Eftir Pál Vilhjálmsson blaðamann og kennara:
Fréttirnar eiga erindi til almennings, sögðu ritstjórar Kjarnans og Stundarinnar um samræmdan fréttaflutning sem birtist samtímis 21. maí á liðnu ári, þar sem „Skæruliðadeild Samherja“ kom fyrir í báðum fyrirsögnum. Fréttirnar eru einkum um tvo starfsmenn Samherja sem töluðu sín á milli um viðbrögð við fréttahrinu RÚV, Stundarinnar og Kjarnans (RSK-miðla) er hófst í nóvember 2019 með Kveiksþætti á RÚV um Namibíuúrgerð Samherja.
Fréttir Kjarnans og Stundarinnar 21. maí í fyrra komu allar úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Ekkert var ólöglegt var þar að finna. Þarna voru tveir starfsmenn að spjalla sín á milli, stundum komu fleiri við sögu, um málefni fyrirtækisins. Samtölin voru einkamál og ekkert í þeim fór í bága við lög.
Síma Páls skipstjóra var stolið 4. maí á síðasta ári eftir að eitrað var fyrir honum. Það er líkamsárás í skilningi laga. Einkaefni, svo sem ástarfundur Páls við jafnöldru sína, er hafði ekkert með Samherja að gera, var sent á milli manna. Það kallast stafrænt kynferðisofbeldi. Það átti að jarða skipstjórann, ef ekki bókstaflega þá í óeiginlegum skilningi. Hann hafði vogað sér að andmæla fréttaflutningi hákirkjunnar á Efstaleiti.
Lögreglurannsókn hófst 14. maí er Páll kærði byrlun og símastuld til lögreglu - viku áður en Kjarninn og Stundin birtu fréttirnar. Þann 14. febrúar í vetur var upplýst að a.m.k. fjórir blaðamenn RSK-miðla væru sakborningar. Þeir lögðu á flótta undan réttvísinni, mættu ekki í boðaða skýrslutöku hjá lögreglu fyrr en hálfu ári síðar, í lok liðinnar viku. Síðan ríkir fréttabann.
Sakborningar svara ekki í síma, útvarpsstjóri er á tali. Fjölmiðlar þegja. Það er ekki frétt, segja talsmenn RSK-miðla, að blaðamenn eigi aðild að líkamsárás, gagnastuldi og stafrænu kynferðisofbeldi.
Skæruliðadeild Samherja er frétt, hryðjuverkasveit RSK-miðla er ekki frétt.