Aðbúnaður á líknardeild Landakots skelfilegur: mygla, raki, úldið vatn, sementsryk, kuldablástur

frettinHeilbrigðismálLeave a Comment

Aðstandendur sjúklings á líknardeild Landakotspítala sendu Fréttinni skriflegt erindi ásamt myndefni og lýstu skelfilegum aðbúnaði þar. Auk þess segir fókið farir sínar ekki sléttar af samskiptum við starfsfólk spítalans: „það sé hrokafullt og geri lítið úr aðstæðunum.“ Kvörtun hefur verið send Landlækni og Heilbrigðiseftirlitinu.

Fréttin reyndi að ná sambandi við stjórnanda/yfirmann deildarinnar en hjúkrunarfræðingur á staðnum brást illa við erindinu og sagðist í fyrstu ekki vita hver það væri, en síðar að hann hefði öðrum hnöppum að hneppa.

Aðstandendur vildu vekja athygli á því að höfuð sjúklings liggur minna en í eins metra fjarlægð frá myglu, raka, úldnu vatni, sementsryki, flagnaðri málningu og kuldablæstri að utan sem nístir undan þessum hryllilega óþrifnaði og blæs myglugró beint á andlit sjúklings.

Sjúklingur liggur u.þ.b. metra frá þessum vegg

Vítisvist á Landakotsspítala

„Það væri að öllum líkindum enginn Íslendingur sem myndi trúa því að þennan viðbjóð væri að finna á íslenskum spítala, hvað þá að sjúklingum væri gert að liggja nánast ofan í þessum viðbjóði og enn síður myndi nokkur maður sem veit eitthvað um velferðarríkið Ísland trúa því að viðkvæmustu sjúklingum Íslands sé gert að liggja þarna,“ segja aðstandendur sjúklings á Landakoti og „staðreyndin er sú að þetta er að finna á líknardeild L5 á Landakotsspítala.“

„Hér er ekki um villst að sú nöturlega staðreynd blasir við að lítil sem engin virðing er borin fyrir lífi og velferð sjúklinga á Landakotsspítala. Höfuð sjúklings liggur minna en í eins metra fjarlægð frá myglu, raka, úldnu vatni, sementsryki, flagnaðri málningu og kuldablæstri að utan sem nístir undan þessum hryllilega óþrifnaði og blæs myglugró beint á andlit sjúklings.“

Raki, mygla, úldið vatn, sementsryk, flögnuð málning og kuldablástur við rúm sjúklings á L5

„Ef hér væri um skóla, bakarí eða frystihús að ræða væri því snarlega lokað en stjórn Landakotsspítala hefur tekist að gera lítið úr þessum vanda og einhver innan spítalans hefur reiknað út að líf sjúklingana skipti minna máli heldur en fjármagn spítalans og því ódýrast að láta sjúklinga dúsa þarna,“ sagði fjölskyldan jafnframt og „ef kvartað er undan aðstæðum mætir það harðri og samtaka andstöðu yfirhjúkrunarfólks, lækna og stjórn Landakotsspítala.“

„Það síðasta sem sjúklingur eða aðstandandi vill er að hafa spítalann sem á að hugsa um líðan og velferð viðkomandi upp á móti sér og því eru margir sem þegja eftir fyrstu kvörtun, krossleggja fingur og vona það besta,“ bætti fjölskyldan við.

Aðbúnaðurinn skelfilegur

Aðstandendur tóku fram að ekki væri við almennt starfsfólk að sakast sem sinnir umönnun og reynir sitt besta í mjög bágbornu umhverfi sem yfirhjúkrunarfólk, læknar, millistjórnendur og stjórn Landakots eru ábyrg fyrir.

Fólkið sagði einnig að afsakanir spítalans væru margar og miðuðu allar að því að gera lítið úr þessum alvarlegu og slæmu aðstæðum. Bláköld staðreyndin situr hins vegar eftir, sama hversu mikið reynt er að fegra málið. Svona óþrifnaður á ekki undir nokkrum kringumstæðum að þykja í lagi af læknum, hvað þá stjórn Landakotsspítala ef sú stjórn á að kallast hæf á nokkurn máta.

Rakaskemmdir fyrir aftan höfuðgafl rúmsins

„Myglugró, úldið vatn, sementsryk, raki, og kuldi inni í herbergi með sjúklingum sem eru að berjast fyrir lífi sínu er án efa stórfellt brot á sjúklingum,“ segir fjölskyldan og að „annað brot og síður alvarlegra er að leyfa því að viðgangast að sjúklingum sé haldið inni í þessum herbergjum með blessun lækna, yfirhjúkrunarfólks og stjórn Landakotsspítala eftir að búið er að gera alvarlegar athugasemdir.“

„Fyrirtækjum og stofnunum hefur verið lokað fyrir mun minna, hvers vegna er í lagi að viðkvæmir sjúklingar séu látnir þurfa þola svona vítisvist,“ spyrja aðstandendur að lokum.

Myndband af ástandinu má sjá hér neðar.

Skildu eftir skilaboð