Fortíðin liðin – framtíðin óráðin

frettinPistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Hér snúa forvarnir einkum að ótta við náttúruhamfarir. Við látum aðra hins vegar um að veita okkur vernd gegn ytri átroðningi. Lögreglu er bannað að rannsaka mál án gruns um að lögbrot hafi verið framið.

Mikið af fréttum sem okkur eru fluttar snúast um eitthvað sem kunni að gerast. Frá óvæntum atburði sem veldur okkur undrun, vanlíðan eða sorg er gjarnan sagt með votti af sektarkennd. Látið er eins og menn hefðu getað sagt fyrir að slys yrði.

Frá árinu 1945 hefur ríkt ótti við að enn öflugri kjarnorkusprengju verði varpað en þeim sem bundu enda á aðra heimsstyrjöldina. Í kalda stríðinu varð til hugtakið ógnarjafnvægi til að lýsa því að ekki kæmi til átaka milli austurs og vesturs því að allir mundu tapa að lokum. Fælingarmáttur kjarnorkuvopna var skýr og ótvíræður.

Í samtímanum ríkir óvissa varðandi beitingu kjarnavopna. Henni er hótað af Kremlverjum sem eftir innrás í Úkraínu hafa tekið stærsta kjarnorkuver Evrópu í gíslingu og nýta það sem vopnabúr og til kúgunar. Bregðast í engu við tilmælum alþjóðlegra eftirlitsaðila um að sleppa taki af þessu herfangi sínu.

Minningin um hörmungarnar vegna kjarnorkuslyssins í Tsjernóbíl norðar í Úkraínu lifir. Hræðslan um áhrif slyssins varð í raun magnaðri en skaðinn vegna þess, þótt hann væri gífurlegur.

Fyrir hálfri öld taldi sumt ungt fólk ástæðulaust að búa sig undir framtíðina, hún yrði hvort sem er engin vegna kjarnorkuvopnakapphlaupsins. Því hlyti að ljúka með gjöreyðingu.

Nú hefur óttinn við afleiðingar loftslagsbreytinga tekið við af kjarnorkuóttanum. Þó er sá munur að einhver verður að ákveða að ýta á kjarnorkuhnappinn en í loftslagsmálum er fortíðin talin ráða mestu um framtíðina. Manninum er ætlað að haga sér í samræmi við framtíðarlíkön reist á fortíðinni.

Árið 2015 ákváðu leiðtogar landa heims á fundi í París að taka mark á þessu líkani og mótuðu stefnu, Parísarsamkomulagið, um að hitastig jarðar fari ekki umfram ákveðið mark. Samkomulagið segir að framtíðin sé ekki óráðin í loftslagsmálum, það megi ná tökum á henni. Þetta er einstök tilraun,

Niðurstaða hennar kemur í ljós. Í sumar var spáð hruni íslenskrar sauðfjárræktar. Í Morgunblaðinu í dag (23. ágúst) segir á forsíðu að þetta hrun verði ekki. Ferðamenn hafi borðað svo mikið af lambakjöti að sauðkindinni sé borgið. Trúði því einhver að sauðkindin hyrfi af íslenskum heiðum? Hún er annað og meira en búfé, hún er hluti þjóðmenningarinnar og verður við haldið svo lengi sem menn búa hér. Sama gildir um smábátaútgerð sem sífellt er sögð í lífshættu.

Fyrir nokkrum dögum var því spáð að hraun mundi renna yfir Suðurstrandarveg og spurt hvort gera þyrfti varnargarða til að verja Reykjanesbraut. Nú snýst umræðan um hvort gosinu sé „formlega“ lokið eða ekki.

Hugleiðsluráðið um að halda sig í nú-inu vegna þess að fortíðin er liðin og fortíðin óráðin er í einu orði sagt frábært. Það mætti setja meiri svip á fréttir sem okkur eru fluttar.

Skildu eftir skilaboð