Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV mætti ekki í yfirheyrslu lögreglunnar vegna RSK-sakamálsins. Þóra er einn af fjórum þekktum sakborningum sem RÚV upplýsti 14. febrúar að væru grunaðir um aðild að líkamsárás með byrlun, stafrænu kynferðisofbeldi, gagnastuldi og brot á friðhelgi einkalífs.
Brotaþoli er Páll skipstjóri Steingrímsson en honum var byrluð ólyfjan 3. maí í fyrra. Vitað er að brotaþolar eru fleiri, en ekki hverjir.
Þrír sakborningar, sem vitað er um, Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum og Aðalsteinn á Stundinni, munu hafa gefið sig fram við lögreglu í byrjun ágúst. Þóra kom til landsins 11. ágúst og var boðuð til skýrslutöku daginn eftir. Hún mætti ekki. Allt frá fyrstu boðun skiptust blaðamenn RSK-miðla á að vera erlendis til að tefja framgang rannsóknar. Talið var að í byrjun ágúst hafi sakborningar sammælst um að hætta undanbrögðum. Þóra virðist á öðru máli.
Eftir yfirheyrslur þremenningana var Páli skipstjóra skipaður réttargæslumaður. Það felur í sér það mat lögreglu að hann hafi orðið fyrir alvarlegum brotum og eigi rétt á skaða- og miskabótum frá gerendum.
Eftir að Páli var byrlað var síma hans stolið og hann afritaður í höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. Gögn úr símanum birtust sem fréttir í Kjarnanum og Stundinni 21. maí á liðnu ári. Engin frétt birtist á RÚV, sem var miðstöð skipulagningar og framkvæmdar aðgerða.
Páll kærði byrlun og stuld 14. maí 2021. Lögreglan safnaði gögnum sl. sumar og haust, m.a. með staðsetningarbúnaði síma Páls og hlerunum. Yfirheyrslur hófust í byrjun október.
Fyrstu viðbrögð Þóru, eftir að henni var tilkynnt að hún væri sakborningur um miðjan febrúar, voru að hún ætlaði að mæta á lögreglustöð samkvæmt boðun. „Svo mæti ég bara sallaróleg í þessa skýrslutöku,“ sagði Þóra í viðtali við DV.
En þegar alvara málsins rann upp fyrir Þóru og félögum kom annað hljóð í strokkinn. Í vetur og vor reyndu bæði Aðalsteinn og Þóra að tefja málið með kærum til dómstóla. Þau voru gerð afturreka í landsrétti og hæstarétti. Hvorki Aðalsteinn né Þóra svara í síma. Fjölmiðlar láta það gott heita og birta ekki fréttir af framvindu málsins. Þegjandi samkomulag er á milli blaðamanna og fjölmiðla að segja sem minnst, og helst alls ekkert, um afbrot blaðamanna.
Alvarlegustu brotin gegn Páli skipstjóra eru líkamsárás með byrlun annars vegar og hins vegar stafrænt kynferðisofbeldi. Vitað er hver byrlaði Páli og stal síma hans, það var veik kona, nákomin Páli. Konan var verkfæri blaðamannanna sem hugsuðu skipstjóranum þegjandi þörfina fyrir að hafa andmælt fréttum RSK-miðla um Samherja, en það er atvinnuveitandi Páls.
Einn eða fleiri sakborningar dreifðu persónulegu myndskeiði af Páli og jafnöldru hans. Myndskeiðið var í síma Páls sem var afritaður á Efstaleiti. Samkvæmt lögum eru slík brot stafrænt kynferðisofbeldi.
Á meðan Þóra lætur ekki sjá sig í skýrslutöku lögreglu tefst málið. Venja er að sakborningar í sakamálarannsókn eru tvisvar boðaðir í yfirheyrslu, fer þó eftir eðli mála. Ef þeir sinna ekki boðun í tvígang er til í dæminu að gefa út handtökutilskipun og sakborningur sóttur af lögreglu. Þóra var boðuð í yfirherslu í febrúar og aftur í ágúst. Í þriðja sinn gæti hún mætt á lögreglustöðina með meiri fylgd en lögmanns.
2 Comments on “Þóra mætti ekki í lögregluyfirheyrslu”
Ertu ekki til í að gefa okkur smá frí frá þessu endalausa jórtri á ekkifréttinni um síma sem fyrrverandi kona Páls skipstjóra stal og kom til fjölmiðla.
Kannski að Fréttin.is þori að skrifa um eitthvað af glæpum Samherja, af nógu er að taka, þar má nefna mútumálið fræga eða skattasvindl þeirra í Færeyjum.
Það er orðið neyðarlega augljóst að það verið að heilaþvo lesendur með daglegum pistlum um þessa ekkifrétt.
Vísindamenn segja að það sé nauðsynlegt að fólk hlýði tilmælum lögreglu.