ESB útvistar verkefnum til Sorosar og stefnir Pólverjum

frettinIngibjörg Gísladóttir, StjórnmálLeave a Comment

Fyrr í mánuðinum mátti lesa á Breitbart að Vera Jourova, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafi staðfest að samtökum Georgs Sorosar, Open Society Foundation, hefði verið úthlutað meira en 3,3 milljónum evra úr sjóðum ESB til að aðstoða við að koma stefnumálum sambandsins á framfæri. Hún staðfesti það eftir fyrirspurn frá spænska ESB-þingmanninum Jorge Buxadé Villalba. Um er að ræða tvö verkefni. Annars vegar á Open Society Foundation að „styðja frjáls félagsamtök við að vekja athygli á réttindum og gildum“ innan sambandsins en einnig á að kynna „gildi ESB“ í Búlgaríu, Tékklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi. Í greininni er haft eftir Cristian Terhes, rúmenskum þingmanni sem hefur kallað eftir umbótum innan ESB, að færa ætti ákvarðanavald innan sambandsins til fólksins í stað þess að útvista því til auðkýfinga eins og Sorosar.

ESB lög öllu æðri?

Ekki er minnst á að kynna þurfi gildi ESB fyrir Pólverjum, líklega er það talið óþarft. Ríkisstjórnin sem komst til valda þar 2015 hefur staðið föst á því að löggjöf ESB sé ekki æðri pólsku stjórnarskránni en ESB er því ekki sammála og hefur haldið eftir greiðslum úr sjóðum sambandsins og fyrr í mánuðinum var pólska ríkinu stefnt fyrir æðsta dómstól ESB sakir þessarar þvermóðsku. Deilan mun standa um val á dómurum í hæstaréttinn pólska. Er Flokkur laga og réttlætis komst til valda þá hafnaði hann þeim dómurum sem fyrri ríkisstjórn hafði valið en setti sína menn í embættin. Svo voru einnig aldurstakmörk dómara lækkuð, til að losna við gömlu kommúnistana sðgðu sumir. Þrír dómarar fengu sum sagt ekki þau embætti er þeir höfðu vænst - þrír af 170.

Pólverjar komu Ursulu til valda

Hægt er að halda því fram að Pólverjar geti sjálfum sér um kennt. Samkvæmt pólska ríkisútvarpinu þá hefði Ursula von der Leyen ekki verið kjörin til að leiða ESB ef Pólverjar hefðu ekki stutt hana. Hermt var að frú Merkel hefði beitt sér í því máli og mælt með þessum ráðherra sínum. Það var ekki eins og að skoðanir og hugmyndir Ursulu lægju ekki fyrir. Hún kynnti þær á Bilderberg fundi um mánaðarmótin maí-júní 2019, þar sem þrír Pólverjar voru meðal þátttakenda, og lagði einnig fram 23 bls. kynningu á stefnumálum sínum þar sem kom skýrt fram að hún stefndi að sameinaðri Evrópu með samstilltri stefnu á öllum sviðum þar sem Evrópulög ættu að vera æðri lögum þjóðríkjanna. Svo vildi hún einnig koma á meirihlutaræði í ESB og afnema neitunarvald einstakra ríkja. Finna má stefnuskrá hennar á netinu undir: A Union that Strives for More. My agenda for Europe. Neitunarvaldið hefur reyndar ekki verið afnumið svo Pólverjar gætu kannski beitt því vopni gegn ofríki sambandsins sem átti upphaflega aðeins að snúast um viðskipti landa á milli.

Skildu eftir skilaboð