Eftir Geir Ágústsson:
Þjóðmálaumræðan getur oft verið óvægin og þá sérstaklega ef hún leikur lausum hala á samfélagsmiðlum, en við elskum jú að hoppa í drullupollum og allt í lagi með það. Menn skiptast í fylkingar og finna upp á niðrandi gælunöfnum fyrir málefnalega andstæðinga. Það er í sjálfu sér skiljanlegt. Engin leið er að setja sig inn í hvert smáatriði í hugarheimi allra sem taka þátt í opinberri umræðu. Menn eru „vinstrimenn“ og „hægrimenn“, „jafnaðarmenn“ og „íhaldsmenn“, samsæriskenningasmiðir og heilaþvegnir. Þannig er það og oft handhægt að grípa í stimpla og stimpla fólk með þeim.
Rétta umburðarlyndið – og réttu fordómarnir
Einn stimplanna sem gengur um er „góða fólkið“. Hann er notaður um mjög gott fólk, svo því sé haldið til haga. Það hefur margt hvert áhyggjur af umhverfinu, veirum, loftslaginu, kynjahlutföllum, því að fólk hafi rangt kyn eða sé ranglega ásakað um að hafa eitthvað kyn, af fordómum gegn hópum sem njóta ríkisstyrkja til að berjast gegn fordómum gegn sér, af ónægum fordómum gegn hópum sem njóta ekki ríkisstyrkja til að berjast gegn fordómum gegn sér og því að venjulegt fólk eigi of marga bíla sem eru þar að auki ekki með innstungu. Sem sagt, mjög gott fólk.
Góða fólkið hefur fylgt sérhverju samfélagi í gegnum sögu mannkyns. Þetta er fólkið sem yfirvöld elska. Það tekur undir allar áhyggjur þeirra og ber boðskapinn áfram til hinna fáfróðu. Það hefur alla réttu fordómana og allt rétta umburðarlyndið. Það hringir í lögregluna til að klaga nágranna sinn ef um slíkt er beðið. Það ber öll réttu táknin, og er gríman mögulega það nýjasta. Það tekur öll réttu lyfin. Það skemmtir sér frekar en að fyllast klígju þegar ríkisútvarp útvaldra viðhorfa (RÚV) býður upp á skemmtiþætti.
Óhlýðni hafi afleiðingar
Auðvitað vill góða fólkið ekki gera neinum mein þótt það óski þessi að sumir finni aðeins til óþæginda fyrir að vera ekki á réttri línu. Það vill ekki útrýmingarbúðir, fangelsun og gúlag fyrir að hafa rangar skoðanir, aftökur þeirra óæskilegu eða krossfestingar falsspámanna. En það vill að það hafi afleiðingar að bera ekki grímu, þiggja ekki sprautu, skorta skilning á óréttlæti ójafnra kynjahlutfalla og halda fast hugmyndina um tvö kyn (á sama tíma eða til skiptis – gildir einu), afneita hamfarahlýnun og sjá ekki hvernig hún veldur fimbulkulda og snjókomu, samþykkja ekki illmennsku ákveðinna erlendra stjórnmálamanna og kunna ekki að skammast sín fyrir húðlit sinn og menningarsögu.
Góða fólkið er duglegt að benda okkur hinum á fordóma okkar, illt innræti, gamaldags hugsunarhátt, sjálfselsku og hvernig lífsstíll okkar sé að tortíma plánetunni eða drepa gamla fólkið. „Vísindin hafa talað“ og „skoðanir þínar eru upplýsingaóreiða“ eru slagorðin sem að lokum leiða til ritskoðunar á óæskilegum skoðunum og fordæmingum í ríkisútvarpi útvaldra viðhorfa (RÚV).
En kannski er góða fólkið ekki svo gott. Maður spyr sig, og það má.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 7. febr.2023.