Jennifer Sey, næst æðsti stjórnandi Levi Strauss & Co í Bandaríkjunum, hefur hætt störfum eftir 23 ár hjá fyrirtækinu vegna fjandsamlegrar framkomu í hennar garð. Ástæðan eru skoðanir hennar og barátta gegn takmörkunum og skyldum í skólastarfi barna í Kaliforníu vegna COVID-19. Þetta kemur fram í 1.700 orða greinargerð sem hún birti á mánudagsmorgun.
Sey segist hafa ákveðið að hætta og hafna eins milljón dollara starfslokasamningi „í skiptum fyrir skoðanir hennar.“ Æðstu stjórnendur Levi´s höfðu tjáð henni að hún væri á réttri leið með að verða næsti forstjóri fyrirtækisins, ef hún myndi hafa hemil á skoðunum sínum varðandi lokun skólanna.
Sey hefur tjáð sig opinberlega gegn grímuskyldu og skólalokunum frá upphafi faraldurs. Hún hefur fjallað opinberlega um baráttu sína á Twitter og skrifað greinar í fjölmiðla, komið fram í sjónvarpi og skipulagt fjöldafundi til að þrýsta á að skólum væri haldið opnum.
„Ég setti spurningamerki við það hvort loka þyrfti skólum. Mér þótti það mál ekki flokkast sem umdeild skoðun,“ skrifaði Sey. „Mér fannst og finnst enn að hörðustu aðgerðirnar muni valda mestum skaða fyrir þá sem eru í minnstri hættu og byrðarnar yrðu þyngstar hjá illa stæðum börnum í opinberu skólunum, það eru þau börn sem þurfa mest á öryggi og rútínu skólastarfsins að halda.“
Samkvæmt Sey féllu skoðanir hennar í grýttan jarðveg hjá æðstu stjórnendum Levi's.
„Mér var ítrekað sagt að „hugsa um það sem ég væri að segja“ skrifaði hún og bætti við að þessir vinnufélagar hennar hefðu nú ekki mótmælt opinberum stuðningi hennar við Elizabeth Warren í forvali demókrataflokksins á sínum tíma.
Missti vonina og flutti til Colorado
Kornið sem fyllti mælinn, sagði Sey, var þegar hún koma fram í Fox News þætti Lauru Ingraham í mars sl., þar sem hún sagðist hafa misst vonina um að skólar í Kaliforníu yrðu opnaðir á ný, sem varð til þess að hún flutti til Colorado.
Sey sagði að í kjölfar þáttarins hafi samstarfsmenn farið að kalla hana rasista, "anti-trans," "anti-offitu" og "anti-vísinda" á göngum fyrirtækisins.
„Ég held að margir af fyrrverandi samstarfsmönnum mínum viti að þetta er rangt. Ég held að þeir hafi kosið að þegja af ótta við að missa stöðu sína innan fyrirtækisins eða verða fyrir reiði fjöldans,“ skrifaði Sey. „Ég vona að með tímanum muni þeir gangast við þeirri staðreynd.“
Í lok júlí skrifaði Sey á Twitter: „ef ég var spurð um mínar pólitísku skoðanir hefði ég allt fram til febrúar 2020, sagst vera vinstra megin við miðju. En nú hef horft á „framsækna“ leiðtoga leggja opinbera menntakerfið í rúst, meina börnum aðgang að eðlilegu lífi, eyðileggja lítil fyrirtæki og rógbera hluta þjóðarinnar til að sundra okkur...“