Segir umsögn til Alþingis um bælingarmeðferðir vera ástæðuna fyrir máli Ivu og Ferðamálastofu

frettinTjáningarfrelsi, Transmál1 Comment

Eldur Deville, formaður Samtaka 22-Hagsmunasamtaka Samkynhneigðra, hefur brugðist við máli Ivu Marín og Ferðamálastofu.

Eins og fram hefur komið var Iva Marín klippt út úr kynningarmyndbandinu, Gott aðgengi, þar sem hún kom fram fyrir Ferðamálastofu. Henni var tilkynnt að myndbandið yrði endurgert með öðrum blindum einstaklingi í hennar stað. Það var forstöðumaður Ferðamálastofu, Elías B. Gíslason, sem kynnti henni þetta með tölvupósti og sagði að opinberar skoðanir Ívu Marín á transfólki væri ástæðan, og að athugasemdir frá ÖBÍ og Sjálfsbjörg hafi borist vegna þátttöku hennar í myndbandinu. Hún birti skilaboðin á facebook síðu sinni.

Eldur rifjar upp umsögn sem Samtökin 22 sendu til Alþingis í nóvember sl. varðandi svokallaðar bælingarmeðferðir. Iva Marín skrifaði meðal annars undir umsögnina. Eldur segir að það geti varla annað komið til greina en að það sé sú undirskrift sem ÖBÍ, Ferðamálastofa og Sjálfsbjörg séu að vísa í í yfirlýsingu sinni, þar sem talað er um „opinberar skoðanir Ivu gegn transfólki.“ Eldur hvetur alla til að lesa umsögnina og segir lýðræðið vera dautt ef fólk fær ekki að taka þátt í því.

Í samtali við Fréttina vildi Eldur bæta við að með þessari aðför að Ivu séu ÖBÍ, Sjálfsbjörg og Ferðamálastjóri að skapa jarðveg fyrir skoðanakúgun samkynhneigðs fólks í nafni „umburðarlyndis“, sem er ný birtingarmynd hómófóbíu á Vesturlöndum. „Samkynhneigðir eiga rétt á að taka þátt í lýðræðinu og vernda hagsmuni sína gagnvart ríkisvaldinu án þess að þurfa að búast við ofsóknum af þessu tagi,“segir Eldur.

Eldur segir orðrétt á Facebook:

Undir lok síðasta árs, nánar tiltekið þann 7. nóvember ritaði Iva Adrichem ásamt fleirum undir umsögn Samtökin 22 - Hagsmunasamtök Samkynhneigðra til Alþingis í 45. máli, þingskjal 45 varðandi Almenn Hegningarlög (bælingarmeðferðir). Það getur varla annað komið til greina en en að það sé sú undirskrift sem ÖBÍ, Ferðamálastjóri og Sjálfsbjörg séu að vísa í í yfirlýsingu sinni. Þá umsögn má nálgast hér.

Ég hvet fólk til að lesa umsögnina sjálfa og benda á hvar er unnið gegn réttindum transfólks. Í kjölfarið á þessari umsögn hófst gríðarleg herför gegn nýstofnuðu félaginu, okkur sem skrifuðum undir persónulega og var t.d. Haffi Haff kjöldreginn fyrst í fjölmiðlum, svo félagið og ég af þingmönnum og sveitarstjórnafólki á samfélagsmiðlum, í útvarpi og prentmiðlum.

Lýðræðið er dautt ef það má ekki taka þátt í því. Allir ættu því að fordæma hvernig komið er hér fram við Ívu.

One Comment on “Segir umsögn til Alþingis um bælingarmeðferðir vera ástæðuna fyrir máli Ivu og Ferðamálastofu”

  1. ,,Yfirlýsing“ ÖBÍ, Ferðamálastjóra og Sjálfsbjargar er hlægileg þvæla. Að hafa eina eða aðra skoðun á bælingarmeðferðum er ekki að ,,vega að réttindum“ neins. Hinsvegar vegur það að réttarríkinu að reka menn úr vinnu vegna skoðana þeirra. Í því ljósi hljóta þessi orð yfirlýsingarinnar að vera toppur kaldhæðninnar: ,,Hver einstaklingur er að sjálfsögðu frjáls að sínum skoðunum ..“

    Það er nú líkast til. Allavega meðan þeir sætta sig við að fá ekki vinnu vegna skoðana sinna.

Skildu eftir skilaboð