„Neytendaverndin“ er ekki fyrir neytendur -
Sumir menn hafa óbilandi trú á mætti „samkeppninnar.“ Þeir telja lífið eitt samfellt kapphlaup frá vöggu til grafar – um það hver kemur fyrstur í mark. Það vantar einungis að skilgreina staðsetninguna á endamarkinu. Hlaupið fer þannig fram að þeir sem hlaupa hraðast eiga að koma sér burt af brautinni, til þess að rýma fyrir hinum sem vilja fá að hlaupa líka og yfirtaka síðan hlaupabrautina. Bestu hlaupararnir eiga að draga sig í hlé [enda ekki hægt að keppa við þá]. Almenningi er ætlað að verðlauna skussana ríkulega. Í nafni „samkeppninnar“ ber að veita skussunum algeran forgang og lofa þeim að keppa innbyrðis.
Þannig birtist t.d. „samkeppni“ á raforkumarkaði. Nýjasta dæmið er útboð á vegum Reykjavíkurborgar þar sem N1 er sagt hafa boðið best í rafmagn handa borginni. N1 er dæmigerður milliliður sem troðið er á milli framleiðenda og notenda, jafnvel í óþökk beggja. Sumir ganga svo langt að segja það “...almennt viðurkennt um allan heim að opið markaðskerfi sé betra en að verðin séu ákveðin af embættismönnum í lokuðu umhverfi.“ (Skúli Jóhannsson í athugasemdakerfi orkunnar okkar).
Þetta kallar á athugun. Þarna gefa menn sér að ef „samkeppni“ getur virkað á einhverjum sviðum hljóti hún að gera það á raforkumarkaði líka. Þó er alls ekki hægt að gefa sér það. Samkeppni á raforkumarkaði er tilraunstarfsemi [notendur eru „tilraunadýrin“].
Steve Thomas, prófessor í orkustefnu, við Háskólann í Greenwich, segir um þetta: „ESB líkanið byggir á heildsöluvörumarkaði til þess að ákvarða verð, lágmarka aðgangshindranir og gefa fjárfestingarmerki [investment signals]. Það eru engar vísbendingar nokkurs staðar í heiminum um að þessi tilraun muni takast.“[i]
[Trúin á „markaðsverð“]
Fákeppnina á fullu sérð,
farðu að spinna ull.
Mikil trú á markaðsverð,
malar þjófum gull.
Þegar rafmagnsverð á Íslandi hefur náð „heimsmeti“ [sem oft er miðað innanlands] verður nóg að gera fyrir prjónakonur og prjónastofur landsins, enda stendur valið þá orðið um það að klæðast góðum lopafatnaði eða drepast úr kulda. Það er kallað orkufátækt þegar fólk hefur ekki lengur efni á því að kynda húsnæði sitt. Þökk sé íslenskum stjórnmálamönnum sem innleiddu orkustefnu ESB, með þeim afleiðingum að fólk festist í viðjum orkubraskara og snjallmæla. Með vaxandi orkufátækt kemur sér vel fyrir seljendur að geta klippt á notendur, úr fjarlægð með snjallmæli, þegar þeir geta ekki lengur greitt fyrir rafmagnið. Það dugar ekki alltaf að brosa bara í erlendar myndavélar. Stundum þarf vitsmuni, fyrirhyggju og stjórnvisku líka! Það þrennt virðist oft skorta hjá íslenskum stjórnmálamönnum, enda „ratar“ sumir hverjir.
[Pí-rati og sí-rati]
Guð á margs að gæta hér,
gæfan ei til sölu.
Gleymdi hann að gefa þér,
greindarvísitölu?
Samkeppni á raforkumarkaði í Bretlandi nær ekki máli (eins og Steve Thomas hefur bent á) og enn ólíklegra að hún verði annað en fákeppni, okur og einokun á Íslandi. Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, bendir réttilega á það að með innleiðingu uppboðsmarkaðar, í heildsölu rafmagns, á vegum Landsnets, sé verið að innleiða úrelt kerfi[ii] sem menn vilja þegar breyta á meginlandi Evrópu [innan framkvæmdastjórnar ESB].[iii] Áður en ritsíminn kom til sögunnar hefði mátt skilja þetta, að lítil og stopul samskipti gerðu mönnum erfitt um vik að fylgjast með þróun í öðrum ríkjum. En það á ekki við á tímum Internets. Spyrja má: hvaða hagsmunir þrýsta á innleiðingu úrelts kerfis?
Rafmagn sem „vara“ hefur mikla sérstöðu. Það stafar ekki hvað síst af því að nákvæmt jafnvægi þarf að ríkja á milli framleiðslu annars vegar og notkunar hins vegar. Menn safna ekki byrgðum í framleiðslu riðstraums, til þess að jafna út eftirspurnar- og framboðsáföll. Hins vegar leikur vatnsmagn í miðlunarlónum virkjana mjög stórt hlutverk. Stjórnun á því þarf nauðsynlega að vera innanlands og á innlendum forsendum [einfaldlega til þess að kerfið virki eins og því er ætlað].
„Samkeppni“ gegn neytendum
Hugtakið markaðsstyrkur [market power] fékk vægi í raforkuiðnaðinum snemma á tíunda áratug síðustu aldar, í kjölfar opnunar raforkumarkaða beggja vegna Atlantshafsins.[iv] Hugtakið vísar til hlutfallslegrar getu fyrirtækis til þess að hagræða verði á hlut [vöru] á markaði með því að hagræða framboði, eftirspurn eða hvoru tveggja.[v] Yfirlýst markmið þess að opna raforkumarkaði eru þau að ýta undir verðlækkanir og halda verði sem næst jaðarkostnaði og auka gæði þjónustunnar [hvaða „þjónustu“ er við það að bæta að fá öruggt rafmagn um heimtaug á sanngjörnu verði eins og lengstum hefur verið raunin á Íslandi? Þessir „markaðsfræðingar“ finna ekki upp hjólið þarna]. Víða hefur þetta reynst hrein öfugmæli.
Markmiðin kunna að virka vel í orði en hafa reynst mun flóknari í framkvæmd. Reynsla ríkja sem hafa opnað raforkumarkaði sýnir að markaðirnir skila ekki sjálfkrafa árangri í samkeppni. Sú breyting að treysta á markaðsverð gerir sumum fyrirtækjum fært að hagræða markaðsverðinu með því að beita markaðsstyrk sínum.
Komið er fram að rafmagn er verulega frábrugðið öðrum „vörum“ að því leyti að það er ekki hægt að geyma það [nema óbeint, t.d. á formi vatnsforða eða breyta riðstraumi í jafnstraum], auk þess sem flutningur er flókið mál. Raforkuverð fylgir því tilviljunarkenndum sveiflum sem almennt sjást ekki á öðrum hrávöru- eða fjármálamörkuðum.[vi] Þessu fylgja m.a. miklar sveiflur og verðhækkanir [verðtoppar]. Það hefur aftur í för með sér að auðveldara er að misnota markaðsstyrk og erfiðara að fylgjast með og stjórna honum.[vii]
Afleiðingar markaðsmisnotkunar eru ekki einungis þær að færa til auð á milli viðskiptavina og framleiðenda [frá viðskiptavinum], misnotkunin hefur einnig áhrif á hagkvæmni í rekstri og fjárfestingum. Misbeiting á markaðsstyrk veldur hærra verði á heildsölumarkaði og gefur villandi vísbendingar [signals] um verð vegna fjárfestinga og samninga. Það getur síðan leitt til þess að mótuð er röng stefna og bilunum fjölgar í raforkukerfum. Að lokum getur skaðinn sem af þessu hlýst orðið meiri en verið hefði án samkeppni.[viii] Raforkukreppan í Kaliforníu 2000-2001 er dæmi um það, þar sem skortur á rafmagni og skammhlaup í raforkukerfum fylgdu markaðsvæðingunni.
Af þessu sést að samkeppni hefur ekki ævinlega í för með sér aukna skilvirkni og lægra verð til neytenda. „Trúin á markaðsverðið“ er þó æðri allri skynsemi og öllum rökum. Hún lifir sjálfstæðu lífi í huga þeirra sem hana hafa tekið, alveg óháð öllum staðreyndum og rannsóknum.
Óteygin eftirspurn vísar til skorts á eftirspurnarstýringu [demand response] gagnvart heildsöluverði. Á raforkumörkuðum kaupa neytendur rafmagn í hvert sinn sem þeir kveikja á rafbúnaði. Innan þeirrar millisekúndu þurfa þeir aldrei eða hafa enga möguleika til að athuga verðið fyrst til að bregðast við því.
Óteygni (eða ósveigjanleiki) framboðs tengist aftur á móti afkastagetu og takmörkunum raforkunets. Rafmagn er flutt um net þar sem stöðugt þarf að vera jafnvægi á milli „innspýtingar“ og notkunar, eins og komið er fram (til að tryggja rétta tíðni). Netkerfi hafa ákveðna flutningsgetu. Sé farið fram úr henni getur myndast yfirálag [congestion]. Þegar um viðvarandi hindranir er að ræða dugar ekki að vega upp framboðsskort, vegna ónógrar afkastagetu, með því að bæta rafmagni inn á kerfið [enda er „flöskuhálsinn“ þá í dreifikerfinu].[ix]
Í slíkum tilvikum getur fyrirtæki með markaðsstyrk boðið upp verðið, eins hátt og menn kjósa, þar til síðasti viðskiptavinurinn hverfur af markaði. Þessi galli hefur mjög beint sjónum manna að mikilvægi markaðsstyrks á orkumörkuðum, jafnvel þeim sem lúta mikilli skipulagningu.[x]
Að lokum
Það hefur oft komið fram opinberlega að styrkja þurfi dreifikerfi raforku á Íslandi en deilur hafa lengi staðið um það hvort og þá hvar leggja eigi háspennulínur. Sumir benda á kosti jarðstrengja. Landsnet og fleiri benda hins vegar á aukinn kostnað vegna þess og eins launafl [„reactive power", "Q"] í jarðstrengjum sem aftur veldur tapi og vandræðum við stjórnun í raforkukerfum. Launafl er mikilvægt atriði í riðstraumskerfum. Því má líkja við „froðuna á bjórnum“ (sjá mynd).
Mynd 1
Mynd 1 sýnir raunafl og launafl með líkingu sem margir þekkja vel.[xi]
Ágætir rafmagnsverkfræðingar hafa bent á uppsetningu á spólum til þess að draga úr stærð launaflsins. En það er einnig mögulegt að fara aðra leið, vel þekkta, sem e.t.v. væri vert að skoða vel á Íslandi. Hún er í stuttu máli sú að leggja jafnstraumsjarðstrengi, með tilheyrandi endabúnaði, afriðlum og áriðlum og losna þannig við launaflið („froðuna“) á viðkomandi flutningsleið. Það tapast líka orka í endabúnaðinum. Þar þarft að meta kostnað á móti ávinningi [eins og ævinlega]. Hitt er þó ljóst, að jafnstraumsjarðstrengir[xii] eru í notkun erlendis.
Um þetta segir m.a. á heimasíðu Amprion: „Hingað til hafa jafnstraumsstrengir fyrst og fremst verið notaðir neðansjávar.[xiii] Sem dæmi má nefna að þessi tækni er notuð í Norðursjó til að tengja stór vindorkuver á hafi úti, sem staðsett eru langt út á sjó, við netið á landi. Innan raforkuiðnaðarins er í dag mjög lítil reynsla af lagningu jafnstraumsstrengja í jörðu, á landi.“ Hins vegar er talið að notkun jafnstraumsjarðstrengja á landi fari vaxandi í framtíðinni.
Hvaða leið sem farin verður [eða „blönduð leið“] í styrkingu flutningskerfisins er lykilatriði að íslensk þjóð losi sig sem fyrst frá Innri orkumarkaði Evrópusambandsins og nái aftur fullri stjórn á eigin orkumálum. Þannig má smám saman bæta þann skaða sem orkupakkar ESB hafa valdið, bæði með uppskiptingu, aukinni yfirbyggingu, hærra raforkuverði, auk þess sem yfirstjórn á raforkuframleiðslu er nú komin til orkustofnunar Evrópu – ACER, með tilheyrandi Landsreglara ESB [og sumir fjölmiðlar kalla enn „Orkustofnun“].
Enn fremur þarf að halda þjóðaratkvæðagreiðslu[xiv] um það [þar sem þingið skuldbindur sig til að hlíta niðurstöðunni] hvort þjóðin er samþykk því að reistir verið vindorkugarðar á Íslandi og þá hvar. Það gengur ekki að stjórnmálamenn, braskarar og fjárglæframenn, vaði yfir lönd og jarðir, á „skítugum skónum“, og spyrji þjóðina ekki álits. Það er algerlega ótækt. Ásýnd landsins breytist verulega með tilkomu vindorkugarða og geta þeir hæglega virkað eins og „ferðamannafælur“ á stórum svæðum. Hvar eru talsmenn náttúruverndarsamtaka núna? Hvers vegna heyrist ekkert frá þeim opinberlega?
Þá væri fróðlegt að fá álit íslenska Landsreglarans á eftirfarandi: „Gert er ráð fyrir því að upphafleg 2.000 MW framleiðsla HIP Atlantic, sem stefnt er að við suður- og austurströnd Íslands, hefjist snemma árs 2025,[xv] jafnhliða lokun síðustu kolaorkuveranna í Bretlandi og síðustu kjarnorkuveranna af upprunalegri kynslóð kjarnorkuvera í atvinnuskyni.“[xvi] Þá er haft eftir HIP að háspennujafnstraumssæstrengirnir [HVDC] muni aldrei tengjast íslenska flutningskerfinu. Það er afar ótrúverðug fullyrðing. Því er haldið fram að raforkuframleiðslan verði eingöngu fyrir breskan markað. Á þetta e.t.v. að falla saman við vindorkugarðana sem nú er rætt um á „öðrum hverjum hól“ á Íslandi? Það er ólíklegt að „íslenskir“ vindbraskarar láti þetta tækifæri sér úr greipum ganga en óski eftir samtengingu við breska flutningskerfið. Þessi mál þarf að fá á hreint. Góðar stundir!
[i] European Federation of Public Service Unions (EPSU). (2013, May 13). New Study Concludes EU’s Internal Energy Market Remains a Dangerous Experiment and Threatens Climate Change Policy. Retrieved October 22, 2022, from: https://www.epsu.org/sites/default/files/article/files/PR_2013_05_13_new_study_EU_energy.pdf
[ii] Sjá einnig: European Commission. Action and measures on energy prices. https://energy.ec.europa.eu/topics/markets-and-consumers/action-and-measures-energy-prices_en
[iii] Sjá einnig: Hirth, L. (2022, September 2). Explainer the merit order model and marginal pricing in electricity markets. Neon.energy. Retrieved October 24, 2022, from https://neon.energy/marginal-pricing
[iv] Pham, T. (2019). Market Power Issues in Liberalized Wholesale Electricity Markets: A Review of the Literature with a Look into the Future. Revue d'économie politique, 129, 325-354. https://doi.org/10.3917/redp.293.0325
[v] Kenton, W. (2020). What Is Market Power? Investopedia. https://www.investopedia.com/terms/m/market-power.asp
[vi] Sjá einnig: Seqens. (2021, October 6). Raw materials, energy and transport: rising prices & availability. Seqens. Retrieved October 24, 2022, from https://www.seqens.com/en/rising-prices-and-availability-of-raw-materials-energy-and-transport/
[vii] Ibid.
[viii] Ibid.
[ix] Ibid.
[x] Ibid.
[xi] Heimild: ElectronicsTutorials. Reactive Power. https://www.electronics-tutorials.ws/accircuits/reactive-power.html
[xii] Sjá einnig: Amprion GmbH. Underground DC cables on land. https://www.amprion.net/Transmission-System/Technology/Underground-cable/Underground-DC-cables.html
[xiii] Svartletrun mín.
[xiv] Sjá einnig: Goble, G. (2022, August 16). Voters will decide whether to allow industrial wind farms in Crawford County. Telegraph. Retrieved October 24, 2022, from https://eu.bucyrustelegraphforum.com/story/news/2022/08/16/crawford-county-voters-will-decide-wind-farm-issue-elections-board-rules/65404285007/
[xv] Svartletrun mín.
[xvi] Russel, T. (2021, May 24). 10,000 MW Wind Project planned for North Atlantic. 4c Offshore. Retrieved October 24, 2022, from: https://www.4coffshore.com/news/102c000-mw-wind-project-planned-for-north-atlantic-nid23555.html
One Comment on “Lækkar samkeppni á raforkumarkaði verð til notenda?”
Your point of view caught my eye and was very interesting. Thanks. I have a question for you.