Bloggari skrifar fréttir

frettinFjölmiðlar, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Ef ekki væri fyrir tilfallandi bloggara segði fátt af byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma og aðför að einkalífi hans. Margverðlaunaðir blaðamenn koma við sögu, fyrst sem gerendur en síðar sem þöggunaryfirvald fjölmiðla. Þrír fréttamenn RÚV urðu að taka pokann sinn og Stundin og Kjarninn að sameinast.

Fyrsta bloggfréttin um Pál skipstjóra var skrifuð 2. nóvember 2021. Ellefu dögum síðar birtist önnur færsla þar sem farið var yfir málið, eins og það stóð þá um haustið. Síðan er fjallað um sakamálið eftir efnum og ástæðum, á meðan fjölmiðlar keppast við að þegja.

Þórður Snær ritstjóra Kjarnans, nú Heimildarinnar, var allt annað en sáttur við að bloggari segði fréttir sem verðlaunablaðamann vildu ekki að birtust. Þórður Snær skrifar leiðara 18. nóvember 2021 með fyrirsögninni „Glæpir í höfði Páls Vilhjálmssonar.“ Gefum ritstjóranum orðið:

Stað­reyndir eru ekki teygj­an­legt hug­tak. Það má ein­fald­­lega ekki segja hvað sem er, um hvern sem er, hvar sem bara vegna þess að ein­hver raðar röngum álykt­unum saman í fjar­stæðu­kennda atburða­rás. Nauð­syn­legt er að finna stað­hæf­ingum sínum stað í raun­veru­leik­an­um. 
Þar eiga stað­hæf­ingar Páls Vil­hjálms­sonar engan sama­stað.

Þetta skrifar Þórður Snær 18. nóvember 2021. Þrem mánuðum síðar, þann 14. febrúar 2022, er upplýst að fjórir blaðamenn hafi stöðu sakbornings í lögreglurannsókn á byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans og broti á friðhelgi einkalífs. Þórður Snær er á meðal sakborninga.

Margur blaðamaðurinn hefur fengið verðlaun fyrir minna en að sjá þrjá mánuði fram í tímann. Þórður Snær fær taugaáfall þegar hann sér handverk sem kemur margfalt betur heim við staðreyndir en íslensk verðlaunablaðamennska. Eina úrræði ritstjórans er að stefna bloggara, - fyrir að skrifa fréttir.

Sannleikurinn er sá að blaðamenn RÚV og Heimildarinnar (áður Stundarinnar og Kjarnans) iðkuðu glæpi og kölluðu blaðamennsku. Aðför blaðamanna að lífi, heilsu og einkalífi Páls skipstjóra er sú ljótasta í íslenskri fjölmiðlasögu.

Á meðan fjölmiðlar þögðu skrifaði bloggari fréttir sem eiga erindi til almennings. Tilraun Þórðar Snæs verðlaunablaðamanns til þöggunar mun mistakast.

Skildu eftir skilaboð