Ofurtungl í Fiskum

frettinGuðrún Bergmann, StjörnuspekiLeave a Comment

Eftir Guðrúnu Bergmann:

Við lifum á miklum umbreytingartímum hjá mannkyninu. Alls staðar eru merki um að við séum á tímabili endaloka og upphafs á mörgum sviðum. Eitt skýrasta dæmið um það er Plútó sem tekur 246-248 ár í að fara einn hring um sporbaug sinn. Hann er nú að færa sig yfir í annað stjörnumerki, en hann fer úr Steingeit inn í Vatnsberann þann 23. mars næstkomandi.

Annað dæmi er Satúrnus en hann tekur 29 ár í að fara einn hring um sporbaug sinn. Hann er líka að fara yfir í annað stjörnumerki, en hann fer úr Vatnsberanum yfir í Fiskana þann 8. mars næstkomandi og kemur ekki aftur inn í Vatnsberann fyrr en árið 2050.

Með einungis tveggja vikna millibili færa þessar öflugu plánetur sig því úr einu stjörnumerki yfir í annað – og það mun marka mikil umskipti í orkunni.

SATÚRNUS OG PLÚTÓ

Satúrnus verður á tuttugustu og níundu gráðunni eða gagnrýnu gráðunni í Vatnsbera frá 28. febrúar og fram til 7. mars, en þá rennir hann sér yfir í Fiskana. Plútó á hins vegar eftir að verða á síðustu gráðunni í Steingeit frá 11. febrúar og fram til 23. mars, þegar hann rennir sér inn í Vatnsberann, þar sem hann verður fram til 11. júní, en síðasta gráðan í hverju merki er gráðan þar sem skuggahlið merkjanna kemur oft upp.

Báðar þessar plánetur eru tengdar stjórnun og völdum að ofan frá og niður, svo við megum búast við að reynt verði að beita því valdi eitthvað á þessum tíma. Það varir þó ekki til langframa, því við erum á leið inn í mjög nýja og frábrugðna orku sem styður við umbeytingarnar.

Þessi orka er rafmögnuð og á mjög hárri tíðni, svo hún getur reynt á okkur með alls konar líkamlegum óþægindum, en þau eru tákn um hversu hratt við þurfum að aðlaga okkur þessari nýju orku í framþróunarferli okkar.

NÝJA OFURTUNGLIÐ
         Kortið er gert fyrir Reykjavík

Nýja OFURTUNGLIÐ er enn eitt Tunglið sem er mjög nálægt Jörðu á sporbaug sínum. Það gefur alltaf til kynna að meiri líkur séu á jarðhræringum af öllum gerðum, bæði í Jörðinni sjálfri svo og í pólitíkinni – og við getum líka átt von á „jarðhræringum“ í meðvitund okkar, vegna þess að orkan er svo sterk.

Tunglið verður nýtt þann 20. febrúar kl. 07:05 að morgni hér á landi (miðast við GMT tíma). Þetta er fjórða Tunglið í röð af fimm nýjum Tunglum, sem er á fyrstu gráðu í merkinu sem það lendir í. Þetta nýja OFURTUNGL er því á 1 gráðu og 21 mínútu í Fiskum og er enn eitt merkið um nýtt upphaf eða nýjan kafla.

Fiskarnir er næmasta vatnsmerkið, svo við getum orðið mjög tilfinningarík í kringum þetta nýja Ofurtungl, einkum og sér í lagi vegna þess að Tunglið er svo nærri Jörðu. Stundum geta tilfinningarnar orðið yfirþyrmandi eða þá það getur orðið mikið táraflóð og okkur fundist við vera að missa fótanna í allri þessari tilfinningasemi. Orka Fiskanna tengist líka alltaf óheftu vatni og miklum flóðum, sem gætu orðið í kringum þetta nýja Tungl.

LYGAR OG SVIK

Á lægri sviðum tengist orka Fiskanna lygum og svikum. Þrátt fyrir skuggahliðina eða lægri sviðin, eru Fiskarnir samt það merki sem er tengdast uppsprettu alls sem er, óskilyrtum kærleika, heilun og þessum skilningi á samruna, eða því að við séum tengd öllum í Alheiminum.

Fiskarnir eru líka tengdir kvikmyndum, tálsýn eða skynvillu, öllum fjölmiðlum og öllum tegundum af lyfjum/eiturlyfjum og þeim sem framleiða þessi lyf. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þessi orka kemur til með að staðfestast og hvernig allt það töfrandi, dulræna og skáldlega sem tengist Fiskunum á hærri sviðum kemur til með að birtast.

FYRSTA GRÁÐAN Í FISKUM

Hið áhugaverða er að þetta nýja Tungl er að virkja eða örva orkuna á fyrstu gráðu í Fiskum, en Satúrnus mun fara inn á þá gráðu þann 8. mars. Hann kemur ekki til með að fara lengra inn í Fiskana en á fyrstu sjö gráðurnar á þessu ári.

Þetta nýja Ofurtungl kemur til með gefa okkur smá innsýn í þá orku sem mun fylgja því þegar Satúrnus kemur inn í Fiskana – en þar verður plánetan fram í febrúar árið 2026. Ástæðan fyrir þeirri innsýn er sú að í korti hins nýja Ofurtungls er Satúrnus í Vatnsbera í utan merkja samstöðu við nýja Tunglið sem er í Fiskum.

SATÚRNUS OG TAKMARKANIR

Satúrnus fór inn í Vatnsberann þann 22. mars árið 2020. Orkan sem tengist Satúrnusi er takmarkandi, mótandi og fastheldin. Næsta dag eða þann 23. mars var lokað á frelsi fólks nánast um allan heim, en Vatnsberinn er táknrænn fyrir frelsið. Þessar takmarkanir hafa haldið áfram, mismunandi miklar, á mismunandi stöðum í heiminum.

Búmmerangið eða endurvarpið af þessum takmörkunum öllum var að það mótuðust ný samfélagsmynstur (Satúrnus), fyrir framtíðina (Vatnsberinn). Mörg ný samfélagskerfi hafa því mótast meðan Satúrnus hefur verið í Vatnsberanum síðustu þrjú ár. Allt eru þetta kerfi sem tengjast grasrótinni – hópar sem vinna saman að samvinnuverkefnum.

FISKARNIR

Fiskarnir eru svolítið eins og einsetumaðurinn, því Fiskarnir hafa mikla þörf fyrir leit inn á við og alls konar pælingar og hugsanir. Orka Fiskanna er kvenleg og móttækileg yin orka og því meira sem við getum leitað inn á við í kringum þetta nýja Ofurtungl, því betra.

Með því að finna innri ró og frið, alsælu og sitja í þögn í náttúrunni, hugleiða eða gera eitthvað sem tengist innri ásættanleika, erum við að nota orkuna sem fylgir þessu nýja Ofurtungli í Fiskum vel, því hún opnar okkur fyrir þeim nýju upplýsingum sem eru að streyma til okkar.

RAFMAGNAÐAR HUGMYNDIR

Það verður mikið um nýjar upplýsingar sem koma til okkar í kringum þetta nýja Ofurtungl því það spila fleira þættir þar inn í. Merkúr er á 12 gráðum í Vatnsbera í 90 gráðu spennuafstöðu við Úranus sem er á 15 gráðum í Nauti og Úranus stjórnar Vatnsberanum, svo það er tvöfaldur kraftur í afstöðunni. Þetta verða því rafmagnaðar hugmyndir. Hraðar hugsanir, innsæi, niðurhal á upplýsingum, leiftrandi hugmyndir, breyttur hugsanaháttur og upplýsingar að streyma til okkar úr Vetrarbrautinni.

Til að ná utan um þessar leiftrandi hugmyndir, þurfum við að sitja í ró og kyrrð og taka á móti þeim. Úranus á eftir senda inn hugmyndir eins og eldingar, hugmyndir fyrir framtíðina sem munu nýtast vel á vegferð okkar fram á við.

Táknið fyrir Black Moon Lilith
BLACK MOOM LILITH

Black Moon Lilith er á 15 gráðum í Ljóni (ekki teiknuð inn á kortið en auðvelt er að finna 15 gráður í Ljóni). Hún myndar því T-spennuafstöðu með 180 gráðu spennuandstöðu við Merkúr og 90 gráðu spennuafstöðu við Úranus.

Með Black Moon Lilith fylgir hið kvenlega, ótamda og eðlislæga. Hún er tengd lögmálum náttúrunnar en ekki lögum mannanna. Hún er algerlega ósveigjanleg, hún ver sjálfsyfirráðarétt sinn og önnur réttindi og ver réttindi kvenna. Hún ver af öllum krafti það sem rétt er samkvæmt lögum náttúrunnar.

HUGREKKI OG INNRI STYRKUR

Til að styrkja enn frekar þessi þemu, erum við með Júpiter í Hrút, en Hrúturinn er táknrænn fyrir frumkvöðulinn, hinn hugrakka, þann sem finnur hetjuna í sjálfum sér – og er tilbúinn til að fara inn á nýjar og ótroðnar slóðir og Júpiter kemur til með að vera í Hrútnum fram í maí. Því er frábært að láta hugrekki og innri styrk blandast við fallegu og mildu Fiskaorkuna.

PLÚTÓ MAGNAR ALLT UPP

Bara til skýra Plútó aðeins betur þá magnar hann upp, það sem stjörnumerkið sem hann fer í gegnum er táknrænt fyrir – og á sama tíma grefur hann upp alla spillingu, skort á heilindum og gagnsæi sem tengist því merki.

Sem dæmi má nefna að Plútó fór inn í Steingeitina árið 2008. Steingeitin tengist stórfyrirtækjum, stórum bankastofnunum, stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og stofnunum. Í raun öllu sem stjórnað er að ofan og niður, af elítunni og þeim sem njóta mikilla fríðinda. Það ár varð bankahrunið. Var bankamönnum refsað fyrir það? Ekki nema að mjög litlu leyti, enda styrkti þetta í raun stjórnun að ofan og niður, sem hefur styrkst enn frekar síðustu þrjú árin, meðan Plútó hefur verið að fara í gegnum síðustu gráðurnar í Steingeitinni.

Samtímis hefur Plútó flett ofan af mikilli spillingu, skorti á heilindum, því að fólk sé ábyrgt gerða sinna og að gagnsæi ríki – hvar sem Plútó hefur fundið slíkt og það ferli heldur áfram. Þetta er mjög sértækt og nokkuð langdregið ferli sem endar ekki fyrr en í lok árs 2024.

PLÚTÓ Í VATNSBERANUM

Þegar Plútó fer inn í Vatnsberann komum við til með að sjá margar útgáfur af orkunni en þá eykst áherslan á tækni og vísindi. Það verða miklar framfarir í gervigreind (hafa nú þegar átt sér stað, almenningur hefur bara ekki séð þær) og meira verður um róbotta.

Allt sem tengist flugi á líka eftir að taka miklum framförum, þar sem Vatnsberinn er mjög tengdur öllu í háloftunum, því Úranus var í mýtunni himnaguðinn (Sky God). Flutningaleiðir og samgöngur eiga eftir að breytast, meira á eftir að koma fram af alls konar heilunaraðferðum og tækni tengdri heilun og yngjandi tækni, því Vatnsberinn er tengdur æskunni og margt annað kemur til með að styrkja allt þetta.

Samtímis mun Plútó líka fletta ofan af öllu í vísindum og tækni þar sem skortir gagnsæi, ábyrgðarkennd og heilindi.

Skildu eftir skilaboð