstjórans. Lögreglan taldi sig vita í febrúar 2022 að framkvæmdin, þ.e. viðtaka símans og afritun, hefði farið fram á Efstaleiti, vinnustað Þóru.

Þóra hefur verið spurð af yfirmönnum sínum á RÚV hver aðkoma hennar væri að málinu. Samkvæmt yfirlýsingu Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar Sigurfinnssonar fréttastjóra játaði Þóra það eitt að hafa tekið við gögnum. Á þeim grunni gáfu Stefán og Heiðar Örn út yfirlýsingu 20. febrúar 2022 þar sem sagði m.a.:

Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi [...] jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin.

RÚV vildi láta reyna á rétt blaðamanna til að taka við gögnum, einnig þeim sem eru illa fengin. Nokkuð djarft af RÚV að fá löggildingu sem þjófsnautur. En það er eitt að taka við stolnum gögnum og annað að skipuleggja byrlun og stuld. Þjófsnauti er ekki gerð sömu refsing og afbrotamanni með ásetning að fremja glæp. Ríkisfjölmiðill sem heldur uppi skipulagðri brotastarfsemi er kominn í þær ógöngur að ekki verður aftur snúið.

Þóra, sem sakborningur, hélt stöðu sinni á RÚV. Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri var látin fara í nóvember 2021 og Helgi Seljan um áramótin. Hvorki Rakel né Helgi hafa formlega réttarstöðu í sakamálinu, eftir því sem næst verður komist. Aftur var talið á Efstaleiti að ekki væri óhætt að hafa þau innan dyra á meðan lögreglurannsókn stæði yfir. En yfirstjórn RÚV hélt verndarhendi yfir grunaðri Þóru.

Allt breyttist þegar Samsung-síminn varð að gögnum málsins, í janúar 2023. Upplýst var að Þóra keypti símann í apríl 2021 en Páli var byrlað í maí. Kaup Samsung-símans staðfesta að vitneskja var á RÚV að væntanlegur var tiltekinn sími tiltekins skipstjóra sem mætti afrita til að komast yfir gögn er gætu orðið fréttaefni. Þóra og RÚV ætluðu aldrei að birta fréttir upp úr símanum. Fréttirnar skyldu birtast fjarri Efstaleiti.

Skipulagið gekk út á fréttir í Stundinni og Kjarnanum. Aðalsteinn Kjartansson, undirmaður Þóru á Kveik/RÚV, skipti um vinnu í hádeginu 30. apríl 2021, þremur dögum fyrir byrlunina. Fór af RÚV yfir á Stundina og er skráður höfundur fyrstu fréttar Stundarinnar um Pál skipstjóra.

Eftir að Samsung-síminn komst á dagskrá var Þóru ekki lengur vært á RÚV. Gefin var út fáorð tilkynning 6. febrúar 2023 að Þóra væri hætt á RÚV eftir 25 ára starf. Ekkert kveðjuhóf, engin ræðuhöld, aðeins skömm.

Ef blaðamenn hefðu mætt til skýrslutöku hjá lögreglu í febrúar 2022 og lagt spilin á borðið er ekki víst að þeir hefðu horft fram á alvarlegri ákæru en varðar meðferð persónugagna og brot á friðhelgi einkalífs. Nú blasir við að blaðamenn vissu fyrirfram af tvöföldum glæp, byrlun og stuldi.

Blaðamennirnir vita gjörla hvernig staðið var verki vordagana fyrir fjórum árum. Þeir þorðu ekki fyrir sitt litla líf að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sakirnar voru of stórar. Betra, hugsuðu sakborningar með sér, að neita fram í rauðan dauðann og vona að lögreglurannsókn tækist ekki að sýna fram á hvað gerðist í apríl og maí 2021 er blaðamenn níddust á alvarlegri veikri konu sem vann það óhæfuverk að byrla eiginmanni sínum til að þjónusta fjölmiðla. Blaðamenn RSK-miðla eru samviskulausir hjónadjöflar, svo mikið er víst. 

Skildu eftir skilaboð