Eftir Stefni Skúlason verkfræðing: (Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4.2.22.)
„Þar sem árangur af sóttvarnaaðgerðum sem beinast að börnum er augljóslega lítill er það borðleggjandi að afleiðingar aðgerða eru miklu alvarlegri en mögulegur ávinningur.“
Um þessar mundir, í það minnsta vestanhafs, er umfjöllun um fjöldafárssefjun (e. Mass Formation [Psychosis]) í veldisvexti. Þetta nýyrði er notað yfir það ástand sem meðal annars hefur skapast eftir stanslausan hræðsluáróður í tengslum við umfjöllun yfirvalda og fjölmiðla um nýju kórónuveiruna. Nú er svo komið að stór hluti fólks er ófær um að sjá hættuna sem veiran veldur í réttu ljósi. Þessi tegund veruleikabrenglunar birtist meðal annars hjá málsmetandi fólki sem talar fyrir aðgerðum sem ala á sundrung. Það virðist þó vera að rofa til um þessar mundir og æ fleiri að vakna úr þessari dáleiðslu og eru farnir að sjá að við erum ekki í hættu.
Í þessi tvö ár sem börnin okkar hafa lifað með Sars-CoV-2-veirunni hafa þau lítið fundið fyrir veikindum af völdum hennar. Í byrjun smituðust fá börn og þegar þau smituðust þá smituðu þau mjög lítið út frá sér. Nýjasta afbrigðið, svokallað ómíkron, er greinilega miklu meira smitandi fyrir börn en á móti kemur að það er mun vægara. Á Íslandi eru börn almennt við góða heilsu og sjáum við það á okkar tölfræði að þau ráða vel við þessa veiru. Við verðum að treysta upplýsingum okkar varðandi hversu lítil veikindin eru hjá börnum. Það er ekki boðlegt að benda á upplýsingar frá löndum eins og Bandaríkjunum hvað veikindi varðar. Það er augljóst að það er enginn ávinningur af bólusetningum barna, hvað þá með úreltu efni sem virkar ekki gegn ómíkron. Finnar, Svíar og Englendingar mæla t.d. ekki með því að bólusetja hraust börn eða hreinlega bjóða ekki upp á það.
Einnig er vert að benda á að auk þeirra þúsunda íslenskra barna sem vitað er að hafa smitast af Sars-CoV-2 og unnið á veirunni má reikna með að annar eins hópur hafi smitast af henni án þess að vita af því vegna vægra einkenna, ekki síst nú á síðustu vikum eftir að ómíkron tók að geisa. Eftirfarandi skilaboð fengu foreldrar í bréfi frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna seinni sprautu bólusetningar barna sem er fyrirhuguð í byrjun febrúar: „Athugið að ef barn hefur fengið Covid-19 þá þarf að bíða að minnsta kosti í þrjá mánuði með bólusetningu“ (leturbreyting mín). En hyggst heilsugæslan bjóða upp á mótefnamælingu til að ganga úr skugga um að barn hafi ekki óafvitandi þegar smitast af veirunni?
Nú er loks verið að vinda ofan af sóttvarnaaðgerðum og þá ekki síst hvað börn varðar. Í mínum huga er það óviðunandi valdníðsla að börn séu sett í sóttkví vegna tengsla við einhvern sem mælist með þessa veiru og er jafnvel einkennalaus. Það gengur ekki upp að nota eina tilskipun sem á að gilda fyrir alla óháð mismunandi aðstæðum. Það á að vera á hendi foreldra með ráðgjöf frá heimilislækni hversu lengi börn eru heima eftir veikindi.
Þar sem árangur af sóttvarnaaðgerðum sem beinast að börnum er augljóslega lítill er það borðleggjandi að afleiðingar aðgerða eru miklu alvarlegri en mögulegur ávinningur og hefur það átt við allan tímann. Í þessu samhengi má nefna versnandi geðheilsu barna, lakari menntun, minni hreyfingu og lélegra ónæmiskerfi.
Að lokum skora ég enn á ný á heilbrigðisráðherra að biðja börnin okkar afsökunar og hætta strax öllum sóttvörnum sem snúa að þeim.
One Comment on “Börn, sóttvarnaaðgerðir og fjöldafárssefjun”
Sammála látið börnin í friði…