Eftir Geir Ágústsson:
Ferðamálastofa, íslenskt stjórnvald, ákvað einhvern tímann í vetur að reyna „cancella“ unga stúlku í kjölfar nafnlausra ábendinga um skoðanir sem hún hefur ekki. Um þetta má lesa nánar hér.
Ferðamálastofa taldi sig sjálfsagt vera að stíga á og kremja lítinn maur. Bara út með þig væna, og málið er dautt.
Þetta virðist hafa verið misráðið því litli maurinn reyndist vera sporðdreki og ætlar að verjast.
Svar Ferðamálastofu er auðvitað baðað í ljóma pólitísks rétttrúnaðar, en þar segir meðal annars:
Þegar í ljós kemur að leikari eða sögumaður viðhefur skoðanir sem ganga gegn réttindum fólks er hætta á að sett markmið náist ekki með birtingu þess.
Skoðanir sem gera hvað? Ganga gegn réttindum fólks? Get ég haft skoðanir sem „ganga gegn réttindum fólks“?
Ekki skrýtið að Ferðamálastofa nefni ekki eitt einasta dæmi því til að hafa skoðanir sem ganga gegn réttindum fólks þarf maður að vera dyntóttur einræðisherra sem þarf ekki að virða lög og stjórnarskrá og sem getur þá lýst því yfir að ólífur eigi að vera bannaðar - að réttindi fólks til að kaupa og neyta ólífa sé skertur vegna persónulegra skoðana einræðisherrans.
Nú er að reyna giska á hvað líða margir mánuðir þar til skattgreiðendur fá að borga miskabætur fyrir aðför hins opinbera að ungri konu, og hversu há sú upphæð verður.