Arnar Sverrisson skrifar:
Skerðing málfrelsis, leyndarhyggja og múgsefjun er áberandi í lýðræðissamfélögum á líðandi stundu – síðustu áratugina reyndar. Stjórnvöld og embættisveldi þeirra stjórnar beint og óbeint umræðu um dægur- og heimsmál – oft í samvinnu við auðjöfra - og skapar rétttrúnað.
Lögreglan eltist við fólk, sem tjáir sig vanþóknanlega, þ.e. ekki í samræmi við rétttrúnaðinn. Það er jafnvel talin geðveiki eins og á gullöld Lavrentiy Pavlovich Beria (1899-1953) í Ráðstjórnarríkjunum, sæluríki öreiganna, og Joseph Raymond McCarthy (1908-1957) í landi hinna frjálsu, Bandaríkjunum. Þvingunarinnlögn á geðsjúkrahús kemur enn til greina, fangelsi sömuleiðis.
Löggjafinn er líka iðinn við kolann, setur smáatriðalög, sem ætlað er að stjórna hugsun og skerða málfrelsi múgsins. Komandi hatursorðræðulöggjöf Katrínar og ríkisstjórnar hennar, er nýjasta dæmið á Íslandi.
Covidpestin og stríðið í Úkraínu eru kjörin dæmi um ofangreinda bannhelgi. Meginstraumsmiðlar hafa forðast eins og heitan eldinn að fjalla upplýsandi og gagnrýnið um hvor tveggju málefnin. Því má segja, að þeir hafi brugðist hlutverki sínu og stuðlað að forheimskun okkar og ótta við valdhafa.
En nú kynni að verða breyting á, góðu heilli. Sky News í Ástralíu efast í trú sinni á heilindi úkraínskra stjórnvalda og The Guardian um glópaákvarðanir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um efnahagsstríð við Rússa.
Umrætt efnahagsstríð og stuldur Bandaríkjamanna á hluta gjaldeyrisvaraforða Rússa og íbúa Venesúela, ásamt sviknum loforðum um að halda Nató í skefjum, hefur rýrt stjórnmálamenn - einkum handan Norður-Ameríku og Evrópu - trausti á Vesturveldin.
Aukin heldur hafa þessi vanheilindi og glópska enn frekar kynnt undir ástir Kínverja og Rússa og jafnframt skapað efnahagshremmingar fyrir atvinnuvegi og almenning í Evrópu og Bandaríkjunum. Utanríkisstefnulausir Íslendingar hafa valið að vera „í þessu [dæmalausa] liði“ eins og hinn djúpvitri utanríkisráðherra eyþjóðarinnar orðar það.
Og Vladimir Putin hlær (eins og frúin í betri bíl), meðan rúblan styrkist og efnahagsstórveldin vestan tjalds kikna í hnjáliðunum og sjá sína sæng upp reidda. Því það er nefnilega svo, að stjórnmálaleg, menningarleg og efnahagsleg þungamiðja veraldarinnar, færist til eins og flekar jarðskorpunnar við dýpri umbrot, jarðskjálfta og gos. Gömlu nýlenduveldin missa sem óðast hernaðarleg, efnahagsleg og siðferðileg tröllatök á allri veröldinni. Fjörbrotin eru greinilega. Hin rísandi stórveldi Asíu og Suður-Ameríku vakna af löngum dvala.
Heimurinn er að verða fleirskauta. En því miður skynja stjórnmálaoflátungar Vesturlanda ekki sinn vitjunartíma og stefna okkur fram á hengiflug.