Helstu afrekin í loftslagsbaráttunni

frettinGeir Ágústsson, Loftslagsmál, Pistlar2 Comments

Geir Ágústsson skrifar:

Ríkir hlutar mannkyns berjast nú eins og óðir gegn hamfarahlýnun, losun á koltvísýringi í andrúmsloftið og orkuskiptum frá olíu og gasi yfir í vind og sól.

Margt hefur unnist í þeirri baráttu. Tökum nokkur af helstu afrekunum:

Framleiðsla og flutningsleiðir

Mikið af framleiðslu á því sem Vesturlönd þurfa á að halda hefur verið flæmd með svimandi sköttum og stífum reglum til fjarlægra heimshorna þar sem kostar ekkert að menga og losa (ég greini á milli þessa tvenns). Þeirri framleiðslu þarf svo að sigla yfir hálfan hnöttinn. Það hefur því tekist að auka töluvert losun á koltvísýringi með því að knýja hana með kolum og sigla síðan á olíu yfir langar vegalengdir.

Vel gert!

Orka og verð

Mikill þrýstingur hefur verið undanfarin ár á að draga úr fjárfestingum í olíu og gasi á meðan eftirspurn eftir þessu tvennu heldur áfram að vaxa, ár frá ári. Vindmyllur og sólarorkuver eru engan veginn nálægt því að brúa bilið sem þarna hefur myndast á milli framboðs og eftirspurnar og minnstu raskanir senda verðlag í himinhæðir. Það hefur því tekist að auka orkuóöryggi og orkuverð og rýra orkuöflun og menn skipta óðum úr gasi og olíu yfir í kol og timbur.

Vel gert!

Færsla á fé til ríkra prinsa

Í Evrópu væri hægt að auka til muna framleiðslu á olíu og gasi. Bæði má sækja gas með svokölluðu bergbroti ("fracking") en einnig opna hefðbundnari olíu- og gaslindir sem standa óhreyfðar í dag. En þetta gerir Evrópa auðvitað ekki. Nú þegar rússneska gasið er að þorna upp er nauðsynlegt að senda sendinefndir til Miðausturlanda og með betlistafinn í hendi lofa að kaupa meira frá spilltum prinsum sem þar búa. Þetta, samhliða hækkandi verði vegna skorts á framboði vegna þrýstings á að sækja ekki meira af olíu og gasi, er því að leiða til færslu á fé úr vösum almennings og í vasa spilltra prinsa.

Vel gert!

Eggin flutt í kínverska körfu

Mörg auðug ríki hafa skuldbundið sig til að stórauka notkun sína á vind- og sólarorku. Þetta krefst hráefna sem að miklu leyti eru grafin úr jörðu í Kína. Kína framleiðir líka mikið af dótinu sem skattkerfi Vesturlanda hafa flæmt frá Vesturlöndum. Við flytjum sífellt fleiri af eggjunum okkar í kínverska körfu og gerum okkur gjörsamlega háð Kínverjum. Það er því lítið hægt að segja þegar Kínverjar stúta minnihlutahópum eða kæfa opinbera umræðu. Kínversk stjórnvöld eru með öll trompin.

Vel gert!

Ég gæti eflaust talið upp fleiri afrek en kannski ég bíði með það í nokkra daga á meðan fína fólkið á sólarströndinni í Egyptalandi í boði skattgreiðenda mótar nýjar leiðir til að gera okkur fátækari.

2 Comments on “Helstu afrekin í loftslagsbaráttunni”

  1. Loftslagsbaráttan er frá mínum bæjardyrum ekki um það að fara í þessa aðgerð eða hina heldur að laga tvö mikilvæg vandamál; annarsvegar kerfislæga framleiðslu á mengun, þ.e.a.s. harmleik almúgans; og hinsvegar trúverðugleiki vísinda, þ.e.a.s. að við getum vitað að hægt sé að treysta gögnum (og hvernig þeim er safnað: harmleikurinn) og algórithmum sem vinna úr þeim (frjáls hugbúnaður).

    Ég hef ferðast til allra heimsálfa nema suðurskautslandsins og talað við fjölmargt fólk um það sem það hefur áhyggjur af og oft á tíðum eru það breytingar í lífríkjum og veðri sem oftast má rekja í mengun af einhverju tagi (s.s. þau hvatakerfi sem gera það arðbært að framleiða mengun).

    Mér er alveg sama um rugludallana við völdin og hvernig þeir vilja snúa þessum umræðum upp í sína sérhagsmuni.. en það sem verður að vera skýrt er að við hin sem erum undirokar í þessum heimi getum sammælst um það að laga hvatakerfin og taka ábyrgð á að leysa raunveruleg vandamál.

    Það er s.s. ekki gagnlegt að halda því fram að þetta sé allt uppspuni þegar það er hægt að samræma aðgerðaáætlun þannig að þeir sem virkilegar áhyggjur hafa af loftslagsmálum vinni með okkur í að steypa hinum ýmsu brjálæðingum af stóli… því ég er viss um að loftslagsfólk geti verið sammála um að leiðin áfram sé að bæta verkferla matskerfa þannig að þessar niðurstöður séu sannfærandi og það sé skýrt hvernig er hægt að bæta úr stöðunni.

    tl;dr við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta og það er hægt að ganga of langt í því að vera á móti öllum kenningum valdhafa (þó svo að þær séu vissulega flestar ekki að þjóna okkar hagsmunum). Hvort loftslagsbreytingar eru raunverulegar er ekki það sem skiptir máli.

  2. 420 hlutar af miljón – 10.000 hlutar af miljón eru 1% – Þannig að undirstaða alls lífs á jörðinni byggist upp á 0,0042% Co2 í andrúmsloftinu. Auðvitað er “Climate change” code fyrir over population sem fáir vilja tala um.
    worldometers.info/world-population ourworldindata.org/grapher/annual-co2-emissions-per-country

Skildu eftir skilaboð