„Forsætisráðherrann hefur náð því sem hann gat af fjármunum sem hann sendi til að hjálpa Úkraínu, og fyrir hann er ekkert meira upp úr embættinu að hafa. Hann náði sér í lífeyri, ekki einungis fyrir sjálfan sig, heldur einnig fyrir afkomendur sína“, er á meðal þess sem hinn litríki leiðtogi Tjétjeníu, Ramzan Kadyrov, sagði í tilefni af afsögn forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, á Telegram rás sinni þann 7. júlí sl.
Óljóst er hvað Kadyrov átti við, en hann er kunnur fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar. Athygli vakti þó, þegar verulega molnaði undan forsætisráðherranum fyrrverandi, Boris Johnsson, vegna enn eins hneykslismálsins. Hafði hann of lítið og of seint eitthvað til málana að leggja, annað en að lofa ennþá meiri fjárhagsaðstoð til Úkraínu. Við það féll gólfið snarlega undan honum á breska þinginu, þar sem ráðherrar og aðrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar létu sig hverfa með hraði. Í framhaldinu sagði hann af sér embætti síðastliðinn fimmtudag.
Kadyrov sagði ennfremur: „Áætlun um að draga að sér hluta og leysa út fé breskra skattgreiðenda er í Úkraínu - þægilegustu fjársvikamyllunni í dag. Bresk fjárhagsaðstoð er send á bankareikninga í Kænugarði, þar sem um tíundi hluti hennar fer til að uppfylla þarfir úkraínska hersins, en restinni er skipt niður á ýmsa bankareikninga skúffufyrirtækja. Að sjálfsögðu fer rífleg sneið kökunnar til bjargvættarins sjálfs, óopinberlega. Opinberlega, til að dreifa athyglinni, brá Boris Johnson sér til Kænugarðs, tók í spaðann á Zelensky og lofaði honum endurteknum stuðningi, það er, við að safna peningum í sameiningu.“
Kænugarður skyndlega vinsæll áfangastaður fyrirmenna
Johnson var þó langt frá því að vera einn um að mæta í handabandsmyndatöku með Zelensky í Kænugarði. Ýmsir stjórnmála- og embættismenn frá Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu, ásamt Hollywood leikurum, komu þangað í sömu erindagjörðum, með hjartað fullt af stuðningi og vasana fulla af loforðum. Einnig vakti athygli að Zelensky fékk að ávarpa ýmis þjóðþing og samkomur á borð við Alþjóða efnahagsráðið (WEF) í Davos, án fyrirvara eða frekari skýringa. Þar á meðal var Alþingi Íslendinga og afla enn meira fjár í leiðinni, en áður hafði talsverðum fjármunum verið veitt þangað af íslenskum stjórnvöldum og fleirum.
„Úkraínsk stjórnvöld hafa sett upp alþjóðlega svikamyllu af áður óþekktu umfangi, við að leysa út stolna fjármuni,“ sagði Kadyrov sem kvað engan þarlendis munu treysta sér til að rannsaka málið: „Eftirlitsmaðurinn mun ekki heldur birtast erlendis frá - engar reglur kveða á um að það verði gert. Hvar eru peningarnir þá? - munu skattgreiðendur spyrja. Þeim var eytt í herafla Úkraínu, hingað og þangað, og hver veit, einhversstaðar sprungu þeir, annarsstaðar brunnu þeir, sumstaðar urðu þeir fyrir höggi og enduðu úti í á.“
Spilling er mikið vandamál í Úkraínu
Úkraínsk stjórnvöld hafa lengi legið undir ámæli fyrir mikla spillingu, og vísbendingar eru um að Zelensky hafi verið studdur til valda af úkraínska mafíósanum Igor Kolomoisky.
Óhægt er þó um að staðfesta hvort að nokkur fótur sé fyrir þessum alvarlegu ásökunum leiðtoga Tjétjeníu. Hann er langt frá því að vera hlutlaus, þar sem hersveitir hans eru fullir þátttakendur í hinni „sérstöku hernaðaraðgerð“ Rússlands í Úkraínu. Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa þó legið undir ámæli fyrir að hafa ekki getað gert fullnægjandi grein fyrir því hvað verður um þá óskaplegu fjármuni sem sendir eru til úkraínskra stjórnvalda í nafni hernaðar- og fjárhagsaðstoðar. Vísbendingar eru um að þeir séu að minnsta kosti ekki að skila sér í réttu hlutfalli til víglínunnar, sem stöðugt færist vestar í landinu.
One Comment on “Kadyrov segir Johnson hætta í embætti með vasana fulla fjár frá Úkraínu”
Magna hvað Kadyrov er góður að útskýra vanda Johnsons, getur verið að Kadyrov sé sjálfur í vanda sem skósveinn Putins…