Við erum enn undir áhrifum bæði frá myrkvanum á Tungli sem varð 8. nóvember og Sólmyrkvanum sem varð þann 25. október. Myrkvinn á Tunglinu var einstaklega öflugur því um almyrkva var að ræða og sjö plánetur voru í stöðugum merkjum. Orka þessara myrkva takmarkast ekki við þá daga sem þeir voru, því við eigum eftir að finna fyrir áhrifum þeirra næstu sex mánuði.
Nú eru hins vegar persónulegu pláneturnar farnar að færast yfir í breytileg stjörnumerki, en þau eru Tvíburinn, Meyjan, Bogmaðurinn og Fiskarnir. Þetta eru frekar eirðarlaus merki og þegar orkan er svona eirðarlaus og breytileg, eru líkur á að hún mótist á mjög mismunandi hátt. Því getur okkur fundist eins og allt sé stjórnlaust á næstunni, því á þessu nýja Tungli verða sjö plánetur í breytilegum merkjum.
MARS FREKAR STJÓRNLAUS
Mars er enn sem fyrr í Tvíburanum sem er breytilegt merki auk þess sem hann er utan marka. Pláneturnar eru almennt á sporbaug sem er 23 gráður suður og norður af Miðbaug – en stundum fara þær út fyrir þennan sporbaug og teljast þá vera utan marka.
Mars er því ekki aðeins á ferð aftur á bak um sporbaug sinn, sem þýðir að hann er nær Jörðu en vanalega fram til 12. janúar 2023 og orka hans því öflugri – heldur verður hann utan marka fram til 4. maí 2023. Hann er því líklegur til að skapa kringumstæður, sem virðast vera frekar stjórnlausar, en hann er í raun að losa um orku, svo hægt sé að skapa eitthvað nýtt – og það er mjög mikilvægt.
FIMM TUNGL Á FYRSTU GRÁÐU
Fimm næstu nýju Tungl verða á fyrstu gráðu í merkjunum sem þau lenda í en sá upphafspunktur í hverju merki er enn ein staðfesting þess að mannkynið sé að halda inn í nýjan kafla. Í þessum suðupotti breytinga er Satúrnus búinn að snúa við og er nú á ferð fram á við um sporbaug sinn og verður það, uns hann fer inn í Fiskana í mars á næsta ári.
Plútó hefur líka snúið við og er á leið fram á við um sporbaug sinn. Hvorug plánetan mun „líta um öxl“ fyrr en komið er inn í annað stjörnumerki, en Plútó breytir líka um merki í mars á næsta ári og fer inn í Vatnsberann. Í þeim mánuði verða því mikil umskipti í orkunni.
PLÚTÓ, JÚPITER OG NÝIR TÍMAR
Plútó er nú að fara í gegnum síðustu þrjár gráðurnar í Steingeit og í því ferli er hann að fletta ofan af og opinbera allt sem ekki hefur verið gert af heilindum eða ábyrgð, einkum í stjórnkerfum sem stjórna að ofan og niður – eins og í ríkisstjórnum, stórfyrirtækjum og stofnunum, svo eitthvað sé nefnt. Nauðsynlegt er að opinbera slíka spillingu og óheilindi í því niðurbrotsferli sem nú er í gangi, svo hægt sé að komast inn í hið nýja.
Annað sem tengist hinu nýja er að þann 20. nóvember er falleg 120 gráðu samstaða á milli Júpiters og Sólar, en orkan frá Júpiter mun verða mjög öflug í síðari hluta nóvember. Júpiter er táknrænn fyrir von, bjartsýni, visku, hærra vitundarsvið, framtíðina og nýja sýn á heiminn – því hann fær okkur til að hugsa stærra og vera sjálf stærri.
NÝJA TUNGLIÐ ÞANN 23. NÓVEMBER
Nýtt Tungl kveiknar á einni gráðu og 37 mínútum í Bogmanni kl. 22:57 þann 23. nóvember í Reykjavík – það fyrsta af fimm Tunglum sem öll verða á fyrstu gráðu. Sól og Tungl eru alltaf í samstöðu á nýju Tungli og nýtt Tungl er eins og alltaf frábær tími til að setja fram nýjan ásetning fyrir það sem við viljum skapa. Mun minni spenna er í þessu korti en var í kortinu fyrir almyrkvann á Tungli þann 8. nóvember.
Sól og Tungl eru í samstöðu í Bogmanni á þessu nýja Tungli, en Júpiter stjórnar Bogmanninum. Júpiter er ennþá í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Sólina og Tunglið, þótt um sé að ræða 120 gráðu afstöðu utan merkis, því Júpiter er enn hálfri gráðu frá því að vera kominn inn í Hrútinn. Væri hann kominn þangað væri þetta venjuleg 120 gráðu samhljóma afstaða – með eldmerki í afstöðu við eldmerki – en svo er ekki. Samt verður að líta á þetta sem 120 gráðu samhljóma afstöðu þótt hún sé utan merkis.
Þessari afstöðu fylgir tilfinning um útþenslu í átt að sjóndeildarhring framtíðarinnar. Það sem enn styrkir Júpiter, sem er ekki bara stjórnandi Bogmannsins og í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Sól og Tungl, heldur er hann í kyrrstöðu einmitt þennan dag. Bogmaðurinn vill teygja sig út í kosmosið til að öðlast dýpri skilning, því hann er merki hugsjónamannsins. Júpiter er einnig með hugsjónir fyrir algerlega nýja framtíð.
FRELSI OG SANNLEIKUR
Bæði Júpiter og Bogmaðurinn tengjast frelsi og sannleika – og þessir eiginleikar, frelsi og sannleikur, tengjast líka plánetunni Úranusi. Bogmaðurinn er líka merkið sem tengist lögum og rétti, en þau tvö merki sem tengd eru lögum og rétti eru Vogin með sínar vogarskálar réttlætis og Bogmaðurinn, sem tengist sannleikanum.
Því er líklegt að í kringum þetta tímabil munum við sjá mörg mikilvæg lagaleg mál sem tengjast sannleikanum koma upp á yfirborðið.
BREYTILEGU MERKIN
Sól, Tungl, Venus og Merkúr eru í Bogmanni, sem er breytilegt merki. Júpiter og Neptúnus eru í Fiskum, sem er breytilegt merki og svo er Mars í Tvíbura, sem einnig er breytilegt merki. Þessi breytileiki undirstrikar það hversu sveigjanlegur raunveruleiki okkar er. Hann er sérlega sveigjanlegur og því alveg óljóst hver framtíðin verður.
Framtíðin er ekki til, því hún er ósýnileg – en við höldum svo oft að hún sé „meitluð í stein“ – og ákvarðist af því sem ytri aðilar segja okkur – en hún gerir það alls ekki. Hún hefur ekki enn verið mótuð. Við erum hins vegar þátttakendur í að meðskapa hana og því þátttakendur í mótun á framtíð okkar.
BOGMAÐURINN ER BREYTILEGT ELDMERKI
Bogmaðurinn er öflugur á þessu nýja Tungli, en hann er breytilegt eldmerki. Mars er í Tvíbura sem er loftmerki. Mars stjórnar Hrútnum, sem tengdur er frumeldinum. Því verður mikill eldur í kringum þetta nýja Tungl í Bogmanni. Mars er utan marka eins og áður hefur komið fram og því fylgir honum öfgafyllri tilfinning um að hlutirnir séu stjórnlausir.
Eldurinn getur verið neikvæður og birtst sem skapofsi og reiði, en hann getur líka verið ótrúlega jákvæður. Þegar við notum eldinn á jákvæðan hátt er hann táknrænn fyrir ástríður okkar og gleði, sannfæringu okkar og eldmóð. Ást/kærleikur á hærri tíðni er eldorka og við höfum öll „gengið í gegnum eld og brennistein“ fyrir þá sem við elskum. Sú eldorka sem fylgir ást/kærleika er hvorki vanmáttug né viljalaus, heldur ótrúlega mögnuð og henni fylgir valdeflandi kraftur.
JÚPITER Á ÖXLI ALHEIMSINS
Júpiter sem er í kyrrstöðu á þessu nýja Tungli stjórnar merkinu sem nýja Tunglið er í. Hann er einnig á Öxli Alheimsins, í þessu tilviki á núll gráðu í Hrút sem er kardinála merki. Öxlull Alheimsins markast af núll gráðu í Kardinála merkjunum eða næstu 2 gráðum sitt hvorum megin við hana, en hin þrjú Kardinála merkin eru Krabbi, Vog og Steingeit. Það þýðir einfaldlega að hvað sem gerist á næstunni, mun verða mjög áberandi á meðal almennings.
SAMSTAÐA MILLI JÚPITERS OG NEPTÚNUSAR
Júpiter er líka í samstöðu við Neptúnus á þessu nýja Tungli, þótt það sé frekar víð samstaða, þar sem 6 gráður eru á milli plánetanna. Í apríl síðastliðnum var nákvæm samstaða á milli þessarra tveggja pláneta. Lægri birtingin af þeirri samstöðu tengdist miklu vatni, flóðum og hækkuðu olíuverði.
Við skulum vona að þessi víða samstaða leiði ekki til flóða, þótt það þau hafi verið nokkuð mikil í nokkrum löndum síðastliðið vor. Neptúnus tengist olíuverði og Júpiter þenur hlutina út, enda sáum við mikla hækkun á olíuverði í apríl, sem hefur reyndar haldið áfram – og olían gæti enn hækkað.
Jákvæða birtingin af þessari samstöðu snýst hins vegar um að við sinnum enn frekar okkar andlega lífi, að andlegi þátturinn verði stærri hluti af daglegu líf okkar og að við þróum með okkur meiri samkennd. Þessari afstöðu fylgir líka ákveðið takmarkaleysi og því tækifæri ótakmarkaðra möguleika. Við þurfum að æfa okkur að stíga inn í þessa tilfinningu ótakmarkaðra möguleika, til að geta nýtt okkur þá tilfinningu á jákvæðan hátt í hugleiðslum okkar, öndunaræfingum og við mótun á framtíðarsýn okkar.
UPPLÝSINGAFLÓÐ
Mikið af upplýsingum á eftir að hellast yfir okkur á næstunni. Það upplýsingaflóð tengist langtíma 90 gráðu spennuafstöðunni á milli Mars og Neptúnusar. Mars er táknrænn fyrir staðreyndir og upplýsingar, auk þess sem hann tengist huganum – og Mars mun efla allt það. Neptúnus getur hins vegar gert þessar upplýsingar og staðreyndir mjög óskýrar, þannig að við vitum ekki alltaf hvað er satt og hvað ekki – meðal annars af því sem kemur fram í fjölmiðlunum, því Neptúnus er tengdur þeim.
Þessi afstaða verður aftur nákvæm þann 19. nóvember – en spennuafstaðan heldur áfram að vera til staðar í töluverðan tíma. Það á því eftir að ríkja ákveðin þoka í kringum allar þær upplýsingar sem eru að koma fram. Einnig má vænta þess að það verði mikið um rangar fréttir og algeran uppspuna, sem á eftir að villa okkur sýn.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.
Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.
Nánari upplýsingar um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum í dag er að finna í bók minni LEIÐ HJARTANS.