„Af hverju er best að búa á Íslandi? “ segir í auglýsingu frá Venezuela.
Menntakerfið og almannatryggingakerfið er sagt frábært og að í boði séu dagpeningar fyrir hælisleitendur í einhvern tíma. Það var ferðaskrifstofan Air Viajes sem birti auglýsinguna á Instagram fyrir skömmu, sem nú hefur verið tekin út.
Auglýsingin segir gott velferðarkerfi og há meðallaun vera á Íslandi og að þar séu lágmarkslaun frá 500 þúsund og allt að 850 þúsund krónur. Þingmanninum Birgi Þórarinssyni hefur grunað að starfræktur sé iðnaður í Venesúela þar sem fólk er hvatt til að leita til Íslands.
Þetta kemur fram á Visir.is þar sem segir að Birgir sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd segi málið alvarlegt.
„Ég hef haft efasemdir um það að sá mikli fjöldi flóttamanna sem hefur komið hingað frá Venezuela undanfarin misseri séu í raun flóttamenn í skilningi laganna; þeir séu hérna af efnahagslegum ástæðum í heimalandinu. Og það er ekki grundvöllur fyrir því að fá hér alþjóðlega vernd. “
„Ég byggi þetta meðal annars á samtölum mínum við nefndarmenn í flóttamannanefnd Evrópuráðsins þar sem ég sit fyrir Íslands hönd. Og þessi auglýsing frá ferðaskrifstofu í Venezuela þar sem boðið er upp á ferðir til Íslands: Það er sagt að hér sé gott velferðarkerfi og peningar í boði við komuna til landsins, staðfestir bara það sem ég hef sagt í þinginu.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fjallar einnig um málið á facebook og birtir myndir og auglýsingar um ferðir til Íslands.