Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skota, hefur sagt af sér eftir rúmlega átta ár í embætti. Janframt hættir hún sem leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. Þetta tilkynnti Sturgeon á blaðamannafundi ráðherrabústaðnum í Edinborg sem var tilkynntur með litlum fyrirvara. Hún sagði ákvörðunina hafa verið erfiða.
Undanfarna daga hefur fjöldi manns kallað eftir afsögn vegna frumvarps um kynvitund sem var samþykkt á skoska þinginu en ekki því breska. Þrjátíu þúsund manns sögðu sig úr Skoska þjóðarflokknum eftir að hún lagði frumvarpið fram.
Með frumvarpinu getur trans fólk nú fengið vottorð um kynleiðréttingu án þess að hafa farið í læknisskoðun. Aldurstakmarkið til að geta farið í kynleiðréttingu hefur einnig verið lækkað niður í sextán ár.
Í janúar var sagt frá því að trans kona, sem dæmd hafði verið fyrir að nauðga tveimur konum áður en hún fór í kynleiðréttingu, sæti í kvennafangelsi. Þremur dögum síðar var hún flutt í karlafangelsi.