Iva Adrichem sem var klippt út úr myndbandi Ferðamálastofu vegna meintra óæskilegra skoðana mun mæta á fund hjá samtökunum Málfrelsi annað kvöld, 14. febrúar, og segja frá reynslu sinni af árásum á sig eftir að hún setti nafn sitt við umsögn um þingmál um bann við bælingarmeðferðum. Aðalinntak umsagnarinnar var að frumvarpið væri illa unnið og óskilgreint hvað ætti að banna. Fyrir um viku mætti hún í viðtal hjá Frosta Logasyni og sagði frá því að móðir sín hefði verið rekin úr starfi hjá Pírötum fyrir að læka við færslu hjá sér.
Iva er vissulega ekki ein um þá reynslu að ættingjar lendi í skotlínu þeirra er telja sínar skoðanir þær einu réttu. Fyrir skömmu mátti lesa á Daily Wire frétt um að foreldrum Lauren Southern hefði verið synjað um að leigja á vegum Airbnb vegna þess að hún væri dóttir þeirra. „Við höfum fjarlægt nöfn ykkar af skrám Airbnb vegna þess að reikningur ykkar er tengdur persónu sem ekki leyfist að nota Airbnb.“ voru skilaboðin sem foreldrar hennar fengu í tölvupósti. „Þetta þýðir að þið getið ekki lengur bókað gistingu á Airbnb.“ Þau voru sett aftur á skrá eftir kvörtun og því borið við að um mistök væri að ræða en Lauren er ekki að kaupa þá afsökun og segir að eina ástæðan fyrir því að bannið var afturkallað var athyglin sem það vakti á Twitter. Almenningur væri greinilega ekki jafn „woke“og fyrirtækið hefði haldið. Hún sjálf er þó enn í banni hjá Airbnb.
Lauren, sem er frá Kanada, var töluvert áberandi á árunum 2018-2020 og gerði nokkrar heimildamyndir: Farmlands var um dráp á hvítum bændum í Suður Afríku (nýlega féll þar dómur um að söngur um að drepa bændur væri ekki hatursorðræða), Borderless er um þau vandamál er fylgja opnum landamærum og Crossfire er um samskipti lögreglu og almennings í BNA. Hvaða skoðanir urðu til að hún væri sett á bannlista hjá Airbnb er ekki ljóst. E.t.v. er það sú skoðun hennar að það hafi sýnt sig að fjölmenning gangi ekki upp en það gæti líka verið af því hún trúir því að kynin séu aðeins tvö. Frægt varð þegar hún fékk sig með auðveldum hætti skráða sem karlmann til að sýna fram á fáránleika kerfisins. Nú býr hún í Ástralíu ásamt manni og barni og hefur tiltölulega hægt um sig.