Jóhann Elíasson viðskiptafræðingur ritar á bloggi sínu (sjá pdf að neðan) um þann háskalega veg sem alþingismenn hafa beint lýðveldinu inn á sem hófst, þegar umsóknin að ESB var lögð fram sem þingsályktunartillaga að þjóðinni forspurðri. Síðan þá hefur sniðganga stjórnarskrár íslenska lýðveldisins orðið enn fastari regla en að lýðræðið njóti sín samkvæmt þeirri sömu stjórnarskrá. Hefur þessi þróun gengið svo langt, að jafnvel kunnir fræðimenn og þekktir lagarefir reyna að telja landsmönnum trú um að bókun 35 sé í sama anda frelsis og lýðræðis og sjálf stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er víðs fjarri sannleikanum. Í raun og veru er það frumvarp sem nú liggur fyrir um samþykkt bókunar 35 í raun og veru tilraun til afhendingu fullveldis Íslands í hendur ESB og dómskerfi þess. Það er landráð samkvæmt stjórnskipunarlögum Íslands.
Jóhann Elíasson, viðskiptafræðingur BSc frá Háskólanum á Akureyri, rekstrarfræðingur frá Agder Distriktshøgskole í Noregi, iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands og stýrimaður (annað stig) frá Stýrimannaskólanum í Rvík.
Alla grein Jóhanns má lesa í pdf skjali hér að neðan. Hér er stiklað á því helsta. Jóhann telur að fækka megi þingmönnum úr 63 í 40. Sérstaklega með tilliti til vaxtar báknsins en núna eru margir þingmenn komnir með einn eða fleiri aðstoðarmenn. Þá vill hann að endurskoðun fari fram á EES samningnum og að Ísland segi sig úr Schengen samkomulaginu.
Þrískipting ríkisvaldsin ábótavant í framkvæmd
Eftir að hafa lýst þrískiptingu valdsins samkvæmt stjórnarskránni, þá ber hann saman aðgerðir þingmanna við fyrirmæli stjórnarskrárinnar:
„Eitthvað virðist þetta hafa skolast til á undanförnum árum og jafnvel áratugum og hægt er með nokkuð góðri samvisku að fullyrða það, að þrískipting ríkisvaldsins hafi aldrei að fullu verið til framkvæmdar hér á landi.“
„Samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins eiga ráðherrar ekki að hafa atkvæðisrétt á Alþingi og spurning hvort þeir eigi yfirhöfuð nokkuð að eiga sæti þar. Það er spurning hvort störf Alþingis yrðu ekki bara „skilvirkari” ef ráðherrar myndu bara mæta einu sinni í viku eða sjaldnar í fyrirspurnatíma niður á þing?“
Stjórnarskráin er mjög gott plagg
Jóhann Elíasson ræðir um seilingu framkvæmdavaldsins til áhrifa innan löggjafans og er komið með puttana í dómsvaldið samanber að flestir dómarar bæði í Héraðsdómi og Hæstarétti eru orðnir pólitískt skipaðir. Slík þróun er háskaleg og í andstöðu við anda stjórnarskrárinnar. Jóhann skrifar:
„Það er mín skoðun, að stjórnarskráin, sem slík sé mjög gott plagg og hefur hún þolað mjög vel tímans tönn en aftur á móti hef ég meiri áhyggjur af þeim sem eru á Alþingi og eiga að sjá til þess að það sé unnið í samræmi við stjórnarskrána meðal annars á að gæta þess að lög sem eru sett séu í samræmi við stjórnarskrána en á því vill nú vera misbrestur.“
„Það er tími til kominn að stjórnarskráin verði virt og fyrsta skrefið í þá átt er að „MOKA“ RÁÐHERRUNUM út af Alþingi enda eiga þeir alls ekki heima þar. Sem dæmi má geta þess að það getur ekki verið eðlilegt, að ráðherrarnir sitji heilu og hálfu dagana niðri á Alþingi og „bori bara í nefið á sér.“ Maður hefði haldið að það væri full vinna að stjórna landinu; í það minnsta er ekki mjög trúverðugt að menn og konur geti bara gert þetta með annarri hendinni.“
Væri búið að reka þingforsetann ef hann ynni í einkageiranum
„Áður en fólk fer að tala um að það vanti nýja stjórnarskrá er lágmark að sú stjórnarskrá sem er nú þegar til staðar sé virt. Það hefur verið alveg með ólíkindum að horfa upp á starfsemi þingsins og oft hefur það hvarflað að manni, að þingið sé með öllu stjórnlaust, ég er alveg viss um að það væri búið að reka forseta þingsins fyrir stjórnleysi og handvömm ef hann væri að vinna í einkageiranum.“
Jóhann rekur sögu þingsályktunartillagna. Í upphafi var útskýrt að um smámál væri að ræða en eftir að aðildarumsókn Íslands að ESB var útbúin sem þingsályktunartillaga 1/137 frá júní 2009 gengur sú skýring ekki lengur.
Aðildarumsókn að ESB varla neitt smámál
„En svo við förum aftur að ESB umsóknin í júní 2009 þá er þarna ekki um neitt „SMÁMÁL“ að ræða. Eftir óstaðfestum heimildum sem ég hef undir höndum, þá var þarna um að ræða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Jóhanns Sigfússonar og þar var Utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson. Þegar umsóknin kom til tals, „strandaði“ alltaf á því, að Jóhanna og flokksmenn hennar höfðu þá staðföstu trú, að þáverandi forseti lýðveldisins myndi ALDREI skrifa undir þessa umsókn, sem þýddi að þá yrði þjóðaratkvæðagreiðsla og það væri alveg einsýnt að þar yrði umsóknin FELLD og þar með yrði umsóknin dauð. Þá datt einhverjum snillingi í hug (sagt er að sá snillingur hafi verið Össur Skarphéðinsson) að leggja aðildarumsóknina að ESB fram sem þingsályktunartillögu því þá þyrfti ekki að hafa ÁHYGGJUR AF FORSETANUM. Hvort gjörningurinn væri brot á lögum væri seinni tíma vandamál.“
1287 mál afgreidd sem þingsályktunartillögur
„Eftir þetta fóru mörg STÆRRI mál í gegnum þingið sem þingsályktunartillögur. Alls hafa 1.287 mál farið í gegn sem þingsályktunartillögur og er það vel merkjanlegt hvað þessum málum hefur fjölgað mikið síðan 2009 og „þröskuldurinn“ á stærð málanna hefur hækkað mikið. Ég fór lauslega yfir þennan lista af þingsályktunartillögum frá upphafi og af þessum 1.287 þingsályktunartillögum eru 246, sem varða BREYTINGAR á „viðaukum“ EES samningsins og ég sem hélt að ekki væri hægt að breyta gerðum samningi jafnvel þó aðeins sé um að ræða viðauka. Ég er ansi hræddur um að margt athugavert kæmi í ljós ef allar þessar þingsályktunartillögur yrðu skoðaðar.“
Framsal valds til WHO er skýrt brot á Stjórnarskránni og Bókun 35 er landráðafrumvarp
„Nú er sem dæmi eftir nokkra daga að hefjast fundur, þar sem verður ákveðið HVORT ÍSLAND OG 193 ÖNNUR RÍKI AFSALI SÉR ÖLLU VALDI TIL WHO (ALÞJÓÐA HEILBRIGÐISMÁLASTOFNUNARINNAR) OG ÞÁ FARI WHO MEÐ ÖLL VÖLD Í HEILBRIGÐISMÁLUM ÞJÓÐARINNAR. Þarna er óumdeilt að um sé að ræða FRAMSAL Á VALDI TIL ERLENDRA AÐILA, SEM ER MEÐ ÖLLU ÓHEIMILT SAMKVÆMT STJÓRNARSKRÁNNI.“
„Nú reynir heldur betur á ALLA þá sem sitja á Alþingi Íslendinga. Nú á að leggja fram á Alþingi LANDRÁÐAFRUMVARP, sem nefnt er BÓKUN 35, það er ekki minnsti vafi að þetta felur í sér VALDAFRAMSAL. ÉG VEIT EKKI BETUR EN AÐ ALLIR SEM SETJAST Á ÞING ….. SVERJI EIÐ AÐ STJÓRNARSKRÁNNI OG STJÓRNARSKRÁIN HEIMILAR EKKI VALDFRAMSAL. Ég reikna nú ekki með að þingmenn eigi að rifja þennan eið upp við upphaf hvers þings, EN KANNSKI VÆRI EKKI VANÞÖRF Á ÞVÍ…………..“
Lesa má pistil Jóhanns Elíassonar á pdf hér að neðan eða hér: