Eftir Geir Ágústsson:
Mikið gengur nú á í fréttum um val eins stjórnmálaflokks á formanni. Gott og vel, þetta er stærsti flokkurinn þótt hann sé ekki mjög stór, og hefur mikil völd, bæði í dag og í sögulegu samhengi. En hann var einu sinni mjög stór. Hérna að neðan sést fylgi hans í Þjóðarpúlsi Gallup eins langt aftur í tímann og mér tekst að finna gögn (bláa línan).
Hvernig varð mjög stór flokkur að helmingi minni flokki? Með því að klúðra málum? Framkalla heimskreppu og fjármálahrun? Nota almannafé til að hygla vinum sínum? Stuðla að spillingu og frændhygli? Mögulega. Þetta eru algengar útskýringar.
En önnur gæti verið sú að flokkurinn hafi kastað stefnuskrá sinni í ruslið. Hætti að vera eini flokkurinn sem mögulega gat flokkast til hægri og varð í staðinn að þessu bragðlausa miðjumoði sem lofar öllu fyrir alla og framkvæmir með því að fjölga ríkisstofnunum. Til hvers að kjósa flokk sem þykist vera til hægri en er í framkvæmd raun á miðjunni og jafnvel vinstra megin við hann þegar upprunalega varan - miðju- og vinstriflokkarnir - eru ekki í slíku leikriti?
Árið 2009 var skrifað í frétt:
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki frjálshyggjuflokkur, að mati Bjarni Benediktssonar nýkjörins formanns flokksins. „Við erum hægriflokkur. Hægriflokkur vill ekki stjórna með boðum með bönnum. Hann vill treysta á atvinnulífið og vill halda skattheimtu í lágmarki. Við erum hinsvegar enginn frjálshyggjuflokkur,“ sagði Bjarni sem var gestur Íslands í dag fyrr í kvöld.
Gott og vel, fylgið hékk yfir 30% og á Íslandi kallar enginn sig frjálshyggjumann hvort eð er, nema örfáir klikkhausar eins og ég.
Svo var skrifað í frétt í febrúar árið 2011:
Ákvörðun formanns, varaformanns og sjö annarra þingmanna um að styðja núverandi gerð Icesve-samningsins hefur framkallað harkalegar deilur innan flokksins sem ekki sér fyrir endann á. ... Bjarni Benediktsson þykir hafa styrkt stöðu sína sem formaður flokksins með óvæntum stuðningi við Icesave-frumvarpið.
Gott vel, flokkurinn ennþá í 30-40% fylgi (enda samkeppnin við hina hreinu og sífellt óvinsælli vinstristjórn auðveld).
Þá gerðist þetta í janúar 2013:
EFTA dómstóllinn hafnaði í dag öllum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesave málinu en dómur var kveðinn upp í Lúxemborg í morgun. Þá var ESA og Evrópusambandinu gert að greiða málskostnað.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mælst yfir 30% fylgi síðan og raunar fjarri því yfirleitt. Kannski vegna úrskurðar einhvers útlends dómstóls, kannski einhvers annars.
En boðskapur minn er þessi: Flokkur sem var einu sinni mjög stór er það ekki lengur og hefur ekki verið lengi og það er kannski ástæða fyrir því. Kannski að hann sé meira eins og bragðtegund af þunnu kaffi frekar en að vera sín eigin kaffiblanda. Kannski að hann hafi undanfarin ár saxað á eitthvað sem gæti kallast hugsjónir eða grundvallaratriði. Kannski af því að hann fór að sækja á þessa svokallaða miðju sem eru uppurin fiskimið.
Kannski af því hann hætti að vera hægriflokkur og sendi atkvæði hægrimanna í allar áttir. Þessi 40% eða þar um bil sem áður áttu sér ekkert annað heimili þurftu nú að fara á vergang.
Skiptir þá máli hvort einn hugsjónalaus maður komi í stað annars? Mér sýnist ekki.
Ys og þys út af engu, en kjömsum aðeins á því samt. Það er ekki eins og það sé orkukreppa eða annað spennandi í gangi.