Eftir Pál Vilhjálmsson:
Sex nafnlausir einstaklingar tilkynntu síðdegis í gær til Facebook að reikningur Páls skipstjóra Steingrímssonar væri falsreikningur. Facebook lokaði reikningi Páls, sem hefur verið virkur á miðlinum frá 2009. Undanfarið hefur skipstjórinn reglulega birt færslur þar sem hann m.a. fer yfir bók blaðamanna RSK-miðla (RÚV, Stundarinnar og Kjarnans) um Namibíumálið og hrekur lið fyrir lið rangar staðhæfingar og mistúlkanir.
Á þriðjudag var Páll kallaður til yfirheyrslu vegna langsóttrar kæru Stefáns útvarpsstjóra og tveggja blaðamanna á Stundinni og Kjarnanum.
Í gær sendi starfsmaður RÚV, og formaður Blaðamannafélagsins, kröfu til umboðsmanns alþingis að hefja athugun á rannsókn lögreglu á blaðamönnum sem bendlaðir eru við að byrla Páli skipstjóra og stela síma hans í byrjun maí í fyrra.
Málsvörn blaðamannanna er að þeir hafi fengið síma Páls frá þriðja aðila og það eitt til saka unnið að skrifa fréttir upp úr símanum en hvergi komið nærri byrlun og stuldi.
Skýtur skökku við að RSK-miðlar skuli berjast um hæl og hnakka gegn framgangi málsins í réttarkerfinu ef aðkoma þeirra að málinu er jafn óveruleg og þeir vilja vera láta.
Það sem hingað til er vitað um málið gefur til kynna að aðild blaðamannanna sé stórum meiri. Lögreglan er með samskiptagögn er sýna regluleg samskipti blaðamanna við gerandann, sem byrlaði Páli, stal síma hans og afhenti blaðamönnum.
Lögreglan leggur gögn sín fram þegar ákærur er birtar og fyrir rétti. Blaðamenn RSK-miðla mega ekki til þess hugsa að alþjóð fái vitneskju um starfshætti blaðamannanna, sem í þokkabót eru allri hlaðnir verðlaunum frá Blaðamannafélagi Íslands.
Það er sérstakt íhugunarefni að Páll skipstjóri er nánast einn um að koma sinni hlið á framfæri á opinberum vettvangi - og notar til þess Facebook. Fjölmiðar í stórum stíl skrifa fréttir í þágu RSK-miðla, spyrja ekki gagnrýnna spurninga og leyfa sakborningum að stýra umræðunni þar sem hagsmunir þeirra sjálfra eru í húfi.
RSK-málið sýnir íslenska fjölmiðlun í höndum sakborninga. Dapurt, svo ekki sé meira sagt.