Meistarastykki í vondri og hlutdrægni fréttamennsku

frettinFjölmiðlar, StjórnmálLeave a Comment

Eftir Jón Magnússon:

Þegar kemur að einhliða, hlutdrægri og vondri fréttamennsku á fréttastofa RÚV hvert meistarastykkið af fætur öðru. Fréttir sem eru ætlaðar til að fá fólk til að taka afstöðu með ákveðnum málstað á einhliða og oft röngum forsendum.

Undanfarna daga hefur fréttastofa RÚV flutt einhliða fréttir og  samhengislausar þar sem þess er gætt að sjónarmið eins aðila en ekki beggja varðandi starfrækslu flugvélarinnar TF-Sif á vegum Landhelgisgæslunnar. Allt virðist þetta gert til að varpa rýrð á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra þegar líður að lokum málþófs Pírata um lagafrumvarp ráðherrans um útlendingamál. Í því máli hefur fréttastofan skipað sér í sveit þeirra sem vilja opin landamæri og galopin ríkissjóð fyrir hvaða hlaupastrák sem vera kann. 

Í fréttum RÚV varðandi starfrækslu og notkun flugvélarinnar kom ekki fram, að notkun hennar er aðallega við Miðjarðarhafið í Frontex verkefnum. Þá kom ekki fram, að notkun hennar hér á landi s.l. ár voru 98 flugtímar. Ekki liggur fyrir hvaða verkefnum vélin sinnti í þessa 98 tíma eða 8 klukkustundir á mánuði. 

Þá kom ekki fram hvort hægt væri að sinna þessum verkefnum með öðrum ódýrari og jafnvel skilvirkari hætti. Síðast en ekki síst, þá kom ekki fram að sala vélarinnar er til kominn vegna viðbragða Landhelgisgæslunnar um hvernig megi spara í rekstri stofnunarinnar, vegna þess að fjárlaganefnd hafnaði beiðni um fjárveitingu, sem hefði leitt til þess að tillagan um sölu vélarinnar hefði ekki komið fram. Það var því afstaða Alþingis sem leiddi til þess að tillaga var gerð um sölu vélarinnar. Það hefði þá átt að vera inntak fréttarinnar.

Hið meinta illmenni, Jón Gunnarsson, að mati fréttastofu RÚV, átti því ekki frumkvæðið í þessu máli heldur á það sinn feril, þar sem ráðherrann kemur að málinu eftir að hafa fengið tillögur og þurfa að grípa til ráðstafana vegna afstöðu fjárveitingavaldsins á Alþingi. 

Þrátt fyrir fréttaflutning RÚV í tvo daga af málinu, þá hefur fréttastofan ekki upplýst hver notkun vélarinnar hefur verið innanlands síðustu ár, en 8 flugtímar á mánuði afsaka ekki þá dýru útgerð sem vélinni fylgja, m.a.10-12 stöðugildi. Það ætti að vera hægt að leita hagkvæmari og ódýrari leiða, þar sem aukin nýting vélarinnar er ekki í sjónmáli að því er forstjóri Landhelgisgæslunnar upplýsti.

Skildu eftir skilaboð