Eftir Pál Vilhjálmsson:
Forseti Úkraínu var fljótur til, eftir fréttir að rússneskar eldflaugar hafi lent á Póllandi, og krefst viðbragða Nató. Pólland er Nató-ríki en ekki Úkraína.
Hvað gengur Selenskí til? Jú, að Nató-herir ráðist á Rússland. Málið dautt, drjúgur hluti heimsbyggðarinnar í leiðinni.
Forseti Úkraínu telur að ríki hans verði aðeins bjargað með kjarnorkustyrjöld. Sennilega er það rétt mat. Utan landamæra Úkraínu er hvergi nærri sjálfsagt að efna skuli til kjarnorkustyrjaldar til bjargar Garðaríki.
Hér á Fróni vekur athygli að formaður Viðreisnar stekkur á vagn forseta Úkraínu. Þorgerður Katrín ræður að vísu ekki yfir kjarnorkuvopnum, góðu heilli, en hún vill leggja sitt af mörkum í stríðsæsingnum með því að reka rússneska sendiherrann úr landi.
Selenski notar nefið í annað en inn- og útöndun en það má gera kröfu að íslenskir stjórnmálamenn andi með snoppunni áður en gefnar eru út stríðsyfirlýsingar.
Ekki er með nokkru móti hægt að segja að um rússneskar eldflaugar hafi verið að ræða. Þær gætu allt eins verið úkraínskar. Fréttir þýskra fjölmiðla í morgunsárið herma að úkraínsk lofvarnarflaug hafi lent á Póllandi en ekki rússnesk eldflaug.
Hafi eldflaugarnar verið rússneskar er verulega ofmælt að segja Pólland hafi orðið fyrir hernaðaraðgerð. Skotmarkið var ekki hernaðarlegt.
Sumum bráðliggur á að kveikja kjarnorkubál. Formaður Viðreisnar er í klappliðinu.
One Comment on “Selenskí vill kjarnorkustríð – Þorgerður Katrín tekur undir”
Það eitt að Viðreisn sé á þingi er eiginlega ótrúlegt miðað við hvað þessi flokkur stendur fyrir.. Það að Þorgerður Katrín sé enn á þingi er tilefni til sérstakar rannsóknarskýrslu hvernig það er bara yfir höfuð hægt eftir hrunið. En svo virðist vera að að ÞK sé með 9 líf eins og kötturinn en það eru nú fleiri þannig eftir hrun kettir á þingi. Íslendingar eru til hópa afar aumingja vænir og gullfiskaminnið er í micro sekóntum.