Leiðrétting á kyni, veðri og landamærum

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Börn vita hvort þau séu af réttu kyni eða ekki. Þá vita börn, sbr. Gréta Thunberg, að veðurfarið sé ekki náttúrulegt heldur manngert.

Bernskir fullorðnir halda þeim bábiljum að börnum að hvorki sé kyn né veðurfar gefið af náttúrunni heldur mannasetningar. Alla skráða mannkynssöguna er þessu á annan veg farið. Það er aðeins á tímum netsins og samfélagsmiðla sem hugdettunni vex fylgi að kyn og veðurfar séu mannlegar afurðir en ekki náttúrulegar.

Rökrétt ályktun er að auknar upplýsingar geri fólk grunnhyggið. Það trúir á bábiljur, sem dreift er á félagsmiðlum, fremur en það sem liggur í augum uppi og almenn skynsemi segir.

Ef fólk trúir að hægt sé að leiðrétta kyn og veðurfar er auðvelt að telja því trú um að náttúruleg landamæri séu meira upp á skraut en að þau hafi einhverja merkingu. Á Fróni fá aldraðir Íslendingar ekki inni á hjúkrunarheimilum vegna þess að fólk frá framandi menningarheimum sækir Ísland heim í leit að velferðarþjónustu. Viðhorfið er að nóg sé til í örríkinu til að bjarga megi heimsbyggðinni frá þeim ömurleika að búa annars staðar en hér á landi.

Þeir eru nógu margir sem telja bráðnauðsynlegt að sinna útlendingum með íslenskri velferð fremur en að búa öldruðum Íslendingum áhyggjulaust ævikvöld. Hópurinn sem um ræðir kallast góða fólkið og er kjósendahópur sem allir stjórnmálaflokkar óttast að fá upp á móti sér.

Það er meira og minna sama fólkið sem heldur að kyn, veðurfar og náttúruleg landamæri séu tilbúningur sem megi breyta með hugdettu. Merkilegast af öllu að þorri þessa fólks telst upplýst, margt með háskólapróf og er sínettengt með alla heimsins þekkingu við fingurgómana. En fingurgómarnir á lyklaborðinu leita frekar uppi bábiljur en harðar staðreyndir. Bábiljurnar hljóma betur, sefar taugaveiklun fólks án jarðtengingar.

Upplýsingar án almennrar skynsemi leiða fólk inn í heim ímyndunar handan veruleika. Til að ímyndin verði ekki afhjúpuð sammælist góða fólkið um að leggja í einelti þá sem ekki kyssa vöndinn er sópar undir teppið hörðum staðreyndum; að kyn er líffræði en ekki hugarfar, að náttúran ræður loftslagi og að þjóðfélag án landamæra er óreiða.

One Comment on “Leiðrétting á kyni, veðri og landamærum”

  1. Ákaflega vel skrifuð grein hjá þér Páll!

    Þarna lýsir þú mjög vel þessu góða fólki (regnbogabörnum) í smáatriðum.
    spáðu í hræsninni að telja fólki trú um að hægt sé að bjarga hverju einasta barni utan úr heimi enn í stað þess að huga að okkar eigin fólki eins og öldruðum og þeim sem eiga um sárt að binda!
    Sjáðu hvað stjórnmálafólkið er vitlaust að tala á móti reglunum sem Útlendingastofnun þarf að framfylgja, þvílíkir fávitar!

Skildu eftir skilaboð