Kína tekur forystu í Úkraínu

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, Úkraínustríðið1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson blaðamann og kennara:

Í Úkraínustríðinu falla öll vötn til Peking. Macron pantar viðtal hjá Xi Jinping forseta Kína og fær áheyrn í byrjun apríl. Í mars sækir Xi Jingping Pútín heim í Moskvu. Macron mun hitta forseta Kína eftir Pútín. Forgangsröð Kínverja er skýr, fyrst Rússar síðan vestrið.

Selenskí forseti Úkraínu vill einnig áheyrn hjá forseta Kína, segir það „mikimikilvægt fyr­ir alþjóðaör­yggi.“ Forsetinn í Kænugarði ímyndar sér að hann spili í efstu deild alþjóðastjórnmála. Hann stýrir utandeildarliði sem keppir i lánsbúningum. Þrjú ríki munu ráða úrslitum Úkraínustríðsins: Bandaríkin, Rússland og Kína. Frakkland og Þýskaland verða með áheyrnaraðild.

Vesturlönd eru logandi hrædd um að Kína útvegi Rússum hergögn, sem gerðu vont ástand verra. Kína er óopinber bakhjarl Rússa. Vestrið óttast að stórveldið í austri stígi fram í formlegu bandalagi með Rússlandi.

Kínverjar léku millileik í liðinni viku. Þeir kynntu friðaráætlun til að ljúka Úkraínustríðinu. Áætlunin gerir ekki ráð fyrir að Rússar skili herteknu landi, sem þegar hefur verið innlimað í rússneska ríkið. Aftur gerir áætlunin ráð fyrir að vesturlönd hætti að moka vopnum á austurvígstöðvarnar. Séð frá vestrænum sjónarhóli er friðaráætlunin löðrungur. Kínverjar telja sig hafa efni á ósvífninni.

Ef vesturlönd væru í sterkri stöðu myndu þau skella hurðinni á Kínverja og hóta efnahags- og viðskiptaþvingunum. En vestrið sér að stríðið í Úkraínu er tapað. Opin spurning er hversu hratt Rússar sækja fram. Stjórnarherinn er ekki í neinum færum að gera annað en tefja rússnesku sóknina.

Af þeirri ástæðu er hlustað á Xi Jingping og friðartillögur sem taka mið af rússneskum öryggishagsmunum og greiða fyrir innlimun á fimmtungi Úkraínu í Rússland.

Umræðan á vesturlöndum er að breytast. Til skamms tíma hét það að brátt sneri stjórnarherinn í Kænugarði vörn í sókn og ynni til baka tapað landsvæði. Ekki lengur.

Breska útgáfan Telegraph hamrar jafnt og þétt á þeim boðskap að ekki undir nokkrum kringumstæðum megi leyfa rússneskan sigur á sléttum Garðaríkis. Í leiðara útgáfunnar í gær kvað við annan tón. Vestrið er ekki með áætlun um hvernig skuli ljúka Úkraínustríðinu, Kína tekur frumkvæðið, segir í leiðaranum. Vestrið þarf langtímaáætlun, kvartar leiðarinn.

Langtímaáætlunin var að Úkraína ynni á vígvellinum. Síðan átti að knésetja Rússland. Sú áætlun er farin í vaskinn. Óformlegt bandalag Rússlands og Kína er með frumkvæðið. Vesturlönd eru á undanhaldi.

Líklegt framhald næstu vikur er að vestrænir ráðamenn tala meira um að ljúka verði Úkraínustríðinu en minna um að Pútín megi ekki sigra. Klukkan glymur Kænugarði.

One Comment on “Kína tekur forystu í Úkraínu”

  1. Kínverjar kynntu þann 24. febrúar friðaráætlun til lúkningar Úkraínustríðinu.

    Nú virðist svo að hinn kristilegi andi sem hefur verið til staðar hjá Vesturlandabúum í 2000 ár hafi flutt sig yfir á Kínverja.

    Þeir boða frið á jörð, meðan Vestrið boðar meira stríð.

    En Jesús, Friðarhöfðinginn, segir í Mattheusarguðspjalli 5:9:
    “Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.”

    Nú er ráð að vekja upp orðatiltækið sem var á allra vörum fyrir 70 árum:

    “Allt í þessu fína frá Kína.”

Skildu eftir skilaboð