Noregur hefur aflétt næstum öllum takmörkunum sem eftir eru þar sem ríkisstjórnin segir faraldurinn ekki lengur vera heilsufarsógn, jafnvel þó að omicron afbrigðið sé enn að breiðast út.
„Þetta er dagurinn sem við höfum beðið eftir,“ sagði Jonas Gahr Stoere, forsætisráðherra Noregs, á blaðamannafundi í Ósló í dag. „Við erum að afnema næstum allar kórónaveiruráðstafanir.“
Hann réttlætti ákvörðunina með því að segja að Norðmenn séu vel varðir með bóluefnum og hlutfall borgara sem lenda á sjúkrahúsi hafi haldist lágt þrátt fyrir útbreiðslu omicron afbrigðisins.
Frá og með deginum í dag þurfa Norðmenn ekki lengur að vera með grímur á fjölmennum stöðum og eins metra fjarlægðarreglan fellur líka niður. Að auki er kröfum um einangrun aflétt og í stað þeirra er mælt með því að sýktir fullorðnir haldi sig heima í fjóra daga.