Breytingar í orkunni

frettinGuðrún Bergmann, PistlarLeave a Comment

Guðrún Bergmann skrifar:

Ég hef mikinn áhuga á stjörnuspeki og hef nýtt mér þá þekkingu sem henni fylgir allt frá því að ég fór fyrst á námskeið hjá Gunnlaugi Guðmundssyni stjörnuspekingi árið 1985. Fyrir mér opnaðist nýr heimur þegar ég fór að læra um pláneturnar og hvaða áhrif afstöður þeirra gætu haft á líf mitt.

Undanfarið hef ég fylgst reglulega með nokkrum erlendum stjörnuspekingum og hlustað á skýringar þeirra sem ég nýti mér alltaf sem nokkurs konar veðurspá fyrir það hvers er að vænta orkulega séð. Ein af þeim sem ég hlustaði nýlega á er breski stjörnuspekingurinn Bracha Goldsmith. Greinin er byggði í kringum nokkra punkta sem komu fram hjá henni.

ÚR STÖÐUGRI YFIR Í BREYTILEGA ORKU

Það sem kemur til með að gerast á næstunni er að nokkrar mikilvægar plánetur fara úr stöðugum stjörnumerkjum yfir í breytileg. Það þýðir að tíðni þeirra verður breytileg, en undir breytilegu stjörnumerkin falla Bogmaður, Fiskar, Tvíburar og Meyjan.

Þessi umbreyting í orkunni, ásamt orkunni frá Ofurtunglinu sem varð þann 12. ágúst síðastliðinn, kemur til með að hafa mikil áhrif og því er gott að vera meðvitaður um hana. Með þeirri vitneskju getum við betur undirbúið okkur fyrir það sem framundan er.

MEYJAN OG TVÍBURARNIR

Merkúr er þegar kominn inn í Meyjuna og verður þar til 25. ágúst. Meyjan er annað af tveimur heimamerkjum Merkúrs. Í raun er hvergi betra fyrir Merkúr að vera en í Meyjunni. Merkúr stjórnar hugsunum okkar, hugmyndum okkar og því hvernig við vinnum úr upplýsingum. Að auki stjórnar Merkúr því hvernig við tjáum okkur við aðra.

Þann 20. ágúst fer Mars inn í Tvíburann og verður þar næstu sjö mánuði eða til 25. mars 2023. Það er óvanalega langur tími en Mars kemur til með að örva alla Meyjarorkuna og styrkja okkur í leitinni inn á við.

SÓLIN Í MEYJU

Þann 23. ágúst fer Sólin svo inn í Meyjuna, en hún er táknræn fyrir sjálfið. Í Meyjunni hjálpar Sólin okkur að líta inn á við og meta hvað það er sem við þurfum ekki lengur á að halda í lífi okkar, hvort sem það er bíllinn, húsið, starfið, sambandið (hjónabandið) sem við erum í eða annað stórt eða smátt. Framundan er því frábær tiltektartími.

Meyjan hvetur okkur til að spyrja spurninga eins og: „Þarf ég virkilega á þessu að halda?“ Hún hvetur okkur til að skoða smáatriðin í lífi okkar, taka til í því og losa okkur við það sem við þurfum ekki lengur á að halda.

Meyjan er Jarðarmerki og jarðarorkan hennar tengist líkama okkar og stjórnar smáþörmunum. Þaðan eru fæðuagnir og næringarefni send út um allan líkamann. Því skiptir máli að hafa smáþarmana í lagi en hjá mörgum eru þeir lekir. Það má bæta með afeitrun eða HREINSUN og þetta er einn besti tími ársins til þess að hreinsa meltingarveginn og önnur líffæri líkamans.

ÞRÓUN UPP Á HÆRRA TILVERUSTIG

Meyjan hvetur okkur til að líta inn á við og stunda sjálfsrækt og sýna sjálfum sér kærleika. Líka til að hækka tíðni okkar eins mikið og við mögulega getum, með ýmis konar innri vinnu og jákvæðum hugsunum eins og þakklæti, gleði, kærleika og umhyggjusemi.

Merkúr í Meyju hvetur okkur til að koma skipulagi á hugsanir okkar. Mars í Tvíburamerkinu hefur líka örvandi áhrif á hugsun okkar, því Tvíburinn er tengdur huga okkar og tjáskiptum. Tíðnin í Tvíburanum getur stundum verið tvístruð og leitt til spjalls um allt og ekkert, svo það þarf að stjórna orku hans vel.

Með allri þessari orku erum við að uppfæra huga okkar og læra að við sköpum með hugsunum okkar. Spurningin sem við ættum alltaf að hafa í huga er: „Er ég við stjórnvölinn í eigin huga – eða er hugurinn að stjórna mér?“

Treysti því að þessar upplýsingar um orkuna sem framundan er hjálpi þér að takast á við hana á jákvæðan og uppbyggjandi máta.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum!

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, stjörnuspeki, andleg mál og leiðir til að bæta heilsuna á náttúrulegan máta.

Myndir: CanStockPhoto / Jelen 80 / castaldostudio

Skildu eftir skilaboð