Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Þýskaland stendur frammi fyrir pólitískri martröð. Innviðir samfélagsins, t.d. sjúkrahús og elliheimili, gætu þurft að skerða þjónustu. Samfélag okkar kemst að ítrustu þolmörkum.
Skilaboðin hér að ofan eru frá Robert Habeck efnahagsmálaráðherra Þýskalands.
Orkuskortur er ástæða bölsýni ráðherrans. Þýskaland er bjargarlaust án rússneskrar orku. Á sléttum Garðaríkis er háð stríð. Þjóðverjar, ESB og Nató styðja Úkraínu gegn Rússum.
Rússar eru rétt að byrja stríðið, sagði Pútín forseti á fundi með leiðtogum allra flokka i Dúmunni, rússneska þinginu.
„Rétt að byrja“ þýðir að Rússar hafa ekki notað nema brotabrot af vopnabúrinu. Stærsta vopnið er orka, gas og olía.
Rússar hafa ekki hótað að skrúfa fyrir gasið til Vestur-Evrópu. En hótunin liggur í loftinu. Það er nóg til að Þjóðverjar fái martröð.
Þýskaland er lykilríki ESB og stærsta evrópska Nató-ríkið. Þegar þýskur ráðherrar efnahagsmála boðar samfélagslegar hamfarir vegna orkuskorts munu margir spyrja: til hvers styðjum við Úkraínu?
Orðin sem koma úr munni hins þýska Habeck eru hugsanir ráðamanna í fjölmörgum evrópskum höfuðborgum.
Sannleikurinn er sá að Vestur-Evrópa er hvorki með getu né vilja að stríða á sléttum Garðaríkis. Fagrar yfirlýsingar og vopnasendingar, sem fara minnkandi, eru það eina sem Selenskí forseti Úkraínu fær frá vestrinu.
Selenskí átti, þangað til í fyrradag, hauk í horni þar sem var Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Nú á hann aðeins Biden í Washington, sem þarf hjálp í dag til að muna hvað hann sagði í gær. Í Evrópu ráðast úrslitin.
Orð eru til alls fyrst. Orðræða um martröð sýnir blákalt mat á staðreyndum. Ef Úkraína semur ekki í sumar verður engin Úkraína í haust.