Rafeldsneyti þarf rafmagn

frettinGeir Ágústsson, Orkumál, PistlarLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson verkfræðing:

Mikið er rætt um orkuskipti í Evrópu og Bandaríkjunum (flestir aðrir heimshlutar eru einfaldlega að tala um að fá einhverja orku - t.d. að skipta úr engri orku í einhverja orku eða lítilli orku í meiri orku). Gott og vel, möguleikarnir eru til staðar. Tæknilega er hægt að búa til eldsneyti fyrir bíla, flugvélar og orkuver án jarðefnaeldsneytis eða kjarnorku. Vetni má framleiða með rafgreiningu vatns og binda við koltvísýring eða köfnunarefni og búa til metanól eða ammoníak eða eitthvað annað.

En til þess að framleiða rafeldsneyti þarf rafmagn og menn vanmeta held ég hversu mikið rafmagn ef menn ætla í raun og veru að losna við jarðefnaeldsneytið.

Landsvirkjun, Samorka, Efla og Samtök iðnaðarins gerðu nokkuð um daginn sem mér fannst mjög upplýsandi: Þessir aðilar tóku saman orkuna sem jarðefnaeldsneytið sér Íslendingum fyrir í dag og settu í samhengi við þá orku sem íslensk orkuver framleiða. Niðurstaðan var sú að til að leysa af olíuna þurfi að virkja nokkurn veginn jafnmikið og búið er að virkja í dag. Það þarf með öðrum orðum alveg gríðarlega mikið rafmagn til að búa til nóg rafeldsneyti til að leysa olíuna af (nema það takist að flæma álverin úr landi, og allan afleiddan iðnað tengdum þeim).

Þetta samhengi er sjaldnast veitt, a.m.k. í evrópskri umræðu. Menn tala um að setja upp svo og svo mikið af vindmyllum - gígavatt hér og gígavatt þar - og tölurnar eru stórar og áætlanirnar kostnaðarsamar. En sjaldan er boðið upp á neitt samhengi - t.d. nefna að gangi allar framkvæmdir eftir þá megi minnka olíunotkun um svo og svo mörg prósent eða hvaðeina. Ástæðan er einfaldlega sú að meira að segja ævintýralegustu áætlanir um vindmyllur og sólarorku rispa varla yfirborðið á orkuþörfinni sem jarðefnaeldsneytið sér okkur fyrir í dag, og það er vandræðalegt að réttlæta svimandi fjárfestingar þegar heildarmyndin er nánast óbreytt.

Orkuskiptin fara fram í sífellu. Í Indlandi reisa menn kolaorkuver til að framleiða rafmagn þar sem áður voru greinar og sprek á báli. Í Afríku er víða engin orka og engin lausn í sjónmáli. Í Brasilíu eru menn að byggja upp inniviði fyrir vaxandi gasnotkun. Í Kína er orkuþörfin nánast óseðjandi og þegar Rússar hafa byggt nýtt gasrör til þeirra árið 2030 þá fá þeir allt það gas sem Evrópumenn fá í dag, og meira til.

En það er allt í lagi að huga að valkostum við olíu og gas. Rafeldsneyti svarar til þess að rekast á olíu- eða gaslind í bakgarði sínum og gerast óháður flóknum aðfangakeðjum og óvissuþáttum. Fé hættir að streyma í sama mæli til spilltra prinsa. Losun allskyns agna í andrúmsloftið, svo sem úr Dísil-vélum, minnkar. En raunsæi er engin synd, og samhengi alltaf vel þegið.

Skildu eftir skilaboð