Páll Vilhjálmsson kennari og blaðamaður skrifar:
Aðalsteinn Kjartansson sagðist hættur á RÚV föstudaginn 30. apríl í fyrra. Hann gefur loðin svör í viðtali fyrir hádegi starfslokadaginn. Ritstjórn Stundarinnar gefur út tilkynningu eftir hádegi þennan sama föstudag um að Aðalsteinn sé munstraður á Stundina.
Svolítið furðulegt. Blaðamaðurinn hætti ekki á RÚV nema að nafninu til. Fjórum dögum eftir að Aðalsteinn lét alla og ömmur þeirra vita að hann væri kominn á Stundina var síma Páls Steingrímssonar skipstjóra stolið. Þá sömu viku er Aðalsteinn mættur á Efstaleiti, þar sem síminn var afritaður. Öryggismyndavélar staðfesta það, sem og vitni. Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir.
Tvær aðferðir eru helst notaðar við símaafritun. Ein er að hlaða gögnunum niður í tölvu. Önnur að klóna símann. RSK-miðlar (RÚV, Stundin, Kjarninn) notuðu seinni aðferðina. Keyptur var sími sem afritaði síma Páls með sérstöku forriti. Til að það sé hægt þarf nálægð símtækjanna að vera minni en 4 cm. Eftir afritun var síma Páls skilað á sjúkrabeð hans á Landspítala, gjörgæslu.
Til að vinna úr gögnum í síma Páls urðu blaðamenn annað tveggja að hafa klónaútgáfuna í höndunum eða senda sín á milli gögnin. Í báðum tilfellum skráði klónaða tækið athafnir blaðamannanna.
Blaðamenn RSK-miðla tóku sér góðan tíma að vinna úr gögnunum. Þeir klónuðu síma Páls 4. maí en fréttir byggðar á gögnunum birtust ekki fyrr en 17 dögum síðar, 21. maí.
Töfin skýrist af því að Pál skipstjóra átti ekki að gruna að gögnin væru frá honum komin annars vegar og hins vegar að staðsetningarbúnaður símtækja uppfærist á 14 daga fresti. Eftir 17 daga töldu blaðamenn RSK-miðla öllu óhætt.
Páll skipstjóri komst til meðvitundar 6. maí. Fljótlega áttaði hann sig á að ekki var allt með felldu. Á meðan hann var meðvitundarlaus var reynt að komast inn á heimabanka hans og Facebook-reikning. Hann slökkti á símtækinu, til að upplýsingar um staðsetningu eyddust ekki.
Þann 14. maí í fyrra, viku áður en nokkur frétt birtist, kærði Páll byrlun og gagnastuld til lögreglu. Hann afhenti lögreglu símtæki sitt. Lögreglan gat flett upp á öllum símum sem voru í nágrenni snjallsíma Páls á meðan tækið var á Efstaleiti.
Þegar símtæki er klónað, eins og lýst er að ofan, eru öll gögn afrituð. Þar með talin staðsetningarforrit. Það verða til tvö eintök af sama símanum. Í gegnum síma Páls gat lögreglan fylgst með öllum ferðum klónaða símtækisins, þ.m.t. hvaða símar voru nálægir hverju sinni. Svæsnar aðgerðir, t.d. tilraun til að brjótast inn í heimabanka Páls, eru skráðar í báða símana. Hvers vegna reyndu blaðamennirnir að komast inn á Facebook-síðu Páls, ítrekað?
Lögreglan býr að ógrynni upplýsinga um atferli brotafólksins. Lögreglan veit t.d., sbr. greinargerð 23. febrúar, að blaðamenn dreifðu sín á milli persónulegu myndskeiði skipstjórans. Án þess að það komi fram í greinargerð var tilgangurinn líklega að smána og niðurlægja skipstjórann með því að leka myndskeiðinu. Það átti að terrorisera Pál til að hann drægi tilbaka kæruna frá 14. maí.
Aðalsteinn er skrifaður fyrir frétt Stundarinnar 21. maí. Þórður Snær og Arnar Þór eru skráðir höfundar fréttar Kjarnans sama dag. En báðar fréttirnar voru skrifaðar, að mestu eða öllu leyti, í höfuðstöðvum RÚV á Glæpaleiti, afsakið, Efstaleiti. Myndskreytingar á fréttum beggja fjölmiðla eru skjáskot úr klónuðu símtæki Páls.
RSK-sakamálið er ekki frétt samkvæmt íslenskum fjölmiðlum. Það er ekki frétt að blaðamenn á þremur fjölmiðlum, þ.m.t. ríkisfjölmiðli, eru sakborningar í máli er varðar tilraun til manndráps með byrlun, stafrænt kynferðisofbeldi, friðhelgisbrot og gagnastuld. Hver ætli sé skilgreining íslenskra fjölmiðla á frétt?