Landlæknisembættið vill sprauta börnin af skriffinskulegum ástæðum

frettinPistlar1 Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

Einu sinni voru börn bólusett til að vernda þau gegn sjúkdómum, en nú af skriffinskulegum ástæðum.

Mér þykir merkilegt hvað Ísland fer allt aðra leið en önnur Norðurlönd þegar kemur að bólusetningu barna við kórónuveirunni. Ísland var eina Norðurlandið sem beinlínis hvatti til bólusetningar 5-11 ára barna á þeim (fölsku) forsendum að börnunum stafaði hætta af veirunni og bólusetningin myndi vernda þau frá þessari hættu.

Norðmenn, Svíar og Finnar buðu upp á bólusetningu þessa hóps, en mæltu ekki sérstaklega með aðgerðinni nema börnin væru með tiltekna undirliggjandi sjúkdóma. Danir hvöttu til bólusetningar barna, ekki vegna þess að þeir teldu að börnunum stafaði sérstök hætta af veirunni, heldur í von um að draga úr smiti í samfélaginu.

Um næstu mánaðarmót mun Danmörk hætta að bjóða börnum undir 18 ára aldri bólusetningu við kórónuveirunni. Íslensk heilbrigðisyfirvöld sjá enn ekki ástæðu til þess að taka þetta bóluefni af boðstólnum. Ástæðan er meðal annars sú að börn geti haft gagn af bólusetningu af skriffinskulegum ástæðum samkvæmt frétt á mbl.is.

Á vefsíðu danska heilbrigðiseftirlitsins segir  n.t.t. að börn og ungmenni veikist mjög sjaldan alvarlega af Covid-19 með omikron afbrigðinu. Frá 1. júlí 2022 verður því ekki lengur hægt fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára að fá fyrstu sprautuna og frá 1. september 2022 verður ekki lengur hægt að fá annan skammtinn. Börn sem teljast í áhættuhópi munu eiga þess kost að fá undanþágu samkvæmt læknisráði.

Mér hefði þótt eðlilegra að íslensk stjórnvöld myndu beita sér gegn notkun bólusetningavottorða á landamærum (allavega fyrir börn), ef þau teldu að læknisfræðileg rök ein og sér væru ekki nógu sterk til að réttlæta bólusetningu barna við þessari tilteknu veiru. Hvað finnst þér?

One Comment on “Landlæknisembættið vill sprauta börnin af skriffinskulegum ástæðum”

Skildu eftir skilaboð