Áhugafólk um hatur og rýmkun hugtaksins „hatursorðræða“

frettinArnar Sverrisson, PistlarLeave a Comment

Eftri Arnar Sverrisson:

Einu sinni enn tekur í hnúkana hjá áhugamönnum um hatur. Mörgum eru líklega minnisstæðar hatursfullar ákúrur innan kvenfrelsunarhreyfingarinnar um það, hvaða undirhópur á þeim vettvangi væri verst leikna fórnarlambið.

Sú umræða endurómar nú í hreyfingu hinna kynóhefðbundnu. Þar er tekist á um, hver hati hvern, hver tjái hatur sitt og með hvaða hætti? Alþingismenn bergmála umræðuna.

Eins og allir vita er Katrínu forsætisráðherra mikið í mun að setja tunguhaft á fólk eins og Daníel, formaður í hinseginfélaginu. Hún fetar þar í fótspor skólasystkina sinna úr æskulýðsskóla Alheimsefnahagsráðsins, Justin Trudeau, sem nýlega var skammaður af forseta Kína fyrir skort á háttvísi, og Jacinda Ardern, hinni miklu járnfrú Nýsjálendinga.

Á heimasíðu forsætisráðuneytisins stendur: „Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp gegn hatursorðræðu (e. hate speech) til að bregðast við vísbendingum um vaxandi hatursorðræðu í íslensku samfélagi.“ Hópinn skulu skipa fulltrúar úr ráðuneytunum, Mannréttindastofu og Jafnréttistofu.

Og af því, að þetta er Katrínu hjartans mál: „Auk þess verða fulltrúar skipaðir af forsætisráðherra án tilnefninga.“ Það er gott að hafa tögl og haldir. María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur og verkefnisstjóri hjá Ríkislögreglustjóra, var skipuð forkona.

Skilgreining á hatursorðræðu

Í ljósi tilmæla Ráðherranefndar Evrópuráðsins og skilgreiningar þess á hatursáróðri eða hatursorðræðu, er vandséð, hvað hafi verið eiginlegt verkefni Maríuhópsins, sem komst að þeirri niðurstöðu, að hatursorðræða væri flókið fyrirbæri.

Skilgreining nefndarinnar er svona: „„Hatursáróður og/eða -orðræða „taki til hvers konar tjáningar sem dreifi, hvetji til, stuðli að eða réttlæti kynþátta-, útlendinga- og gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þ.á. m. umburðarleysi sem birtist í þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gagnvart minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.““ Hvílík vandræðasamsuða! Þessi skilgreining hlýtur að skapa lögfræðingum gnótt atvinnu eins og flóttamannamálin.

María Rún er einnig mikil baráttukona gegn ofbeldi karla eins og yfirmaður hennar, Ríkislögreglustjóri, og forsætisráðherra. „„Ég hef sjálf séð jákvæð áhrif Istanbúl-samningsins [gegn misrétti og ofbeldi gagnvart konum] á þróun umræðu og aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi á Íslandi og víðar,“ sagði María eftir kjörið.

GREVIO

„Það er því mikill heiður að hljóta stuðning ríkja Evrópuráðsins til að halda áfram því mikilvæga starfi sem fram fer innan GREVIO [Group of Experts on Action against Violence against Women and Domestic Violence] í þeim tilgangi að vinna gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í álfunni.““

Okkur til frekari glöggvunar á hatri og tengdri löggjöf, hefur fyrrgreind Mannréttindaskrifstofa látið vinna „Yfirlit yfir lög og reglur“ um hatursorðræðu. Það er mikið í lagt.

Stjórnendur Reykjavíkurborgar eru einnig miklir áhugamenn um hatur. Þeir hafa haldið ráðstefnu um hatur og meðveru (inclusion) – (sem embættismenn hennar í Mannréttindaráði vilja kalla „félagslega inngildingu“).

Þar kom m.a. fram í netkönnun, að 56% pólskra innflytjenda hefði „upplifað“ hatursorðræðu á Íslandi. Hins vegar höfðu allir innflytjendur af afrískum uppruna orðið fyrir hatursorðræðu. Heimildarmaður hló við og svaraði: „Þannig er þetta á Íslandi.“

Á téðri ráðstefnu voru einnig fulltrúar stofnana á vegum Reykjavíkurborgar, þ.e. forstöðukona félagsmiðstöðvarinnar S78 og Tjarnarinnar, Hrefna Þórarinsdóttir, svo og Gunnlaugur Víðir Guðmundsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans.

„Félagsmiðstöðin Gleðibankinn er ein af fimm félagsmiðstöðvum í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ sem starfrækt er af Tjörninni, frístundamiðstöð. Markhópurinn er börn og unglingar í 5.-10.bekk.“

(Það ríkir greinilega mikil gleði í sambandi við hinseginmennsku, ekki síður í félagsstarfi og í kröfugöngum. En er það vænlegt til árangurs, sé tilgangurinn að stuðla að meðveru eða samveru allra barna, að aðgreina hinseginbörn?)

„Hrefna og Gunnlaugur sögðu frá því að hatursorðræða, fordómar og áreiti gagnvart LGBT börnum og unglingum hefði aukist eftir Covid-19. Gilti það jafnt um framkomu á samfélagsmiðlum, augliti til auglitis og í samfélaginu almennt.“ Heimildar er ekki getið.

Á ráðstefnunni tóku einnig til máls fulltrúar „antirasistanna.“ Þeir eru m.a. uppteknir af „blætisvæðingu litaðra kvenna.“

Andhatursborgin Reykjavík

Reykjavík er framsækin andhatursborg – enda þótt María Rún telji hana aftarlega á merinni - og hefur því gerst félagi í samtökum slíkra borga á Norðurlöndum. Borgarráð hefur í þessu sambandi skipað starfshóp eins og Katrín. Þar sitja undir forystu Svandísar Önnu Sigurðardóttur, fjórar konur og einn karl.

Ætli Reykjavíkurborg hafi með þessari skipan brotið Jafnréttislög? Katrín túlkar þau þannig, að konur eigi vað vera hvarvetna, „þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar.“ Það á svo sannarlega við hér.

Jafnréttislögin

Í kjölfar Jafnréttislega hefur sprottið upp ógnarlegt skrifræði á öllum sviðum, þar sem kynjafræðingar finna sér kjörvettvang. Jafnréttislög hafa ævinlega verið óþörf, enda þvinguð í gegn af kvenfrelsurum á Alþingi.

Í 65. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, segir nefnilega: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Jafnréttislöggjöfin er því augljóslega „smör på flæsk“ eins og Danir segja, í raun lagalegt vopn kvenfrelsunarhreyfingarinnar. Skilgreining á kynofbeldi karla gegn konum, er sífellt útþynnt. Sama virðist nú eiga sér stað með tilliti til haturs, sem er ein frumtilfinninga mannkyns. (Ætli ástin komist næst á dagskrá jafnréttisforsjárhyggjufólksins?) Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor, bendir á:

„Þegar hugmyndir fóru að mótast á alþjóðavettvangi á fimmta áratug síðustu aldar um að stemma stigu við hatursorðræðu höfðu menn einkum í huga alvarlegustu afbrigði hennar og einkum þá hatursfulla tjáningu vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða. Rakið er að síðan þá hafi orðið sú þróun að hugtakið "hatursorðræða" hefur víkkað út á tvenna vegu. Í fyrsta lagi með því kröfur um alvarleika hafa færst niður og í öðru lagi hefur þeim hópum fjölgað sem njóta verndar. Er hugtakið ekki lengur bundið við fyrst og fremst þjóðerni, kynþætti og trúarbrögð með því að tilvísun til kynhneigðar og kynvitundar hefur bæst við, m.a. hér á landi. Kenna má vilja til þess í hinni almennu umræðu að hugtakið verði víkkað enn frekar út með því að gera minni kröfur um alvarleika og að fjölga eigi hópum sem hún taki til. Hvort tveggja þrýstir á mörk tjáningarfrelsis.“

Eva Hauksdóttir, lögmaður, tekur í svipaðan streng: „Afstaða íslenskra dómstóla til tjáningarfrelsis hefur stökkbreyst á síðustu árum. Frelsi manna til að níða skóinn af náunga sínum hefur aukist verulega en á sama tíma er orðið varasamt að tjá skoðanir sem móðga þá sem kenna sig við baráttu fyrir fjölbreytileika og félagslegu réttlæti. …

Samhliða því sem dómstólar hafna því að það teljist meiðyrði að byggja ásakanir um glæpi á slúðursögum, hafa þeir rýmkað óhóflega hugtakið „hatursorðræða“. Hugtak sem spratt af viðleitni til að sporna gegn þjóðarmorðum og öðrum skipulögðum ofsóknum. Þeir sem tjá sig um sjálfsmyndarpólitík (identity politics) þurfa nú að þaulhugsa hvert orð til að forðast ásakanir um níð og mannhatur.“

Væri ekki hyggilegt að ganga varlega um gleðinnar dyr – og hatursins vissulega?

Tilvísanir með grein Arnars má finna hér.

Skildu eftir skilaboð