Eftir Pál Vilhjálmsson:
Finnur Þór Vilhjálmsson er saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara. Ingi Freyr bróðir hans er blaðamaður á Stundinni, nú Heimildinni. Báðir þjösnast þeir áfram í Namibíumálinu, sem var búið til af Inga Frey og félögum á RSK-miðlum (RÚV, Stundin og Kjarninn) sumarið og haustið 2019.
Arna McClure lögfræðingur Samherja er með stöðu sakbornings eftir að Finnur Þór tók við gögnum frá bróður sínum og RSK-miðlum um ætluð brot útgerðarinnar í Namibíu. Arna átti engan hlut að máli og ekkert hefur komið fram sem réttlætir að hún sé grunuð um glæp.
Arna höfðaði mál til að fá aflétt stöðu sinni sem sakborningi. Málflutningur var í gær. Í frétt RÚV er haft eftir héraðssaksóknara að „fjarstæða“ sé að það þyki óeðlilegt að bræðurnir saksæki sömu einstaklingana hvor á sínum vettvangi, annar sem handhafi ákæruvaldsins en hinn sem blaðamaður með dagskrárvald fjölmiðla að baki sér.
Fjarstæðan er ekki meiri en svo að embætti ríkissaksóknara tók til rannsóknar háttsemi bræðranna í sambærilegu tilviki. Bræðurnir unnu báðir að máli systkinanna í Sjólaskipum. Ingi Freyr skrifaði ákærufréttir í fjölmiðla en Finnur Þór vélaði um sem saksóknari.
Ríkissaksóknari tók til rannsóknar samvinnu bræðranna en hætti rannsókninni án skýringa.
Málarekstrinum gegn systkinunum í Sjólaskipum var endanlega hætt síðasta sumar en hafði þá staðið yfir í rúm 12 ár. Systkinin voru sakborningar að ósekju. Enginn fannst glæpurinn. En í áravís skrifaði Ingi Freyr sakamálafréttir og Finnur Þór saksótti. Málið var allt handónýtt. Byggt á falsfréttum. Finnur Þór gafst upp og Ingi Freyr varð að éta ofan í sig glæpafréttirnar ósönnu.
Hversu mikil áhrif hafði það á dómgreind saksóknara að bróðir hans átti bæði faglega og starfstengda hagsmuni að Sjólaskipamálið myndi leiða til ákæru en í versta falli dragast á langinn? Blaðamaðurinn gat „skúbbað“ aðra fjölmiðla trekk í trekk. Í störfum blaðamanna eru tengsl við fréttalindir mikils metnar.
Hvaða réttlætis njóta sakborningar, sem reynast saklausir? Þeir verða fyrir tvöfaldri saksókn, í fjölmiðlum og af hendi saksóknara. Þegar saksóknari fellir málið niður standa fréttirnar eftir, öllum aðgengilegar á netinu. Í fréttum segir að glæpur hafi verið framinn en svo var alls ekki.
Þrem mánuðum eftir lok Sjólaskipamála taka bræðurnir aftur höndum saman. Ingi Freyr og félagar á RSK-miðlum setja saman Namibíumálið og Finnur Þór tekur við málinu sem saksóknari. Þetta gerist 2019. Sama fyrirkomulagið og í málum systkinanna í Sjólaskipum sem máttu þola tvöfaldan opinberan málarekstur í rúm 12 ár. Veigamesti hluti Namibíurannsóknarinnar, sá sem sneri að skattamálum, hefur þegar verið felldur niður.
Ingi Freyr er iðinn við kolann að birta sakamálafréttir á Stundinni/Heimildinni og RÚV endurbirtir. í huga almennings eru sakborningar sekir áður en ákæra liggur fyrir. Dagskrárvald fjölmiðla sér til þess. Finnur Þór tryggir hæga málsmeðferð til að RSK-miðlar fái tíma að birta raðfréttir um ósannaðar ásakanir og telja almenningi trú um að glæpir hafi verið framdir.
Samspil embættis héraðssaksóknara og fjölmiðla að búa til ásakanir á hendur einstaklingum er ekki í samræmi við meginreglur réttarríkisins um sjálfstæði ákæruvaldsins og hlutlæga málsmeðferð.
Þegar Finnur Þór tekur ákvarðanir sem saksóknari, t.d. um réttarstöðu einstaklinga, eru í húfi hagsmunir bróður hans blaðamannsins. Það sjá allir í hendi sér, sem nenna að gefa málinu gaum, að þetta verklag réttarkerfisins er ólíðandi. Það mætti allt eins útvista ákæruvaldinu til einkaaðila. Bræður í glæpum ehf.
One Comment on “Finnur Þór og Ingi Freyr: bræður í glæpum”
Ekkert nýtt í kringum íslenskt óréttarkerfi,svo spillt að Namibíu mönnum blöskrar .