Lýðheilsustofnun Kanada (Public Health Agency of Canada (PHAC)) viðurkenndi í lok desember sl. að stofnunin hafi fengið aðgang að staðsetningargögnum farsíma til að fylgjast með ferðum fólks meðan á lokunum og takmörkunum hefur staðið.
Fékk PHAC aðgang að staðsetningargögnum frá 33 milljónum fjarskiptatækja til að fylgjast með ferðum almennings.
„Vegna alvarleika heimsfaraldursins safnaði stofnunin og notaði farsímagögn, svo sem staðsetningargögn í gegnum farsímaturna, á meðan á takmörkunum stóð“ sagði talsmaður stofnunarinnar.
PHAC notaði staðsetningargögnin til að meta árangur opinberra lokunarráðstafana og gerðu stofnuninni kleift að „skilja möguleg tengsl milli ferða fólks innan Kanada og útbreiðslu COVID-19,“ sagði talsmaðurinn.
Lýðheilsustofnunin gerði samning um öflun staðsetningargagna
Í mars 2021 gerði stofnunin samning við Telus Data For Good til að fá afhent „ópersónugreinanleg og samantekin gögn“ um ferðahegðun almennings í Kanada. Samningurinn rann út í október og PHAC hefur ekki lengur aðgang að staðsetningargögnum, sagði talsmaðurinn.
Stofnunin ætlar sér að fylgjast með ferðahegðun næstu fimm árin, þar á meðal til að takast á við önnur lýðheilsumál, svo sem „aðra smitsjúkdóma, forvarnir gegn langvinnum sjúkdómum og geðheilbrigði,“ bætti talsmaðurinn við.
Gögn geta verið gerð persónugreinanleg síðar
Þeir sem láta sig persónuvernd varða hafa lýst yfir áhyggjum sínum um langtímaáhrifin.
„Ég held að kanadískur almenningur muni komast að mörgum fleiri slíkum óheimilum eftirlitsverkefnum áður en heimsfaraldrinum lýkur, og eftir að honum lýkur“ sagði David Lyon, höfundur bókarinnar Pandemic Surveillance og fyrrverandi forstöðumaður Surveillance Studies Center við Queen's University.
Lyon varaði við því að PHAC „noti sams konar „traustvekjandi“ tungumál og þjóðaröryggisstofnanir nota og nefnir til dæmis ekki þann möguleika á að gögn getið verði gerð persónugreinanleg þó þau hafi verið gerð ópersónugreinanleg á einhverju stigi.
„Í grunninn er það auðvitað þannig að hægt er að nota farsímagögn til að rekja ferðir fólks.“
Greining gagna um ferðahegðun „hjálpar til við að efla lýðheilsumarkmið,“ sagði talsmaður PHAC. Gögnunum hefur verið reglulega deilt með héruðum og svæðum í gegnum sérstaka ráðgjafanefnd til „upplýsingar, skipulagningu og stefnumótunar“ sagði talsmaðurinn.
Gögnin voru einnig notuð fyrir COVID Trends upplýsingasíðuna sem veitir yfirlit yfir ferðahegðun.
Er verið að koma á eftirlitssamfélagi í skjóli heimsfaraldurs?
Lyon lagði áherslu á að þörf væri á meiri upplýsingum „um nákvæmlega hvað var gert, hvað ávannst og hvort það þjónaði raunverulega hagsmunum kanadískra ríkisborgara eða ekki.
Að beita eftirlitsverkfærum í lýðheilsuskyni vekur einnig spurningar um jafnræði, sagði Martin French, dósent við Concordia háskóla með áherslu á eftirlit, friðhelgi einkalífs og félagslegt réttlæti.
„Það eru einstaklingar sem gætu þurft að þola aukið eftirlit sem gæti haft skaðlegar (frekar en jákvæðar) afleiðingar.”
Aukin notkun eftirlitstækni meðan á COVID-19 heimsfaraldrinum hefur staðið hefur skapað nýtt “norm” í nafni öryggis, sagði Lyon.
„Heimsfaraldurinn hefur skapað tækifæri fyrir gríðarlega aukningu á hvers kyns eftirliti á ýmsum sviðum - ekki aðeins í nafni lýðheilsu, heldur einnig til að fylgjast með þeim sem vinna, versla og stunda nám að heiman.
„Upplýsingar hafa borist frá mörgum aðilum, frá löndum um allan heim, um að það sem litið var á sem mikla eftirlitsbylgju, eftir 9. september 2001, sé komið á enn hærra stig vegna eftirlitsins í heimsfaraldrinum“ bætti hann við.
PHAC auglýsti í desember eftir verktaka til samstarfs til öflunar staðsetningargagna til 31. maí 2023 þannig að stofnunin ætlar sér að halda eftirlitinu áfram. Skrifstofa Persónuverndar í Kanada sagðist vera „í samskiptum við PHAC til að fá frekari upplýsingar um fyrirhugað frumkvæði“ og gat ekki veitt frekari athugasemdir að svo stöddu.