Guðrún Bergmann skrifar:
Fyrstu vikuna í september standa erlend samtök sem eru með vefsíðuna www.kicksugarsummit.com fyrir ráðstefnu á netinu, þar sem yfir 60 einstaklingar flytja erindi. Þeir sem skrá sig til að hlusta á þá fá senda 8 fyrirlestra á dag – eða þeir geta keypt alla fyrirlestrana og hlustað að vild þegar það hentar.
Í tilefni af því ætla ég að fjalla um sykur og áhrif hans á heilsuna í nokkrum greinum næstu vikurnar. Ég byrja á því að birta hér örlítið endurbættan kafla úr bók minni GERÐU ÞAÐ BARA, sem kom út árið 2002 en þar fjallaði ég um áhrif sykurs á heilsuna.
Ég kalla sykurinn í fyrirsögninni falið fíkniefni, bæði vegna þess að almennt vill fólk ekki líta á hann sem fíkniefni, en líka vegna þess sem hann er falinn í svo mörgum matvörum, í mun meira magni en við gerum okkur grein fyrir.
HVÍTUR EINS OG SNJÓR
Hann lítur ósköp sakleysislega út! Hvítur eins og snjór, þar sem hann er í sykurkarinu eða í poka uppi í hillu, en sums staðar er talað um hann sem jafnskaðlegan og önnur efni sem einnig hafa viðurnefnið snjór, þ.e. heróín og kókaín.
Það hættulega við sykur er að við gerum okkur ekki grein fyrir því að hann sé hættulegur. Á pakkningum utan um hann eru engin viðvörunarmerki eins og á sígarettupökkum, sem þeir sem reykja líta reyndar framhjá.
Hann er líka víða falinn í matvælum undir dulnefnum eins og: sucrose, dextrine, maltose, corn sugar, corn sweetener, honey, cane syrup, beet sugar, dextrose, fructose, invert sugar, corn syrup, natural sweetener, molasses, galactose og maple syrup, svo það er þess virði að lesa innihaldslýsingu matvæla ef þú vilt forðast sykur.
FÍNUNNIN VARA
Venjulegur hvítur sykrur er 99,9% hreint kolvetni. Það þýðir að úr honum er búið að hreinsa öll næringar- og steinefni. Þegar svo fínunnin vara kemst í snertingu við meltingarkerfi líkamans hefur hún sértæk áhrif sem veita í fyrstu smá vellíðan og jafnvel deyfa fólk, en með viðvarandi neyslu getur sykur haft veruleg áhrif á geðheilbrigði fólks auk almenns heilsufarsástands, aukið líkamsþyngd og leitt til sykursýkis týpu II.
Í nýlegri rannsókn (ath. þetta er fyrst skrifað 2002) sem gerð var hér á landi var komist að þeirri niðurstöðu að offitu barna mætti rekja til hreyfingarleysis.
Þrátt fyrir þá niðurstöðu er ég þeirrar skoðunar að offitu barna megi fyrst og fremst rekja til of mikillar sykurneyslu, sem meðal annars leiðir til deyfðar sem veldur því að þau hvorki nenna né hafa líkamlega krafta til að hreyfa sig.
VERÐ AÐ FÁ EITTHVAÐ!
Algengt mynstur hjá mörgum er að borða til að líða betur eða fylla í eitthvað innra tilfinningalegt tómarúm. Flestir þeir sem háðir eru sykri kannast við setninguna: “Mig langar svo í eitthvað!”
Þetta eitthvað er vanalega sykurtengt eins og gosdrykkur, súkkulaði eða annað sælgæti. Stundum er líka sagt: “Það er ekkert til hérna!” og þotið út í búð á ólíklegustu tímum sólarhrings til að kaupa eitthvað, sem þá í flestum tilvikum er sælgæti.
Margir sem haldnir eru sykurfíkn borða sælgæti þegar þeir eru einir á ferð í bílnum. Mér koma oft í huga orð vinar míns sem sagði: „Ég hætti að borða sælgæti þegar ég fattaði að ég stoppaði oftar á bensínstöðvum til að fylla á mig en bílinn.“ Bíllinn er einmitt ágætis felustaður fyrir sykurneyslu, því þá sér enginn hversu mikið magn er borðað.
Þannig leitast sá sem haldinn er sykurfíkn við að fela fíkn sína, á sama hátt og þeir sem haldnir eru annarri fíkn. Eins er vinsælt að borða sælgæti þegar verið er að vinna eða horfa á sjónvarpið. Í síðara tilvikinu eru ljósin oft deyfð og neytandinn með athyglina á öðru en hann er að borða og því síður meðvitaður um það magn sem hann neytir.
One Comment on “Sykur – hið falda fíkniefni”
Furðulekt hvað sumir vakna seint, var á fyrirlestri fyrir ca 30 árum síðan þar sem læknir sýndi hvaða áhrif sykurinn hafði á heilann, á þeim tíma vann ég við eiturlyfja forvarnir, hreynsaður sykur (refined sugar) er stórhættulegur