Fjárkúgun Gulla er ekki vandamálið

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Guðlaugur Þór heimtaði af Bjarna fjármálaráðuneytið ellegar myndi hann skora Bjarna á hólm í einvígi um formennsku Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór er með sterkt bakland í flokknum. Í mörg herrans ár er hann duglegri en flestir dauðlegir að taka í hendur flokksmanna og sitja stærri og smærri fundi. Dugnaðurinn skilar sér í persónufylgi.

Á blaðamannafundi, þar sem Guðlaugur Þór kynnti framboðið, og á samfélagsmiðlum, mátti finna fyrir ýktu persónufylgi þar sem aðdáendur ákalla goðið eins og poppstjörnu.

Ég hef tvisvar eða þrisvar tekið í hönd goðsins og varð ekki uppnæmur. Ekki fyrir það, Gulli er ábyggilega þekkilegur strákur.

Vandamál Gulla er að hann er til sölu. Það hefur afleiðingar sem ég varð sjálfur vitni að.

Fyrir prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík haustið 2006 fékk Guðlaugur Þór fúlgur fjár frá auðmönnum, einkum Jóni Ásgeiri kenndum við Baug. Markmiðið var að fella Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra í prófkjörinu. Guðlaugur Þór var með 500 til 700 manns í vinnu fyrir sig. Samkvæmt úttekt DV 23. apríl 2010 var Guðlaugur Þór „mestur fjáraflamanna“ úr röðum stjórnmálamanna á árunum fyrir hrun.

Guðlaugur Þór felldi Björn Bjarnason úr öðru sætinu og varð ráðherra í hrunstjórninni skammlífu.

Eftir hrun tók við vinstristjórn Jóhönnu Sig. sem stefndi á ESB-aðild. Ég starfaði í Heimssýn, samtökum andstæðinga aðildar. Breski stjórnmálamaðurinn Daniel Hannan, góðvinur Guðlaugs Þórs, og eitilharður ESB-andstæðingur kom í heimsókn. Á fundi með Heimssýn var rætt um að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina, sem þá var farin til Brussel. Hannan taldi hugmyndina góða enda var vinstristjórnin ekki með umboð þjóðarinnar til að sækja um aðild.

Tvísýnt var um baráttuna fyrir fullveldinu á þessum tíma. ESB-sinnar réðu ferðinni. Flugvélaframar af áhrifafólki fóru vikulega til Brussel að kynnast gósenlandinu og framselja fullveldið. Aðlögunarferlið innlimaði Ísland sneið fyrir sneið, bút fyrir bút. Það skipti máli hvort menn voru heilir í afstöðu sinni eða ekki.

Guðlaugur Þór var alfarið á móti tillögu sem tefldi pólitískri framtíð hans sjálfs í tvísýnu. Hann sagði að ef það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla gæti vinstristjórnin sprungið og þá yrði efnt til þingkosninga. Hann mætti ekki við kosningum núna, vegna umræðunnar um fjárstuðninginn sem hann fékk frá auðmönnum fyrir hrun.

Það hefur afleiðingar að selja sig. Æ síðan ég varð vitni að þessum ummælum Guðlaugs Þórs hef ég vantreyst honum. Þegar hann barðist fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans sem utanríkisráðherra velti ég fyrir mér hvaða tök Norðmenn hefðu á Guðlaugi Þór. Það var norskt hagsmunamál en ekki íslenskt að taka orkupakkann inn í EES-samninginn.

Guðlaugur Þór má mín vegna haga sér eins og pólitískur gangster og stunda fjárkúgun á samherjum. En aldrei, aldrei treysti ég manni sem selur fullveldið fyrir pólitískan frama.

Skildu eftir skilaboð