Raunsæi í Úkraínu – og friður?

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Rússar yfirgefa vesturhluta Kherson-héraðs án þess, að því er virðist, að Úkraínuher láti kné fylgja kviði og geri árásir á rússneska herliðið þegar það hörfar. Herlið á undanhaldi er ákjósanlegt skotmark.

Yfirbragðið er að samið hafi verið um, á bakvið tjöldin, að Rússar fengju að flytja herlið og búnað austur yfir ánna Dnepr.

Undanhaldið er bæði hernaðarlegur og pólitískur ósigur Rússa. Vesturhluti Kherson var orðinn formlegur hluti Rússlands, með þjóðaratkvæðagreiðslu, en hafði, vitanlega, verið úkraínskt land fyrir innrásina 24. febrúar.

Stórskotaliðsárásir Úkraínuhers á brýr og stífluvegi yfir Dnepr-ánna gerðu birgðaflutninga Rússa austur yfir ánna nær ómögulega. Þrátt fyrir að yfirgefa vesturhluta héraðsins halda Rússar enn landveg frá Rússlandi til Krímskaga.

Ef það er svo að samið hafi verið um undanhald Rússa í Kherson gæti meira verið undir. Rússar hafa haldið að sér höndum með árásir á rafmagnskerfi Úkraínu síðustu daga. Kerfið er komið að fótum fram. Frekari árásir gætu gert úkraínskar stórborgir nær óbyggilegar. Víst er að Rússar eiga nægar eldflaugar og dróna til að reka smiðshöggið á eyðileggingu raforkukerfisins. En þeir láta það ógert í bili.

Á vesturlöndum gætir vaxandi stríðsþreytu. Úkraínustríðið eykur efnahagsvanda í heiminum, sem háður er úkraínsku og rússnesku korni ekki síður en orku. Þá er hætta á stigmögnun, að fleiri þjóðir dragist inn í stríðið og að kjarnorkuvopnum verði beitt. Hvorugt er gott fyrir viðskipti og velmegun.

Stjórn Selenskí forseta er á milli steins og sleggju. Stefnan er að gefa ekki eftir þumlung af landi til Rússa og halda áfram stríðinu með vestrænum stuðningi. Rússar munu ekki hætta hernaði nema rússneskumælandi íbúar Úkraínu fái að sameinast móðurlandinu. Það þýðir breytt landamæri.

Það er stál í stál en stríðsaðilar virðast engu að síður tala saman á bakvið tjöldin, samanber skipulegt undanhald Rússa frá Kherson. Kannski sigrar raunsæið. Þá er skammt í friðinn.

Skildu eftir skilaboð