Þjónn hinna spilltu

frettinErna Ýr Öldudóttir, PistlarLeave a Comment

Um tengsl forsetans Zelensky, ólígarkans Kolomoisky og Washington D.C.
Þýdd fréttaskýring eftir Pedro Gonzales sem er fastur penni hjá Chronicles: a magazine of American Culture og útgefandi Contra newsletter. Greinin birtist fyrst á vefritinu IM1776

Í febrúar 2021 lokuðu úkraínsk stjórnvöld þremur innlendum sjónvarpsstöðvum að fyrirskipun forsetans Volodymyr Zelensky, með ásökunum um að dreifa rússneskum „áróðri". Þremur mánuðum síðar, lét Zelensky handtaka Viktor Medvedchuk, þá leiðtoga næststærsta stjórnmálaflokks landsins á úkraínska þinginu; OPZZh sem er hliðhollur Rússlandi og efins um inngöngu í ESB.

Zelensky átti í engum vandræðum með að valta yfir lýðræðisleg viðmið löngu áður en rússneski herinn hóf innreið sína í Úkraínu á þessu ári. Það kom því lítið á óvart þegar hann endurtók leikinn nú í lok mars, og tók sér neyðarvald skv. herlögum til að þjóðnýta sjónvarpsstöðvar og banna ellefu stjórnarandstöðuflokka, þar á meðal OPZZh. Þetta gerði hann undir yfirskini baráttu gegn röngum upplýsingum og samúðarmönnum Rússlands, jafnvel þó að núverandi formaður OPZZh, Yuriy Boyko, hafi fordæmt stríðið, kallað eftir vopnahléi og brottflutningi rússneskra hermanna frá Úkraínu. Zelensky ætlaði hins vegar ekki missa af tækifæri til að klippa vængi pólitískra andstæðinga, og svo sannarlega ekki núna þegar vestrænir fjölmiðlar réttlæta og lofsama allt sem hann gerir.

Glansmyndin sem dregin hefur verið upp af úkraínska forsetanum hvítþvær hinn raunverulega Zelensky, og dregur fjöður yfir víðfeðman spillingarvef og rotþró vafasamra alþjóðlegra athafna. Til að skilja hver Zelensky er, þarf ekki annað en að horfa á skapara hans, óligarkann Ihor Kolomoisky. Forsetinn er í raun og sannleika leiksoppur.

Pandóru-skjölin

Í dag hljómar það með ólíkindum, en afhjúpanir úr Pandóru-skjölunum - milljónum skráa sem lekið var frá netþjónustum í aflöndum til alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna ICIJ og dreift um heim allan - ollu Zelensky umtalsverðum vandræðum og um stund var útlit fyrir endalok stjórnmálaferils hans. Leikarinn sem varð stjórnmálamaður, umbótasinninn sem binda ætlaði enda á spillingu. Pandóru-skjölin sýndu hinsvegar að hann var engu betri en forverar hans.

Af yfir 300 stjórnmálamönnum og opinberum embættismönnum, þ.á.m. nokkrum núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogum, í meira en 91 ríki og yfirráðasvæði, að Rússlandi meðtöldu, sem skjölin voru tengd við, var Úkraína upprunaland flestra leynilegra aflandseigna. The Organized Crime and Corruption Reporting Project (OCCRP), sem tók þátt í rannsókninni, komst að því að rétt áður en Zelensky var kjörinn forseti, „afhenti hann hlut sinn í lykilaflandsfyrirtæki, Maltex Multicapital Corp., sem skráð er á Bresku Jómfrúreyjum, viðskiptafélaga sínum. Sá maður varð aðstoðarmaður hans eftir kjör hans í embætti forseta. Þrátt fyrir að hafa látið hlutabréf sín af hendi sýna skjölin að fljótlega var gert ráð fyrir að aflandsfélögin gætu haldið áfram að greiða arð til fyrirtækis sem nú tilheyrir eiginkonu hans.

Rétt eins og í atlögu sinni að málfrelsi og pólitískri andstöðu, reyndi skrifstofa Zelenskys að réttlæta notkun aflandseyja með því að kenna yfirgangi Rússa um. Ráðgjafi starfsmannastjóra Zelenskys sagði að aflöndin væru nauðsynleg til að „verja tekjur hópsins gegn „árásargirni „spilltrar stjórnar Viktors Yanukovych fyrrverandi forseta, sem var steypt af stóli í litabyltingu studdri af Bandaríkjunum árið 2014. Dýru eignirnar sem félagar Zelensky eignuðust í miðborg Lundúna í gegnum aflönd, að því er virðist, hafi aðeins verið nauðsynlegt skjól fyrir ofsótta Úkraínumenn.

Rétt er að Zelensky og félagar hans í sjónvarpsframleiðslufyrirtækinu Kvartal 95, komu á fót neti aflandsfyrirtækja allt frá árinu 2012. Það var árið sem fyrirtækið hóf að framleiða reglulega efni fyrir sjónvarpsstöðvar í eigu Kolomoiskys, skrautlegasta óligarka Úkraínu, og lykilbakhjarl Zelenskys.

Ribbaldinn

Kolomoisky er meðal annars þekktur fyrir að hafa storkað gestum með því að fóðra hákarl í risastóru búri á skrifstofu sinni í Dnipropetrovsk. Greint hefur verið frá því að hann hafi fyrirskipað leigumorð. Væri hann ekki raunverulegur hefði Richard Marcinko líklega skáldað hann upp sem skúrk í einni af Rouge Warrior bókum sínum.

Kolomoisky er þekktur fyrir að vera meðstofnandi, og til ársins 2016, aðaleigandi PrivatBank, stærsta viðskiptabanka Úkraínu, auk PrivatBank Group, alþjóðlegs viðskiptahrings sem stýrir þúsundum fyrirtækja í flestum atvinnugreinum. Hann nær frá Úkraínu til Evrópusambandsins, Georgíu, Rússlands, Bandaríkjanna og víðar. Hann hafnaði því að hafa eða þurfa að hafa áhrif á forsetann, en þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sleit viðræðum við ríkisstjórn Zelenskys eftir að hafa ekki náð að lenda nýjum lánasamningi árið 2019 (með vísan til umfangsmikillar spillingar), var Kolomoisky spurður í viðtali hvor myndi sigra ef Zelensky yrði neyddur til að velja á milli hans og lána Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, svaraði hann: „Ég myndi gera það. Í úkraínskum fjölmiðlum kemur fram að Kolomoisky hafi ekki neitað fyrir að að hafa fjármagnað kosningasjóði Zelenskys.

Kolomoisky byggði gífurlegan auð sinn ofan á PrivatBank, fyrst og fremst sem „ribbaldi (e. Raider). Í umfjöllun fyrir Harper's Magazine um bakhjarl Zelenskys, skýrði Andrew Cockburn merkingu þess hugtaks með hjálp Matthew Rojansky, forstöðumanns Kennan Institute við Woodrow Wilson Center for International Scholars. Það eru fyrirtæki í Úkraínu „skráð með skrifstofur og nafnspjöld, fyrirtæki [sem sérhæfa sig í] ýmsum stigum innrásarferlis inn í fyrirtæki, sem felur m.a. í sér aðgerðir vopnaðra manna, skjalafals og mútur til lögbókenda og dómara sagði Rojansky við Cockburn. Samkvæmt Rojansky er Kolomoisky „frægasti ribbaldinn úr hópi óligarka, sakaður um að hafa stundað umfangsmikla innrásaherferð á u.þ.b. tíu árum fram til ársins 2010. Á einhverjum tímapunkti tókst honum að lenda á bannlista fyrir vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, og fékk hann ekki að koma þangað.

En hagsmunir ólígarkans ná talsvert útfyrir skuggaleg viðskipti, og skarast við málefni Washington á svæðinu.

Milli áranna 2013 og 2014 studdu Bandaríkin litabyltingu í Úkraínu sem leiddi til stjórnarskipta. Atvikið olli borgarastyrjöld milli stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna hliðhollum Rússlandi í austurhluta landsins, sem lýstu yfir sjálfstæði frá Kænugarði. Í þessari krísu skipaði starfandi forseti, Oleksandr Turchynov, Kolomoisky landstjóra í Dnipropetrovsk Oblast. Hann breytti starfsmönnum sínum í einkaher til að berjast gegn aðskilnaðarsinnum. En þó Kolomoisky væri nú orðinn stríðsherra, vanrækti hann ekki viðskiptaveldi sitt.

Ólígarki með blessun Washington

Árið 2014, samþykkti Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn neyðaraðstoð til Úkraínu og dældi milljörðum dollara inn í Seðlabanka Úkraínu, til að aðstoða viðskiptabankana í landinu. Í gegnum alþjóðlegt samsæri sem nær yfir bankareikninga PrivatBank og fyrirtæki PrivatBank Group auk spillts úkraínsks réttarkerfis, tókst Kolomoisky að rupla milljörðum dollara úr aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svikamyllan, sem sjá má í röð réttarhalda, var útskýrð af Cockburn:

42 úkraínsk fyrirtæki í eigu 54 aflandsfélaga skráðra í karabískri, bandarískri og kýpverskri lögsögu, í tengslum eða samvinnu við fyrirtæki Privat group, tóku lán hjá PrivatBank í Úkraínu upp á 1,8 milljarð dollara. Fyrirtækin pöntuðu vörur frá sex erlendum „birgjum", þar af þremur í Bretlandi, tveimur á Breskju Jómfrúreyjum og einum á karabísku eyjunum Kitts & Nevis. Greiðslur fyrir vörurnar, upp á 1,8 milljarða dollara, voru fljótlega fyrirframgreiddar inn á reikninga birgjanna. Þeir voru fyrir algera tilviljun í útibúi PrivatBank á Kýpur. Eftir að peningarnir voru millifærðir, sömdu úkraínsku innflutningsfyrirtækin um að lán þeirra yrðu tryggð hjá PrivatBank í Úkraínu með veði í vörusendingunum.

En hinir erlendu birgjar gátu undantekningarlaust ekki staðið við að afhenda pantanirnar og brutu þar með samningana, án nokkurrar endurgreiðslu. Að lokum sóttu úkraínsku innflutningsfyrirtækin mál sín fyrir viðskiptarétti í Dnipropetrovsk, með kröfu um endurgreiðslu fyrirframgreiðslunnar auk niðurfellingar á lánatryggingum PrivatBank. Í 42 af 42 slíkum málum varð niðurstaða réttarins sú sama: fyrirframgreiðslunni skyldi skila til úkraínska félagsins, en lánatryggingin skyldi standa.

Á þessum tíma var Kolomoisky með mörg járn í eldinum. Árið 2014 var sama ár og sonur Joe Biden, þá varaforseta Bandaríkjanna, Hunter Biden, átti að hafa sest í stjórn úkraínska orkufyrirtækisins Burisma þar sem Kolomoisky var ráðandi hluthafi skv. umfjöllum New York Post. Tölvupóstar sem blaðið komst yfir upplýstu um að Vadym Pozharskyi, skjólstæðingur Kolomoiskys, átti samskipti við Hunter árið 2015 um fund Pozharskyi og þáverandi varaforsetans Biden. Ennfremur sýna bankayfirlit Hunters (löglega fengin úr opinberum rannsóknum D&A) greiðslur sem bárust frá PrivatBank.

Árið 2015 flæktist Kolomoisky aftur í mál sem að lokum leiddi til framgangs Zelenskys.

Í mars á því ári tóku húskarlar Kolomoiskys yfir stjórn Ukrnafta, stærsta olíu- og gasframleiðanda landsins, með valdi. Auk þess UkrTransNafta, sem stjórnar nánast öllum olíuleiðslum í Úkraínu. Svona vildi Kolomoisky lýsa óánægju sinni með hógværar umbætur stjórnvalda, sem ógnaði beinlínis stöðu þáverandi forseta, Petro Poroshenko. Poroshenko biðlaði því til Washington um hjálp - nefnilega til aðstoðar-utanríkisráðherra málefna Evrópu og Evrasíu, Victoriu Nuland og Geofrey Pyatt, sem þá var sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu.

Nuland er slettireka (e. Interventionist), gift erki-nýíhaldsmanninum (e. NeoCon) Robert Kagan. Hún hefur verið nefnd „arkitekt bandarískra áhrifa í Úkraínu". Hún var lykilmaður í stjórnarskiptunum, og hefur starfað undir forystu allra Bandaríkjaforseta nema Trump síðan Bill Clinton varð forseti. Fólk eins og Nuland er ástæðan fyrir því að forsetar koma og fara, á meðan utanríkisstefna slettirekunnar sýnir á sér lítið fararsnið.

Með aðstoð Washington D.C., gegn því að hann myndi draga sig í hlé, tókst Poroshenko að láta fjarlægja Kolomoisky af bannlista vegabréfsáritana, ásamt fleiru. En mest um vert var að Pyatt og Nuland litu í hina áttina þegar kom að svindli Kolomoiskys á Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, á meðan Washington lét hundelta aðra óligarka.

Samtímis því að þykjast ekki sjá spillingu Kolomoiskys, reyndu bandarísk stjórnvöld að fá úkraínska óligarkan Dmitry Firtash framseldan vegna mútumáls sem hafði átt að eiga sér stað á Indlandi. Hans raunverulegi glæpur var þó að vera með tengsl við stjórnvöldin sem Nuland hafði tekið þátt í að kollvarpa, auk kynna hans við hinn fallna forseta landsins, Viktor Yanukovych. Þegar Firtash áfrýjaði framsalsbeiðninni, komst evrópskur dómari að því að „Bandaríkin sæju Firtash sem mann sem ógnaði viðskiptahagsmunum þeirra". Hvað sem hverju líður, Washington er með stálminni og Firtash gæti orðið að svara fyrir bandarískum dómstólum síðar.

Jafnvel á meðan Kolomoisky var fjarlægður af bannlista Bandaríkjanna, á hann að hafa haldið áfram að svindla og svíkja gríðarlega peninga út úr PrivatBank. Sumar svikamyllurnar hans teygðu anga sína til Bandaríkjanna.

Samkvæmt dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, um það bil frá árinu 2008 til og með ársins 2016, hélt Kolomoisky áfram að taka lán og opna lánalínur sem hluta af svikavef upp á að minnsta kosti 5,5 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir í kringum fimm prósent af þjóðarframleiðslu Úkraínu á þeim tíma. Í Bandaríkunum virðast milljónir af þessu fé hafa verið þvættaðir í gegnum fasteignaviðskipti á einkamarkaði, í allt frá Ohio til Kentucky og Texas. Til viðbótar á þessi velgjörðamaður Zelenskys að hafa keypt tylft stálverksmiðja í smábæjum vítt og breitt um Bandaríkin. Þar skildi hann eftir sig sviðna jörð gjaldþrota, ógreiddra opinberra gjalda, grotnandi mannvirki og hundruð atvinnulausra stálverkamanna.

Með þjóðnýtingu PrivatBank árið 2016, lögðu úkraíns stjórnvöld síðan byrðarnar af bankaábyrgðum upp á marga milljarða dollara á herðar skattgreiðenda sinna.

Þjónn fólksins

En Kolomoisky skyldi hefna fyrir atlöguna að veldi sínu. Slagnum við Poroshenko, sem endaði með því er virðist niðurlægingu ólígarkans, lauk í mars 2015.

Í október sama ár, birtist fyrsti þátturinn í nýrri röð sjónvarpsþátta, Þjónn fólksins á sjónvarpsrásinni 1+1. Zelensky lék þar aðalhlutverkið: sögukennara í gagnfræðaskóla sem óvænt verður forseti Úkraínu, og einsetur sér að berjast gegn spillingu stjórnvalda í landinu. 1+1 er í eigu 1+1 Media Group, einu stærsta fjölmiðlafyrirtækis Úkraínu. Eigandinn, skv. Atlantic Council, er enginn annar en sjálfur Kolomoisky, sem „gefur honum umtalsverð áhrif í Úkraínu nútímans. Eignarhlutur hans í fjölmiðlum var notaður til að kynna forsetaframboð Zelenskys, en þættirnir sem slógu í gegn voru sýndir á sjónvarpstöðvum Kolomoiskys".

Sjónvarpsserían Þjónn fólksins var framleidd af Kvartal 95, fyrirtæki stofnuðu af Zelensky, en viðskiptafélaga hans er að finna í tengslum við aflandsfélög úr Pandóru-skjölunum. Eftir að Zelensky skaust upp á stjörnuhimininn, settust lykilmenn úr Kvartal 95 í ríkisstjórn Zelenskys. Ivan Hennadiyovych Bakanov, til dæmis, fór úr því að vera framleiðslustjóri í myndveri í að verða yfirmaður Öryggissveita Úkraínu (SBU) undir Zelensky.

Sjónvarpsþættirnir sköpuðu persónuna, forsetann Zelensky, sem veitti honum tækifæri á að hefja óopinbera kosningabaráttu gegn ríkjandi stjórnvöldum í landinu, þar til í mars árið 2018 þegar umsókn um skráningu á nýjum stjórnmálaflokki með sama nafni og sjónvarpsserían barst dómsmálaráðuneytinu. Í desember 2018, tilkynnti Zelensky opinberlega um forsetaframboð sitt á sjónvarpstöðinni 1+1.

Zelensky, sköpunarverk ólígarka, fór ekki úr karakter þeim er hann hafði leikið í grínþáttunum, í kosningabaráttu sinni, og hafði sigur í kosningunum 2019. Á meðan á kosningabaráttunni stóð, birti Volodymyr Ariev, samherji Poroshenko, kort sem sýndi hvernig Zelensky og sjónvarpsfélagar hans voru fjármagnaðir af neti aflandsfélaga sem áttu að hafa þegið milljónir frá PrivatBank Kolomoiskys.

Ásökununni var hafnað sem staðlausri á þessum tíma, en Pandóru-skjölin sýndu fram á að mörg þessara félaga stemmdu við kort Arievs, eins og skýrsla OCCRP bendir á.

Fljótlega eftir að Zelensky og flokkur hans Þjónn fólksins tóku við stjórnartaumunum, hófu þau að reka úkraínska ráðherra sem höfðu unnið sér inn orðspor um að  vinna að upprætingu spillingar, á grundvelli slakra vinnubragða. Daria Kaleniuk, yfirmaður Miðstöðvar um upprætingu spillingar, sagði í samtali við The Washington Post í mars 2020, að þessar aðgerðir sendu þau skilaboð að Zelensky „getur rekið fólk sem tekur áhættu til að breyta rétt, og sakað viðkomandi um slæleg vinnubrögð". Blaðamaður frá Kænugarði sem skrifar í þágu umbóta, Oleg Sukhov tók undir þessi orð hennar í fyrra, og skrifaði að „Zelensky hefur endurtekið komið í veg fyrir að embættismenn séu sóttir til saka og svæft umbótavinnu gegn spillingu". Þegar efnt var til undirskriftasöfnunar til að reka vara-starfsmannahaldara hans Oleh Tatarov, vegna ásakana um mútur, þvertók hann fyrir að reka hann.

Hausarnir sem fengu að fjúka voru jafnframt þeir sem voru líklegastir til að ógna veldi Kolomoiskys, en af honum gæti Zelensky hafa lært sitthvað.

Á blaðamannafundi árið 2020, kvaðst hann vilja láta minnast sín sem „forsetans sem lagði góða vegi í Úkraínu". Eitt af fáum verktakafyrirtækjum sem fékk úthlutað bróðurhlutanum úr sjóðum ríkisins til vegagerðar eftir það er PBS LLC, sem tengist Skorzonera LLC, félag að hluta í eigu Kolomoisky, skv. fyrirtækjaskrám.

PBS hefur verið sakað af úkraínskum eftirlitsmönnum um að misfara með milljónir af opinberu fé til vegagerðar. Í úrskurði dómstóls í Ivano-Frankivsk Oblast kemur fram að ásamt Skorzonera sem stjórnað er af Kolomoisky, þá er það tengt mýgrút skyldra rekstrareininga sem oft deila bæði heimilisföngum og starfsfólki. PBS og Skorzonera hafa jafnvel sent inn skattaskýrslur rafrænt frá sömu IP-tölunni.

Til dæmis, fyrrum ráðherra tollamála, Maxim Nefyodov var einn af umbótamönnunum sem Zelensky rak. Nefyodov er þekktastur fyrir að hafa látið smíða ProZorro, kerfi til að uppræta spillingu í opinberum rekstri.

Eftir að hafa losað sig við Nefyodov, notaði stjórnmálaflokkur Zelenskys meirihlutavald sitt á þinginu til að samþykkja lagabreytingu, sem gerði ráð fyrir dýrustu vegaframkvæmdum í sögu Úkraínu, án nokkurs eftirlits og án þess að notast við ProZorro kerfið. Í júní í fyrra greindi Kænugarðspósturinn frá því hvernig „Zelensky hefur tvöfaldað útgjöld til vegaviðgerða, og við það teygt sig í sjóði ætlaða í aðstoð vegna COVID og fé sem Úkraínu hefur áskotnast fyrir alþjóðlegum nefndum." Það er athyglisverð uppspretta fjár, með tilliti til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti margmilljarða dollara í efnahagsaðstoð árið 2020 „til að hjálpa Úkraínu að mæta áskorunum við greiðslur og fjárlagagerð vegna faraldurs COVID-19". Er mögulegt að Zelensky hafi rifið blað út úr handbók Kolomoiskys um meðferð alþjóðlegrar efnahagsaðastoðar? Það er erfitt að vera viss.

Jafnframt er óljóst hversvegna bandarísk stjórnvöld ákváðu eina ferðina enn að beita Kolomoisky refsiaðgerðum í mars síðastliðnum, eftir að hann hafði áður verið tekinn af bannlista þrátt fyrir vafasöm viðskipti sín. Í fréttatilkynningu kvað Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna ástæðuna vera „þátttöku hans í grófri spillingu". En það vissu bandarísk stjórnvöld þegar þau settu hann á bannlistann og tóku hann af honum aftur, til að byrja með. Til að gera málið enn óskiljanlegra, tók Blinken séstaklega fram árin 2014 til 2015, þegar Kolomoisky „var þátttakandi í spillingu sem gróf undan lögum og reglu og tiltrú úkraínsku þjóðarinnar á lýðræðislegum stofnunum og opinberum málarekstri, ásamt því að notfæra sér pólitísk völd og opinber ítök til að hagnast á því persónulega".

Þetta kemur þó ekki á óvart, ef við rifjum upp að Nuland átti þátt í að strika Kolomoisky af bannlistanum á þessum tíma, þegar Blinken var aðstoðar-öryggisráðgjafi Obama-stjórnarinnar. Blinken minntist ekki einu sinni á meintar gripdeildir Kolomoiskys í Bandaríkjunum.

Leiksoppur

Árið 2019, rétt eftir kosningasigur Zelenskys, gaf Kolomoisky til kynna að hann væri reiðubúinn að bera vopn á klæðin og semja frið við Rússland. Borgarastyrjöldin í austurhluta Úkraínu hafði fram að því kostað fjórtán þúsund mannslíf. Óligarkinn kvað nú vera nóg komið: „Styrkur þeirra er meiri hvort sem er. Við þurfum að bæta samskiptin", var haft eftir honum hjá The New York Times. En hann sá einnig hindrun: „Fólk vill frið, gott líf, það vill ekki eiga í stríði. Og þið [Washington] rekið okkur í stríð, og gefið okkur ekki einu sinni peninga fyrir því".

Beittu Bandaríkin velgjörðamann Zelenskys refsiaðgerðum, svipað og þau gerðu við Firtash, til að mjaka honum í rétta átt?

Í seinna tilfellinu, hótuðu Bandaríkjamenn að láta handaka Firtash fyrir mútur til að þrýsta á Yanukovych til að undirrita viðskiptasamninga við Evrópusambandið. En sá samningur var í raun plott til að veikja rússneska hagkerfið.

Þrátt fyrir að vera álitinn einfaldlega „Rússlandsvinur", Yanukovych, eins og The Economist útskýrði, kaus að „dansa á línunni og forðast að velja sér lið á meðan hann vildi halda áfram að mjólka [Evrópusambandið og Rússland]". „Ef takast ætti að fá Yanukovych til að skipta um skoðun, væri upplagt að þjarma að honum með því að hóta að setja velgjörðamann hans, Dmitry Firtash á bakvið lás og slá", skrifaði Cockburn. „Fjórum dögum síðar, gaf Yanukovych til kynna að hann væri reiðubúinn að undirrita samninginn, en þá skyndilega drógu Bandaríkin beiðnina um að handaka bakhjarl hans milljarðamæringinn til baka".

En Yanukovych breytti um stefnu og samþykkti gagntilboð frá Moskvu, afdrifarík ákvörðun sem varð að vendipunkti fyrir litabyltinguna. Enn Cockburn: „Götumótmæli í Kænugarði fylgdu, við ákafa velþóknun Nuland, sem fór og útdeildi smákökum sem þakklætisvott til mótmælendanna."

Yanukovych flúði Kænugarð 22. febrúar. Fjórum dögum síðar, endurnýjuðu bandarísk stjórnvöld handtökuskipunina á Firtash. „Þeir gerðu það rétt og skylt. Hann sat ekki lengi inni áður en hann var laus aftur fyrir lausnargjald að andvirði 174 milljón dollara og beið niðurstöðu áfrýjunar vegna framsalsbeiðni."

Hvort að eitthvað þessu líkt hafi hent ólígarka Zelenskys væri góð spurning, en henni verður líklega ekki svarað í bráð.

Stóra lygin

Stríðið hefur algerlega endurskapað Zelensky, og bjargað honum frá forsetatíð morkinni af hneykslismálum og sviknum loforðum. Eins og könnun Alþjóðlegu félagsfræðistofnunarinnar í Kænugarði sýndi, þá studdi hann aðeins 24% kjósenda í lok janúar síðastliðnum. En nú, þökk sé vinsældum leikarans á Vesturlöndum, sem hefja hann yfir alla gagnrýni, er hann ausinn lofi sem hann á ekkert inni fyrir og gífurlegum fjárhæðum peningaaðstoðar frá alþjóðasamfélaginu. „Áður en stríðið hófst sendu Bandaríkin 300 milljónir dollara árlega til Úkraínu", sagði Mark Cancian, hátt settur ráðgjafi hjá Miðstöð um stefnu í alþjóðamálum, greindi NPR frá. Núna erum við að senda 100 milljónir dollara á dag til ríkis sem var þar til nýlega álitið „spilltasta ríki Evrópu".

Þar til í dag, er bara Bandaríkjastjórn á leiðinni að afhenda meira en 50 milljarða dollara í fjárhagsaðastoð til Úkraínu. Til samanburðar áætlaði innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að landamæraveggur Trump myndi kosta um það bil 21,6 milljarða Bandaríkjadala. Repúblikanar sérstaklega, eyddu fyrstu tveimur árum forsetatíðar Trump í að streitast á móti fyrirætlunum hans um að fjármagna og reisa vegginn, áður en þeir samþykktu með semingi fjárhæð mun lægri en þá sem þeir samþykktu á augabragði að senda til Úkraínu, og sökuðu efasemdamenn um að vera ekki nægilega þjóðhollir.

Hverjar ætli séu líkurnar á því að þessir milljarðar af alþjóðlegri fjárhagsaðstoð hverfi til að fóðra vel tengda vasa?

Enginn spyr að þessu né annarra mikilvægra spurninga. Rétt eins og enginn spurði hvort það væri ekki undarlegt að Zelensky lýsti því yfir að Rússland yrði að „drepa alla borgarbúa" í höfuðborginni til að taka hana og ná honum sjálfum. Þetta virðist vera verðmiðinn dýri sem „Þjónn fólksins" er tilbúinn að láta Úkraínumenn greiða, og sem Washington ætlar með glöðu geði að láta bandarískan almenning niðurgreiða.

Erna Ýr Öldudóttir þýddi

Skildu eftir skilaboð