Saksóknari skrifar Namibíu-bréf, bróðirinn er RSK-blaðamaður

frettinPáll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

RÚV birti frétt í gærkvöldi, sem unnin var upp úr sérblaði Stundarinnar um Namibíumálið. Þriggja ára rannsókn er að ljúka, sagði fréttin. Lesendum var látið eftir að álykta: með ákærum.

Aðeins eitt smáatriði er eftir, sagði í frétt RÚV/Stundarinnar, en það er að fá gögn frá Namibíu.

Hér er ekki allt sem sýnist. Raunar fjarri því.

Smáatriðið er býsna stórt. Bréf héraðssaksóknara fór frá Íslandi 17. október, fyrir einum mánuði, til namibískra yfirvalda. Bréfið er ítarlegt, 12 blaðsíður. Sá sem skrifar undir bréfið er enginn annar en Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari og bróðir Inga Freys blaðamanns Stundarinnar. Gagnkvæmir hagsmunir bræðranna í Namibíumálinu voru gerðir að umtalsefni í tilfallandi athugasemd sl. sunnudag.

Finni Þór er umhugað að hann einn sé til svara gagnvart Namibíumönnum. Í bréfinu er aðeins heimilisfang og tölvupóstur Finns Þórs gefinn upp. Í niðurlagi segir hann að ef namibísk yfirvöld vilja ná sambandi við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknari, skuli þau samskipti fara í gegnum Finn Þór.

Bróðirinn heldur þétt utan um Samherjamálið. Meintur yfirmaður hans, Ólafur Þór, er aftur sendur í viðtal á RÚV til að vera andlitið út á við. Af bréfinu að dæma eru allir þræðir málsins í höndum Finns Þórs.

Um hvað er þá bréfið?

Jú, Finnur Þór óskar eftir upplýsingum um rannsókn og málarekstur yfir tíu namibískum einstaklingum sem gáfu ekki upp tekjur sem þeir höfðu af viðskiptum við Samherja og dótturfélög. Bróðir saksóknara, Ingi Freyr, og félagar á RSK-miðlum, halda því fram að í Namibíu séu réttarhöld vegna mútugjafa. En réttarhöldin snúast um skattskil, ekki mútur.

Saksóknarinn íslenski biður ekki um upplýsingar um skattskil namibískra sakborninga heldur hvort þeir hafi þegið mútur, eins og RSK-miðlar halda fram.

Finnur Þór óskar eftir upplýsingum, sem stórundarlegt er að hann viti ekki nú þegar, t.d. um verðið á hrossamakríl á namibískum fiskmarkaði frá árinu 2012. 

Íslenski saksóknarinn er í veiðiferð að fiska í gruggugu vatni. Hann spyr opinna spurninga um hvort namibísk yfirvöld hafi fundið eitthvað sem gæti hjálpað til við rannsóknina hér heima. Það skýtur skökku við þar sem fram kemur í bréfinu að Finnur Þór hafi fundað með Namibíumönnum í tvo heila daga í Haag í Hollandi síðast liðinn maí auk fjarfunda. Ekkert bitastætt hefur komið fram á þeim fundum, en áfram skal dorgað í von um að eitthvað komi á krókinn.

Í bréfinu kemur fram að saksóknari hefur sent töluvert af gögnum frá Íslandi til Namibíu. Þá var fundur í Reykjavík í júní í sumar þar sem upplýsingar voru veittar. Í því ljósi er kúnstugt að yfirstandandi réttarhöld í Namibíu snúast eingöngu um skattskil en ekki mútur. Ályktunin sem má draga er að samanlögð gögn í Namibíu og á Íslandi sýna ekki fram á neinar mútugjafir. Mútur eru alvarlegri glæpur en vantaldir skattar.

Þrjú ár eru síðan Finnur Þór hóf rannsókn á Namibíumálinu. Bréfið vitnar um að rannsóknin kemst hvorki lönd né strönd. Óskað er eftir upplýsingum sem langan tíma tekur fyrir namibísk yfirvöld að vinna  s.s. um fjölskyldu, ættmenni og vini namibískra sakborninga og fjárreiður stjórnarflokksins, SWAPO. Ólíklegt er að namibísk yfirvöld flýti sér að svara.  Kannski kemur svar að ári, en líklega aldrei nema þá í skötulíki.

Í viðtali RÚV, sem vitnað var til hér að ofan, segir að það hilli undir lok þriggja ára rannsóknar á Íslandi. Bréfið ber með sér að rannsóknin sé vart komin af frumstigi. Eftir 3 ár þarf saksóknari að spyrja hvað tonnið af hrossamakríl kostaði á namibískum fiskmarkaði fyrir áratug. Hljómar ekki eins og málið sé á síðustu metrunum.  

Finnur Þór er þó ekki hættur að rannsaka, öðru nær. Embætti héraðssaksóknara fékk 200 milljónir til að rannsaka Namibíumálið og þeim peningum þarf að koma í lóg. Í bréfinu biður hann namibísk yfirvöld að leyfa sér að heimsækja landið og hlusta og taka þátt í yfirheyrslu 11, já ellefu, nafngreindra vitna auk sakborninga. Vitni og sakborningar í Namibíu eru á þriðja tug. Saksóknarinn gæti dundað sér í vikur eða mánuði í sólinni þar syðra á kostnað íslenskra skattgreiðenda. Alltaf að rannsaka, auðvitað. Ábyggilega fer það vel ofan í Namibíumenn að hvítt yfirvald úr norðri sæki þá heim í leit að glæpum.

Finnur Þór tekur fram að hann muni hafa með sér föruneyti ef til kæmi. Kannski að hann bjóði bróður sínum, Inga Frey á Stundinni, að skella sér með? Það væri í takt við annað í Namibíumáli héraðssaksóknara, RSK-miðla og vinstrimanna.

Skildu eftir skilaboð