Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 24.08.2022
Ríkisstofnanir hafa komið sér upp leiguhúsnæði sem rúmar á fimmta hundrað einstaklinga á flótta, í Ásbrúarhverfi, umfram þá um 270 sem sveitarfélagið þjónustar.
Reykjanesbær hefur ítrekað undanfarin ár neitað að taka við fleiri flóttamönnum en Útlendingastofnun og nú Vinnumálastofnun sem hefur tekið við málaflokknum, hafa ýtt sterklega á sveitarfélagið á að taka við fleiri einstaklingum og stækka samning um málið milli ríkis og Reykjanesbæjar.
Meirihluti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sendi frá sér grein eftir bæjarstjórnarfund í gær þar sem fram kemur að ríkisstofnanir hafa komið sér upp leiguhúsnæði sem rúmar á fimmta hundrað einstaklinga á flótta, í Ásbrúarhverfi, umfram þá um 270 sem sveitarfélagið þjónustar. „Það er algjörlega ótækt að samráð ríkis og sveitarfélags sé ekki betra og að ekki séu tekin til greina málefnaleg rök sem borist hafa frá Reykjanesbæ,“ segir í greininni sem sjá má hér að neðan.
Velferðarráð Reykjanesbæjar fjallaði um málið á fundi sínum í síðustu viku og greindi þar frá að sveitarfélagið geti ekki tekið við fleira flóttafólki og hvetur önnur sveitarfélög að taka þátt í verkefninu, að hýsa flóttamenn. Undir hana skrifuðu allir nefndarmenn ráðsins og sjá má hér að neðan.
Samband Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar við Reykjanesbæ
„Reykjanesbær hefur um árabil verið með samning um móttöku einstaklinga í leit að alþjóðlegri vernd. Þessu höfum við sinnt af kostgæfni og alúð enda samfélagslega mikilvægt verkefni. Við höfum leitast við að tryggja dreifða búsetu í sveitarfélaginu og reynt eftir bestu getu að hlúa að aðlögun fólks á flótta í samfélaginu. Reykjavík og Hafnarfjörður eru einnig með slíkan samning en fleiri sveitarfélög hafa ekki verið tilbúin að taka á móti einstaklingum í leit að vernd.
Auk þessa verkefnis hefur Reykjanesbær ásamt Akureyri, Árborg, Hafnarfirði og Reykjavík tekið við stórum hóp flóttafólks í gegnum samræmda móttöku flóttafólks.
Að okkar mati erum við að sinna okkar samfélagslegu skyldum og það viljum við gera almennilega. Þrátt fyrir það hefur Útlendingastofnun (sem fór með málaflokkinn þar til nýlega) og nú Vinnumálastofnun ýtt sterklega á sveitarfélagið á að taka við fleiri einstaklingum og stækka samninginn. Þessu höfum við ítrekað neitað undanfarin ár með eftirfarandi rökum:
- Við erum þegar að sinna umræddu verkefni og erum með samninga sem teljast vera stórir fyrir tæplega 22.000 manna sveitarfélag.
- Með auknum fjölda flóttafólks þykir okkur eðlilegt að aukið fjármagn fylgi einnig til styrktar grunnstoðum og innviðum sem eru komin að þolmörkum líkt og til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fyrir sálfræðiþjónustu, til ráðningar á starfsfólki í leik- og grunnskóla, í löggæslu og sjúkraflutninga. Slíkt hefur ekki fylgt en reynslan sýnir að slík þjónusta er grundvöllur þess að vel takist.
- Ekki er talið ásættanlegt að ríkisstofnun hafi á leigu húsnæði í einu og sama hverfinu þar sem mörg hundruð einstaklingar eru búsettir sem ekki eru í þjónustu sveitarfélagsins heldur er þjónustan á vegum ríkisins.
Þar sem fjármagn til grunnstoða samfélagsins fylgir ekki skiljum við ekki af hverju umræddar ríkisstofnanir hafa, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um annað, komið sér upp leiguhúsnæði sem rúmar á fimmta hundrað einstaklinga á flótta í Ásbrúarhverfi umfram þá um 270 sem sveitarfélagið þjónustar. Það er algjörlega ótækt að samráð ríkis og sveitarfélags sé ekki betra og að ekki séu tekin til greina málefnaleg rök sem borist hafa frá Reykjanesbæ.
Lykillinn að áframhaldandi farsælu starfi í þessum málaflokki felst í vönduðum og vel ígrunduðum vinnubrögðum öllum til heilla. Þessi vinnubrögð eru algerlega forkastanleg og benda ekki til mikils samstarfsvilja né virðingar gagnvart íbúum og ekki síst þeim sem hingað leita skjóls.
Í okkar huga er aðeins ein lausn í málinu sem við höfum rætt margsinnis áður. Hún er að reglugerð verði lögð fram um að sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu taki við ákveðnum fjölda einstaklinga miðað við íbúafjölda hvers þeirra. Ljóst er að þetta gengur ekki lengur með núverandi skipulagi.“
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Á bæjarstjórnarfundinum var fundargerð Velferðarráðs Reykjanesbæjar samþykkt:
„Velferðarráð leggur áherslu á að Reykjanesbær hefur staðið sig gríðarlega vel í móttöku flóttafólks undanfarin ár. Sveitarfélagið hefur tekið á móti flóttafólki og einstaklingum sem bíða eftir alþjóðlegri vernd síðan árið 2003. Einnig bættist við samningur um samræmda móttöku flóttafólks árið 2021.
Samfélagið okkar hefur margt gott upp á að bjóða. Við eigum metnaðarfulla leik- og grunnskóla og öflugt starfsfólk. Náungakærleikurinn er okkur dýrmætur og við viljum ala börnin okkar upp við öryggi ásamt því að tryggja að íbúum okkar líði sem allra best og aðlagist samfélaginu okkar burtséð frá því hver uppruni fólks er. Við erum fjölmenningarsamfélag og hreykjum okkur af því.
Einstaklingar sem flýja stríð og óöryggi í heimalandi sínu eru augljóslega að leita að betra lífi fyrir sig og sína fjölskyldu og ættu ávallt að vera velkomin til okkar. En að sama skapi er fyllilega ljóst að Reykjanesbær auk fárra annarra sveitarfélaga geta ekki borið uppi móttöku fyrir alla þá sem til landsins koma. Fleiri sveitarfélög verða að taka þátt í verkefninu og vera jákvæðari í að sinna þessu mikilvæga og metnaðarfulla starfi sem samræmd móttaka flóttafólks er.
Þegar litið er til fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið er með í Reykjanesbæ eru samtals 443 einstaklingar með aðstöðu á Ásbrú. Þetta þýðir að þeir einstaklingar sem eru búsettir í þessum úrræðum við leyfisveitingu verða skráðir með lögheimili í Reykjanesbæ og er þá sjálfkrafa vísað til félagsþjónustu sveitarfélagsins við veitingu verndar. Það gefur augaleið að innviðir okkar líkt og félagsþjónusta sveitarfélagsins, heilbrigðisþjónustan, löggæsla, leikskólar og grunnskólar, ráða ekki við allan þennan fjölda fólks sem þarna kemur í fangið á okkur.
Úrræði sem þessi auk móttökustöðva eru einungis staðsett í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Hafnarfirði og Reykjavík. Alls eru um 1.000 einstaklingar í móttökuúrræðum ríkisins að sækja um vernd en helmingur þeirra er á Suðurnesjum.
Íbúar á Suðurnesjum öllum telja um 8% af íbúum landsins og er eitt stærsta vaxtarsvæði landsins. Íbúum Reykjanesbæjar hefur til að mynda fjölgað um 7,7% á undanförnum 12 mánuðum. Þrátt fyrir að Reykjanesbær sé nú þegar með samning um móttöku fólks á flótta auk samnings um samræmda móttöku flóttafólks eru ráðuneytið og Vinnumálastofnun enn að bæta í með því að taka á leigu húsnæði í sveitarfélaginu. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur komið alls 50% af þeim sem þurfa móttökuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrir á Suðurnesjunum. Þessum úrræðum verður ráðuneytið að dreifa víðar. Innviðir Reykjanesbæjar geta ekki tekið við fleira fólki og biðlum við því til Vinnumálastofnunar að leita til annarra sveitarfélaga og að önnur sveitarfélög taki þátt í móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.“
Undir bókunina rituðu:
Sigurrós Antonsdóttir
Birna Ósk Óskarsdóttir
Andri Fannar Freysson
Rannveig Erla Guðlaugsdóttir
Eyjólfur Gíslason.
One Comment on “Reykjanesbær kvartar undan ríkisstofnunum vegna flóttafólks”
Ísland er þriðjaheims land og ræður alls ekki við að taka á móti einhverju magni af flóttamönnum. Hvaða lönd í Evrópu eru ekki með her, geta ekki tvöfaldað hringvegi/aðalvegi (varla haldið þeim þeim vegaslóða sem fyrir er í lagi), eiga ekki millilanda skip, eru hvorki með neðanjarðar lestar/subways né sporvagna né lestasamgöngur, eru með ónýtt heilbrigðiskerfi, í hvaða löndum í Evrópu situr dæmdur morðingi inni í 10 ár fyrir morð, ísland er alltaf í einu af 3 dýrustu löndum evrópu en önnur lönd sem eru dýr eins og Sviss og Noregur eru með mjög góða innviði en ísland er alls ekki með góða innviði., Ergo ísland fellur í flokk sem þriðjaheims land.