Athygli vakti í gær þegar Reynir Traustason birti afsökunarbeiðni til transfólks. Tilefnið var frétt Mannlífs, sem skrifuð var upp úr Moggabloggi Páls Vilhjálmssonar kennara og blaðamanns. Fréttin var fjarlægð og birti Mannlíf afsökunarbeiðnina í staðinn.
Frétt Mannlífs hafði verið skrifuð beint upp úr bloggi Páls sem ber yfirskriftina Kynjahopp, trans og afsögn Sturgeon. Efni bloggsins er klúður fv. forsætisráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, vegna nýrra laga um kynrænt sjálfræði. Málið sprakk í andlitið á ráðherranum, eftir að maður sem nauðgað hafði tveimur konum, breytti sér í transkonu eftir að hafa hlotið fyrir það fangelsisdóma.
Nauðgarinn varð „transkona“ fyrir afplánun
Á grundvelli þess að vera nú orðinn kona var hann fluttur í kvennafangelsið. Upp úr sauð vegna málsins í Skotlandi, en stuðningsmenn flokks Sturgeon sögðu sig úr honum þúsundum saman. Það endaði með afsögn ráðherrans og nauðgarinn var fluttur í karlafangelsi.
Eldur Deville, talsmaður Samtakanna 22 - hagsmunasamtaka samkynhneigðra, tjáði sig um málið á fésbókarvegg sínum í gær. Þar greindi hann frá því að starfsfólki Mannlífs hafi verið hótað lífláti eftir að miðillinn tók helgarviðtal við Eld sem birtist hjá Mannlífi síðastliðið haust.
Samkvæmt heimildum Fréttarinnar á maður að nafni Hlynur Már Vilhjálmsson, starfsmaður á Landspítalanum og transaktívisti, að hafa ausið viðkomandi fúkyrðum og hótað lífláti. Málið sé á leið til lögreglu. Hlynur þessi flokkar sig sem „opinbera persónu“ á facebook eins og sjá má hér að neðan.
„Lúffaði“ Reynir fyrir hótunum transaktívista?
Eldur veltir því fyrir sér hvernig fólk eigi að standa vörð um réttindi sín „hvernig við skynjum, skiljum og lýsum hlutlægum raunveruleikanum er tekið frá okkur, hvernig eiga samkynhneigðir að verja réttindin sín ef við megum ekki tala um hvað kyn er,“ segir Eldur á facebook síðu sinni.
„Svo þorði Mannlíf ekki að fjalla um hlaðvarpsþátt Gunnars Dan við mig í nóvember og núna láta þeir snarvitlausa transaktivista þagga niður í sér enn eina ferðina. Hvað er í gangi, Reynir Traustason ?“ spurði hann jafnframt.
Reynir svaraði Eldi, þar sem segist ekki kannast við umræddar líflátshótanir. Hann sakaði Eld um „hreina lygi“ varðandi ástæður þess að Mannlíf tók ekki hlaðvarpsþáttinn til umfjöllunar. Eldur kvaðst þá hafa gögn undir höndum sem sanni staðhæfingar sínar.
Fréttin.is hafði samband við Reyni Traustason, ritstjóra Mannlífs, til að spyrjast fyrir um líflátshótunina, en hann vildi ekki tjá sig um málið. Hann sagðist ekki kannast við málið.
Þannig mætti velta því upp hvort að Reynir sé að beygja sig fyrir frekum aktivístahópi. Fordómar í bloggfærslu Páls eru nefnilega hvergi sjáanlegir, heldur er þar eingungis fjallað um staðreyndir málefna líðandi stundar.